Íbúðalánasjóður telur að afnám stimpilgjalds myndi að öllum líkindum leiða til hækkunar fasteignaverðs. Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um frumvarp sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins, með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í broddi fylkingar, lögðu fram öðru sinni þann 15. desember síðastliðinn. Þar er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið, en með þessu vilja þingmennirnir „auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði“.
Í greinargerð frumvarpsins segir meðal annars: „Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs.“ Íbúðalánasjóður tekur ekki undir þetta og segir að áhrif stimpilgjalda á fasteignaverð séu „að öllum líkindum til lækkunar.“
Fram kemur í álitinu að niðurstöður ýmissa rannsókna bendi til þess að sá viðskiptalegi ábati sem til komi vegna afnáms stimpilgjalds falli alfarið til seljenda, þ.e. að lækkun stimpilgjalda leiði til samsvarandi hækkunar íbúðaverðs. „Við aðstæður eins og á íslenskum fasteignamarkaði, þar sem framboð nýrra íbúða hefur brugðist hægt við verðbreytingum, er líklegra en ella að lækkun eða afnám stimpilgjalda skili sér út í hærra fasteignaverð,“ segir í umsögn Íbúðalánasjóðs sem er undirrituð af Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur, yfirlögfræðingi stofnunarinnar.
Þá er vakin athygi á því að breyting á stimpilgjöldum geti haft meiri áhrif á fasteignaverð en sem nemur skattbreytingunni. „Þannig geti lækkun stimpilgjalds um 0,8 prósentustig kaupverðs, eins og lagt er til með frumvarpinu, valdið hækkun fasteignaverðs sem nemur meira en 0,8 prósentustigum. Sé sú raunin enda kaupendur á að greiða meira fyrir íbúðir eftir lækkun stimpilgjalda.“
Í umsögn Samtaka atvinnulífsins um sama þingmál er einnig bent á að óvíst sé hvort frumvarpið nái því markmiði að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis. „Aðgerðir eins og þessar eru til þess fallnar að ýta undir eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem leiðir til verðhækkunar,“ segir þar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en meðflutningsmenn eru þau Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir og Brynjar Níelsson.
Athugasemdir