„Þær eru að leita að karlmönnum,“ segir í vinsælu myndbandi sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum í dag, þar sem gefið er til kynna að útlendingar sem flytja til Íslands muni fá greitt fyrir að giftast íslenskum konum. „Útlendingar munu fá fimm þúsund dollara á mánuði fyrir hverja íslenska konu sem þeir giftast. Fyrir hverja íslenska konu sem þú giftist munu yfirvöld gefa þér hús,“ segir í myndbandinu.
Grínvefurinn 2KOOL birtir myndbandið og hafa nú þegar 3,2 milljónir horft á það. Myndbandið er augljóslega í ýkjustíl, en engu að síður birtir vefurinn fyrirspurn frá áhorfanda sem spyr út í sannleiksgildið.
„Vinsamlegast ekki gera þetta. Þetta leiðir bara til þess að íslenskar konur verða áreittar á netinu af hálfvitum,“ segir Svavar Knútur tónlistarmaður í ummælum undir myndbandinu.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Ísland er kynnt með þessum hætti. Fréttir af því að útlendingar fái greidda um hálfa milljón króna á mánuði fyrir að giftast íslenskum konum, vegna mannfæðar eða skorts á karlmönnum, hafa lengi gengið í arabaheiminum og í Afríku, svo eitthvað sé nefnt.
Þórunn Ólafsdóttir, baráttukona fyrir réttindum hælisleitenda, ræddi þessi mál á Facebook-síðu sinni árið 2016.
„Allir eru að tala um Ísland. Nú gengur póstur um netið á arabísku þar sem segir að íslenskur ráðherra hafi lofað þeim útlendingum sem giftast Íslendingum fimmþúsund dollurum í brúðargjöf. Ástæðan er sögð vera að við þurfum fleira fólk því Ísland sé svo fámennt. Fólk tekur þessu með fyrirvara en þið getið ímyndað ykkur spurningaflóð dagsins,“ sagði Þórunn.
Athugasemdir