Rúmlega 55 prósent Íslendinga eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju á meðan hátt í 22 prósent eru andvígir aðskilnaði. Þá eru tæplega 23 prósent í meðallagi hlynntir eða andvígir. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem Maskína gerði í samstarfi við Stundina.
Töluverður munur er á afstöðu fólks eftir aldri, en yngri aldurshópar eru mun líklegri til að vera hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju en þeir sem eru eldri. Þannig eru rúmlega 75 prósent svarenda á aldrinum 18 til 29 ára hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju, en aðeins 8,6 prósent í þeim aldurshópi eru andvígir. Hins vegar eru 40 prósent þeirra sem eru á aldrinum 60 ára og eldri hlynntir aðskilnaði, en 34,8 prósent eru andvígir.
Búseta hefur einnig áhrif á afstöðu fólks til aðskilnaðar, en 64,4 prósent Reykvíkinga eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju á meðan einungis 37,5 prósent íbúa á Norðurlandi vilja aðskilnað. Alls eru 56,5 prósent íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum hlynnt aðskilnaði, 52,9 íbúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, 47,8 prósent íbúa á Austurlandi og 46,9 prósent íbúa á Suðurlandi og Reykjanesi.
Afstaða fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju er einnig breytileg eftir stjórnmálaskoðunum. Rúmlega 89 prósent þeirra sem kjósa Pírata eru hlynntir aðskilnaði og aðeins rúmlega sex prósent eru andvígir. Kjósendur Miðflokksins eru ólíklegastir til að vilja aðskilnað ríkis og kirkju, en 19,4 prósent þeirra sem kjósa Miðflokkinn eru hlynntir aðskilnaði en 39,5 prósent eru andvígir aðskilnaði. Þá segjast 75,5 prósent kjósenda Vinstri grænna vilja aðskilnað, 70,1 prósent kjósenda Viðreisnar og 62,3 prósent kjósenda Samfylkingarinnar. Meiri andstöðu var að finna meðal kjósenda annarra flokka; 23,7 prósent kjósenda Flokks fólksins eru hlynntir aðskilnaði, 26,3 prósent kjósenda Framsóknarflokksins og 37,4 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
Maskína spurði síðast um afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju árið 2015. Ekki er marktæk breyting á afstöðu milli 2015 og 2018 en árið 2015 sögðust 49 prósent landsmanna vera hlynntir aðskilnaði.
Athugasemdir