Ungmenni frá Marokkó, Houssin Bsraoi að nafni, kom til landsins í leit að lífi árið 2016. Hann drýgði tvö brot sem að mati íslenskra yfirvalda kölluðu á að hann skyldi geymdur með kynferðisglæpamönnum í fangelsi, og barinn til óbóta af öðrum föngum án þess að nokkur lyfti fingri honum til varnar og verndar.
Fyrra brot hans var, að mati íslenskra stjórnvalda, að segjast yngri en hann væri – ekki sextán heldur átján eins og stjórnvöld töldu sig sýna fram á með tannrannsóknum. Þar með væri hann ekki barn og ætti þess vegna engan rétt á íslenskri mannúð.
Hitt brotið, sem þótti kalla á vistun á versta stað sem Ísland gat fundið honum, var að reyna að flýja land – eða öllu heldur það limbó sem mönnum er boðið hér upp á eftir að hafa fengið neitun á landvistarleyfi.
„Hann þykist vera barn en er það ekki; hann reynist að bjarga sér á flótta en hefur ekki bréf upp á að mega fara. Þetta tvennt skal hann fá að greiða dýru verði.“
Hann þykist vera barn en er það ekki; hann reynir að bjarga sér á flótta en hefur ekki bréf upp á að mega fara. Þetta tvennt skal hann fá að greiða dýru verði. Svona starfar hún stundum, íslensk réttvísi. Svona getur hún birst okkur, íslensk mannúð.
Heimurinn er fullur af fólki á flótta, nauðleitarmönnum sem eru á flótta undan náttúruhamförum, allsleysi, tækifæraskorti, harðstjórn, hugmyndafræði – og náttúrlega viðskiptamönnum Atlanta-flugfélagsins; vopnamöngurum og hryðjuverkamönnum sem alltaf beina sprengjum sínum gegn almenningi, aldrei öðrum stríðsmönnum.
Mannkynið er á fleygiferð og með vaxandi loftlagsbreytingum á bara eftir að fjölga því fólki sem flosnar upp og fer á vergang. Brotabrot af brotabrotabroti brotabrotabrotabrots kann að koma hingað til lands í leit að skjóli og möguleikum til að skapa sér líf. Við teljum okkur ekki geta veitt nema brotabrotabroti af því brotabroti hæli, og þykir hverjum sitt um það, en við getum vonandi séð til þess að enginn, heimamaður eða aðkomumaður, eigi eftir að upplifa íslenska réttvísi og íslenska mannúð eins og Houssin Bsraoi hefur fengið að gera fram að þessu. Það er grundvallarstefna hjá jafnaðarmönnum, og þar með hjá okkur í Samfylkingunni, að mannréttindi séu altæk, nái til allra manna, líka þeirra sem kunna að gera sig seka um hin og þessi brot; meira að segja þeirra sem ljúga til um aldur eða laumast í skip í leit að lífi og ljósi á okkar stóru jörð.
Athugasemdir