Engar merkingar eru innan Leifsstöðvar sem benda komufarþegum á almenningssamgöngur. Forsvarsmenn Strætó hafa óskað eftir því við Isavia að ferðamönnum sé bent á vagnana til jafns við rútur og leigubíla. Þeim hafi verið lofað bættum merkingum utandyra síðasta sumar, en við það hafi ekki verið staðið. Upplýsingafulltrúi Isavia segir að það standi til á næstu mánuðum.
„Þetta er eini flugvöllur Evrópu sem ég veit um þar sem er ekki bent á almenningssamgöngur,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó. „Ef þú ferð á London Heathrow er bent á neðanjarðarlestina og strætisvagna, þó að það séu leigubílar og annað í boði líka. Það að opinbert fyrirtæki eins og Isavia sé að standa í vegi fyrir að almenningssamgöngur séu auglýstar finnst mér furðulegt.“
Þurfa að ganga 200 metra til að finna Strætó
Til að finna Strætó þurfa komufarþegar að labba 200 metra fram hjá skammtímastæðunum fyrir utan flugstöðina. Í júní síðastliðnum fékk Strætó upplýsingar frá Isavia um að til stæði að bæta við fjórum skiltum utandyra þar sem bent er á almenningssamgöngur. Við það hafi ekki verið staðið, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. „Það er ekkert skýli, bara staur, en ekkert merkt annars,“ segir Guðmundur. „Okkur langaði að hafa skilti þar sem er bent á almenningssamgöngur, en fannst eins og þau settu okkur undir sama hatt og rútufyrirtæki.“
Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, ætlar fyrirtækið sér að uppfylla þetta loforð. „Til stendur að uppfæra merkingakerfi fyrir utan flugstöðina nú á fyrstu mánuðum þessa árs svo að farþegar eigi auðveldara með að rata að þeim samgöngulið sem þeir hyggist nýta sér,“ segir Guðjón. „Merkingar verða áfram bæði á ensku og íslensku.“
Guðjón segir jafnframt að til standi að færa stoppistöð Strætó til, en ekki hvort hún verður nær eða fjær flugstöðinni eða hvort aðstaða verði bætt með einhverjum hætti. Sem stendur er ekki skýli við stoppistöðina. Engin svör fengust um hvort Strætó yrði bætt inn á skiltin innanhúss.
Ódýrasti kosturinn til Reykjavíkur
Á íslenska vef Keflavíkurflugvallar er sérstakur flipi þar sem upplýsingar um ferðir Strætó er að finna. Á enska vefnum hins vegar er Strætó flokkaður með einkareknu rútufyrirtækjunum Gray Line og Flybus undir flipanum „Buses“. Bæði rútufyrirtækin hafa greitt gjald fyrir stæði upp við flugstöðina.
Leið 55 hjá Strætó gengur frá Leifsstöð til miðborgar Reykjavíkur níu sinnum á dag og kostar miðinn 1.840 kr. Til samanburðar kostar slík ferð 2.700 kr. með Flybus, en ferðir eru tíðari og ferðatíminn styttri. Ætli farþegi frá Leifsstöð til eins af sveitarfélögunum á Suðurnesjum kostar ferðin þó aðeins 460 kr.
Athugasemdir