Maðurinn við hliðina á mér í flugvélinni er að maula Smarties. Þetta er kannski síðasti séns í bráð, því hann er á leiðinni til Ungverjalands til að hitta tannlækni. Það sama gildir um konu hans. Lággjaldaflugfélagið Wizzair flýgur beint til Búdapest og gerir slíkar ferðir mögulegar, aðgerð sem kostar yfir milljón krónur á Íslandi kostar þau aðeins fjórðunginn hér. En það er ýmislegt annað en tannlækna að sjá hér í borg, eins og brátt mun koma í ljós.
Ég var síðast í Búdapest í ágúst og lenti í miðri tónleikahátíð, klukkutíma leigubílaröð var frá flugvellinum og að meðaltali þurfti maður að spyrja fjóra áður en maður fékk skaplegt verð, en borgin er mun vingjarnlegri um vetur. Það er komið fram yfir miðnætti en ég er sóttur af hostelinu fyrir litlar 3.000 krónur. Og þar fær ég snjallsíma afhentan til að leiðbeina mér um borgina.
Eitt það fyrsta sem ber að kynna sér er hin víðfræga ungverska matargerð. Helsta einkenni hennar er paprikan, en nafn hennar er víst héðan komið. Það er þó mismunandi hvernig hún hefur ratað inn í önnur mál. Á ensku er „paprika“ aðeins notað um krydd en á ítölsku merkir pepperoni pylsa með paprikukryddi. Paprikuplantan gefur einnig af sér jalapeno og cayenne, og svo hefur þetta skolast til þannig að í Þýskalandi lendir maður stundum í þeim harmleik að panta sér pepperonipitsu og fær þá flatböku með engu nema jalapeno á. Um hitt eru flestir þó sammála að hið sæta afbrigði sem vér Íslendingar jafnt sem Ungverjar nefnum papriku er héðan komið og þykir þjóðarréttur, þó elstu heimildir nái ekki aftar en til 1920.
Þekktasti réttur heimamanna er gúllassúpan, með mikilli papriku í. Almennt gildir það um veitingastaði hér að það tekur langan tíma að framreiða matinn, en þegar hann kemur er hann svo brennandi heitur að maður þarf að bíða enn um stund. Sé maður einn á ferð er því gott að hafa bók með sér, en jafnvel þetta dugir ekki alltaf sem vörn gegn fiðluleikurum sem ganga borða á milli og reyna að efla rómantíkina hvort sem beðið er um það eða ekki. En þrátt fyrir þetta ónæði er ungverskur matur afar ljúffengur, og ódýr á íslenskan mælikvarða. Uppáhaldið mitt reyndist vera kjúklingur með gæsalifur, sveppum og osti, en gæsalifur er hér einnig í hávegum höfð. Einnig er nauðsynlegt að smakka ungverskar pylsur, sem eru hitaðar með því að setja straujárn ofan á. Maður þarf þó stundum að vara sig á þjónunum, sem bjóða upp á snafs á eftir sem reynist kosta álíka mikið og máltíðin og gefa þar að auki vitlaust til baka. Fyrir flesta venjulega eftirmiðdaga dugir plómubrandíið Pálinka vel sem digestif, en Pálínka er lögverndað heiti hér í landi. Nú, eða þá bitterinn Unicum, sem minnir örlítið á Jagermeister.
Vígvöllur Evrópu
En hafandi þannig satt líkamlega hungrið er kominn tími á hið andlega. Á Þjóðminjasafninu er margt á að líta, svo sem hnakkur Drakúla sem gerður er úr hvítu beini og svo óþægilegur að sjá að manni finnst sem hann yrði betur geymdur undir óvinum hans. Hér er einnig píanó Beethovens, sem Ungverjinn Franz Liszt eignaðist og gaf svo safninu. Á sömu hæð dansar fólk Vínarvalsa í fullum skrúða. Áhugaverðast er þó að sjá hvernig Ungverjaland hefur stundum verið útnári Evrópu, þrátt fyrir að vera staðsett í álfunni miðri. Sókn Mongóla vestur á bóginn lauk hér árið 1241, en Mongólarnir umkringdu ungversku riddarana á undanhaldi svo þeir gátu enga björg sér veitt og slátruðu þeim síðan öllum. Aðeins andlát hins mikla Khans Ögedei leiddi til þess að herinn var kallaður heim áður en hann náði að Atlantshafi. Um 300 árum síðar lagði tyrkneskur her, undir stjórn Súlemans hins mikla, landið undir sig og varð það nyrsti hluti Tyrkjaveldis allt þar til Austurríkismenn ráku þá burtu undir lok 17. aldar. Ef til vill er þetta ein ástæða þess að Ungverjar líta gjarnan á sig sem fórnarlömb stórveldanna og útlendingaótti gerir stundum vart við sig, en líklega þurfum við að skyggnast aðeins betur í söguna. Ungverjaland varð formlega að tvíríki í konungssambandi við Austurríki árið 1867, sem stóð þar til að ósigrinum í fyrri heimsstyrjöld kom, en svo skemmtilega vill til að Ísland sigraði bæði í knattspyrnu á 100 ára afmæli þess að síðasti keisarinn var krýndur árið 1916, annars vegar 2-1 og hins vegar 1-1.
Trianon-friðarsamningarnir, sem fylgdu í kjölfar stríðsins, voru álíka hataðir af Ungverjum og Versalasamningarnir voru af Þjóðverjum. Þeir misstu um tvo-þriðju hluta landsvæðis og íbúafjölda, en það fylgir ekki alltaf sögunni að flestir þessara íbúa voru ekki Ungverjar heldur Tékkar, Slóvakar, Pólverjar, Rúmenar og fleiri sem nú tilheyrðu eigin þjóðríkjum. Ungverjar gengu í lið með Þjóðverjum í seinna stríði til að endurheimta þetta glataða landsvæði og gekk vel í fyrstu. Á safninu kemur fram að á austurvígstöðvunum hafi þeir aðeins ætlað sér að sinna lögregluaðgerðum handan víglínunnar, en þýska stríðsvélin heimtaði stöðugt meiri fórnir á austurvígstöðvunum.
Fangaklefar og fjallaspítalar
Þeir sem hafa sterkari taugar hafa ef til vill áhuga á að heimsækja Terror Háza, eða hryllingshúsið, á aðalgötunni Andrássy. Ungverjar undir stjórn Horthys aðmíráls voru dyggir stuðningsmenn Þjóðverja allt þar til 1944 að stríðið virtist tapað og hann vildi semja frið við Rússa. Setti Hitler hann þá af og við tók Örvakrosshreyfingin, hin ungverski nasistaflokkur. Horthy hafði forðast að afhenda ungverska gyðinga í útrýmingarbúðirnar en nú varð breyting þar á. Svíinn Raoul Wallenberg bjargaði tugum þúsunda með því að gefa þeim sænska passa en hvarf sjálfur eftir að Rússar tóku yfir landið. Hann sást síðast í sovésku fangelsi en örlög hans eru enn ráðgáta, sænski skatturinn lýsti því formlega yfir að hann teldist látinn árið 2016. Eftir stendur þó að um 600.000 ungverskir gyðingar týndu lífi í þessum lokaþætti helfararinnar.
Umsátrið um Búdapest var eitt það blóðugasta í seinni heimsstyrjöld og kostaði um 130.000 manns lífið. Undir kastalanum á Búdahæð má sjá herspítala sem notaður var í stríðinu og þar sem gínur gefa nokkra hugmynd um hvernig ástandið var. Þjóðverjar sprengdu óvart upp áveitukerfið svo að ekki var hægt að þvo sárabindi með þeim afleiðingum að margir sýktust. Spítalinn var áfram notaður sem kjarnorkubyrgi í kalda stríðinu og það sama gildir um höfuðstöðvar Örvakrossins á Andrássy, sem nú voru notaðar sem fangelsi fyrir andófsmenn gegn kommúnismanum og má enn sjá fangaklefana á neðstu hæð.
Eitt frægasta atvik kalda stríðsins í Evrópu var uppreisn Ungverja árið 1956. Þúsundir létust í innrás Sovétríkjanna og yfir hundrað þúsund flúðu land, sumir til Íslands þar sem afkomendur þeirra búa enn. Þessa er víða minnst, og ekki bara á söfnum. 23. október, dagurinn sem uppreisnin hófst, er almennur frídagur í landinu. Á götuhorni einu má sjá stóra mynd af forsíðu tímaritsins Time frá janúar 1957, þegar ungversku frelsishetjurnar voru valdar maður ársins, en þess má geta að aðstandendur Metoo hlutu sömu vegtyllu fyrir árið í fyrra. Þá má nefna hina mjög svo þjóðernissinnuðu kvikmynd Children of Glory frá 2006, sem fjallar annars vegar um uppreisnina og hins vegar um kappleik Rússa og Ungverja í vatnapóló mánuði seinna, sem kallaður hefur verið blóðugasti vatnapólóleikur sögunnar, enda áttu Ungverjar harma að hefna.
Finnó-úgrar og hægripopúlistar
Þótt vissulega hafi uppreisnin og Sovéttíminn allur verið hinn mesti harmleikur, þá veltir maður því eigi að síður fyrir sér þessari áráttu að stilla þjóðinni svona upp sem fórnarlambi. Á Balkanskaganum síðasta sumar sá ég einmitt hvernig allar þjóðir þar voru fórnarlömb allra annarra, enda hafa átökin haldið áfram fram á daginn í dag. Og vissulega spilar söguskoðunin hér einnig rullu í samtímastjórnmálum. Það kemur brátt í ljós að hryllingssafnið var stofnað að undirlagi Viktors Orban forsætisráðherra, en stjórnarháttum hans hefur verið líkt við valdboðsstefnu og ölvaður útsendari Evrópusambandsins sagði eitt sinn „hér kemur einræðisherrann“ þegar Orban steig á svið. Flokkur Orbans, Fidesz, er hægri popúlistaflokkur sem lítur á Ungverjaland sem útvörð kristinnar menningar og er andsnúinn innflytjendum og um leið efins um veruna í Evrópusambandinu. Þriðji stærsti flokkur landsins er svo Jobbik, sem hefur verið lýst sem nýnasistum. Hvað veldur þessari áráttu í ungverskum stjórnmálum?
Það hefur verið sagt að þeir sem þekkja ekki söguna séu dæmdir til að endurtaka hana, og þó finnst manni stundum sem það sé einmitt of mikil áhersla á söguna. Ekki aðeins uppreisnin 1956 heldur einnig ósættið í kringum Trianon-samningana eru í hávegum höfð, Ungverjaland er þolandi en ekki gerandi eins og það þó var einnig í heimsstyrjöldunum báðum. Ef til vill líta Ungverjar á sig sem útverði einhvers konar ímyndaðrar Evrópumenningar, en sjálfur eru þeir afar blandaðir af öllum þeim þjóðflokkum sem einhvern tímann hafa átt hér leið um. Tungumálið er skylt finnsku og stundum finnst manni af hljómfallinu sem maður sé umkringdur finnskum túristum, en þeir eru víst allir í Tallinn. Þegar nánar er að gáð eru þó fá orð sameiginleg. Hvaðan hin upprunalega finnó-úgríska tunga, sem hefur einnig getið af sér eistnesku og samísku kemur, veit enginn. Ein skemmtilegasta kenningin er sú að einhvern tímann á ísöld hafi íbúar Evrópu lokast af í þrem ættbálkum, indó-evrópskum, baskneskum og finnó-úgrískum, og þetta sé ástæðan fyrir þessum þrem afar mismunandi málaættum álfunnar. Hugmyndir um hreinleika þjóðanna eru alltaf að hluta til, ef ekki að mestu leyti, þjóðsögur, en hafa sinn áhrifamátt fyrir því.
Ríkidæmi og fátækt
En samtímavandamál eru aldrei aðeins sögulegs eðlis. Á Andrássy-götunni má ef til vill finna aðra og nærtækari skýringu. Þó að vissulega sé margt hér ódýrt miðað við Ísland er ekki hægt að segja að það sama gildi fyrir Ungverja sjálfa þar sem meðallaun eru undir 100.000 krónum á mánuði, þau þriðju lægstu innan Evrópusambandsins. Eigi að síður hafa tískubúðir lagt undir sig aðalgötuna sem eru jafnvel dýrari en þær sem finna má í stórborgum Vestur-Evrópu. Systir mín, sem hefur búið bæði í Noregi og Kosovo, kemur með mögulega skýringu á þessu. Í Noregi er búist við því að flestir geti keypt sér eina og eina tískuvöru við og við. Í gömlu austurblokkarlöndunum er það hins vegar svo að þeir ríkustu gera öll sín innkaup í þessum búðum, en flestir stíga aldrei fæti þangað inn. Þannig geta búðir þessar verið dýrari hér en jafnvel í hinni annars svo rándýru Ósló.
Síðar um kvöldið og í allt öðru hverfi rekst ég á stúlku sem hefur áhyggjur af manni sem sefur fyrir framan blokkarinngang hennar. Hún hringir í sjúkrabíl og ég ákveð að bíða með henni, enda ekki oft sem maður fær óbeint tækifæri til að bjarga mannslífi. Eftir um það bil hálftíma kemur bíllinn, en heldur áfram án þess að stoppa. Hún hringir aftur og segir mér að beiðnin hafi ekki verið rétt skráð. Hálftíma síðar kemur annar sjúkrabíll og í þetta sinn ganga menn út. Þeir ýta örlítið við hinum heimilislausa, sem segist helst vilja sofa áfram. Þeir segja að það sé ekkert meira að gera og halda á brott. Sá sofandi heldur áfram að hrjóta. „Ég athuga með hann síðar,“ segir stúlkan og fer inn. Það er víst ekki meira hér að gera. En ef til vill segir þetta atvik okkur eitthvað um Ungverjaland. Hægri popúlistaflokkarnir vilja bæta velferðarkerfið á meðan vinstriflokkarnir, sem voru við stjórn eftir fall Sovétríkjanna, gengu frjálshyggjunni á vald. Þar sem aðeins öfgaflokkar standa fyrir velferð og tekjumunur er gríðarlegur er kannski ekki að spyrja að leikslokum.
Hellir Drakúla og Ungverjasund
Eitt af helstu áhugamálum Búdapestbúa er að fara í sund og mikið er af glæsilegum sundhöllum í borginni. Rétt hjá Hetjutorgi, þar sem sjá má sumar af helstu þjóðhetjum Ungverja á stalli, er Széchenyi-sundlaugin sem lítur út eins og höll að utan. Það er frekar dýrt inn, rúmar tvö þúsund krónur, og ekki munaður sem allir geta veitt sér, en ég ákvað að láta mig hafa það. Ég bregð mér í laugina og það að synda framhjá grískum styttum býður upp á ágætis útsýni, en ég er ekki kominn langt áður en sundlaugarvörðurinn flautar á mig og gefur mér merki um að klæðast sundhettu. Ég á ekki slíka og lítið verður úr sundsprettinum, en öllu heilli er bar við hliðina á heitu lauginni. Fyrst þarf ég að hlaupa aftur inn í búningsklefann, sem er hálfgert völundarhús, til að sækja pening og þegar ég er kominn út aftur er búið að loka barnum. Ég banka á dyrnar og tekst að fá afgreiðslu og bregð mér út í heitu laugina með kaldan bjór. Við bakkana sitja menn og tefla á þartilgerðum borðum, sem virðast mun betur nýtt en þau við Torfuna. Aftur vek ég athygli laugarvarðar, sem segir mér að bannað sé að drekka bjór í lauginni, þótt annar hvor maður geri það. Jæja, hann var næstum búinn hvort eð var, mér tókst að leika á laugarvörðinn í þetta sinnið.
Eitt er enn eftir. Ef til vill er Drakúla greifi frægasti Ungverji allra tíma, þótt þjóðerni hans sé nokkuð á reiki, enda er hann samansettur úr hinum ýmsu þjóðernum eins og fleiri hér um slóðir. Rúmenar líta á hann sem þjóðhetju, enda eiga þeir Transylvaníu, en í þá daga tilheyrði hún Ungverjalandi. Í skáldsögu Bram Stoker er hann látinn tala þýsku en tekið er fram að hann sé kominn af öllum helstu skítmennum sögunnar, þar á meðal Húnum og íslenskum víkingum. Þessi landi okkar gekk fram af Ungverjum sjálfum fyrir framkomu sína gegn þjóðaróvininum Tyrkjum. Ekki aðeins átti hann til að stjaksetja þá, eins og frægt er, heldur fór það svo mikið í taugarnar á honum hvað Tyrkir tóku sjaldan ofan að hann lét negla húfurnar við hausinn á þeim. Undir Búdakastala var hann geymdur í dýflissu í 14 ár vegna þessa og hana er enn hægt að skoða. Ég er einn síðasti gesturinn inn og er ekki kominn langt þegar slökkt er á ljósunum. Maður birtist og réttir mér lukt, og mér er hætt að standa á sama þegar ég álpast um hið svokallaða Labyrinth í kolniðamyrkri. Svona líta þá raunveruleg völundarhús út, og mér er afar létt þegar tekst að finna útganginn. Það er gott að fá sér kalt borð og bjór á Huszarstaðnum þegar út er komið, sem er nefndur í höfuðið á riddaraliðinu með loðhúfur sínar sem víðfrægt var um alla Evrópu.
Í flugvélinni á leiðinni heim hitti ég aftur norðlenska parið, sem nú er líklega orðið heldur betra til tannanna. Ungverskir læknar þykja og afar góðir, enda eru margir íslenskir læknanemar sem stunda nám í borginni Debrecen, þeirri næststærstu í landinu á eftir Búdapest. Ef aðeins tækist að skipta gæðunum jafnar væri þetta hinn ágætasti staður til að búa á. En það má líklega segja um fleiri.
Athugasemdir