Ég er trúlaus. Alls konar fólk reynir oft að segja mér að ég sé það ekki en ég ætla að fá að ákveða það fyrir sjálfan mig. Ég trúi að við eigum að gera gott, einfaldlega vegna þess að þá líður okkur betur. Ekki segja mér að þar með trúi ég þá á eitthvert æðra afl, ég horfi ekki þannig á það. Ég er trúlaus, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr. Ég þekki auðvitað mjög marga sem trúa, sem er frábært því fjölbreytileikinn er það skemmtilegasta sem til er. Ég þekki fólk sem bæði nýtir sér þjónustu Þjóðkirkjunnar og fólk sem beinlínis starfar fyrir hana. Flest er þetta afbragðsfólk og sum þeirra tel ég til minna bestu vina. Þannig er lífið best, þegar ósammála fólk nær saman og gleðst. En það breytir því ekki að ég hef skoðanir. Og hér á eftir fara þær, mínar skoðanir.
Hér eru fimm ástæður fyrir því að við verðum að kljúfa Þjóðkirkjuna frá ríkinu.
Þau sem ráða fylgja ekki eigin orði
Ég var alinn upp við óreglulega kirkjusókn í æsku, fór meira að segja í sunnudagaskóla og fermdist án þess að hreyfa við mótmælum. Ég man hversu gott mér fannst til þess að hugsa að kirkjan væri þetta afl sem stuðlaði að því að allir hefðu það þolanlegt og enginn kæmist upp með frekju eða yfirgang. Þegar ég komst svo á legg sá ég vitanlega að fólkið þar innanborðs hagaði sér ekkert þannig. Það er með ólíkindum að vita til þess hversu mikið hefur verið sukkað og á hversu mörgum hefur verið níðst. Vitanlega er misjafn sauður í hverju fé og hægt að fyrirgefa misstígi, en fyrir þann sem vill sjá er auðvelt að koma auga á stanslausa spillinguna og blinduna, heimtufrekjuna og ójöfnuðinn. Gott og vel ef þetta væri ímynd sálarlauss kapítalisma, en batteríið gefur sig beinlínis út fyrir að standa fyrir öll þau prinsipp sem þau mölbrjóta síðan sjálf, og síðan finnst þeim þau ekki einu sinni þurfa að svara fyrir það.
„Ég fæ alla þá þjónustu sem ég þarf annars staðar frá, frá fólki sem er að mínum dómi betur til þess fallið að sinna verkefnunum.“
Peningarnir sem renna til kirkjunnar eru ofboðslega miklir
Auðvitað er menningararfur falinn í kirkjustarfi liðinna alda. Það væri því sjálfsagt að viðhalda mannvirkjum og jafnvel byggja ný, sjá um að helsta starfsemi gæti haldið sér og allir væru á mannsæmandi launum. En ég neita alfarið að borga ofurlaun fyrir störf sem ég nýti mér ekki með nokkru móti og mun aldrei gera. Það er ekkert sem guðsfólkið gerir í dag sem ég get ekki fengið hjá öðrum. Vissulega er útfærslan ekki eins, samfélagið sem kirkjan er hefur margt upp á að bjóða og auðvitað er alls konar fólk sem vill þekkjast þjónustuna. Það er þá bara gott mál og þeirra eigið. Ég er hins vegar að benda á að ég kem aldrei til með að beinlínis þurfa á kirkjunni að halda til að halda mínu lífi í skorðum, ólíkt þjónustu annar opinbers starfsfólks, kennarastéttarinnar, heilbrigðisstéttarinnar og fjölda annarra. Ég fæ alla þá þjónustu sem ég þarf annars staðar frá, frá fólki sem er að mínum dómi betur til þess fallið að sinna verkefnunum.
Fötin sem kirkjunnar fólk klæðist eru fáránleg
Þessi millifyrirsögn er vitanlega galgopaleg, en mér er samt sem áður alvara. Hvernig á ég að taka fólk alvarlega sem fer í svona föt áður en það talar? Gamlar venjur eða ekki, þetta er ekkert annað en hjákátlegt búningafyllerí. Ég skil svo sem alveg að fólki finnist gaman og töff að fara í öfgafullar múnderingar, en á meðan engin kímni er höfð með í skiptiklefann er þetta ekkert annað en vandræðalegt. Biskupstuskan gæti allt eins verið klædd eins og Superman eða bleikur Stormtrooper. Og svo er ekkert töff eða gaman að vera í Þjóðkirkjunni. Ég er ekki að segja að allt í heiminum þurfi að vera þrusustuð og geðveikt töff, en kommon! Það leiðist öllum í messu. Og þegar flippprestarnir ákveða að poppa hlutina upp fáum við hin kjánahroll aftur á hrygg. Þetta er ekki fólk að hafa gaman. Þetta er fólk að reyna að telja sjálfu sér trú um að nú sé gaman.
Við vitum betur í dag
Einu sinni vissi mannkynið ekki neitt um neitt og þurfti að finna útskýringar á áður óútskýrðum hlutum til þess að geta horfst í augu við óvissuna. Afskaplega mannlegt, og væntanlega hafa sennilegustu og best sögðu sögurnar flotið ofan á. Þannig hugsa ég að öll trúarbrögð hafi orðið til, í bland við þörfina á að búa til siðmenntuð samfélög. En í dag erum við búin að útskýra þetta helsta. Við þurfum ekki lengur að giska, við þurfum ekki að frelsa fólk frá illum öndum þegar það veikist eða tala um Loka og snákinn í hvert sinn sem jörð skelfur. Sérfræðingar lækna mein, jörðin snýst kringum sólina og vísindin hafa leyst þörfina fyrir trúarbrögð af hólmi.
Guð er ekki til
Og það er kjarni málsins. Ég hef aldrei séð neitt sem bendir til þess að umræddur guð sé til. Það skiptir mig engu máli hversu oft þú segir það, hvort þú heldur á krossi á priki eða hvað þú ert með í laun, ég hef aldrei séð neitt sem bendir til þess. Þangað til annað kemur upp úr kafinu er forkastanlegt ofbeldi að reikna með því að allir trúi og enn verra að skrá fólk óspurt í klúbbinn. Ég skal láta ykkur í friði með Þjóðkirkjuna ykkar ef þið borgið sjálf fyrir partíið og lokið að ykkur á meðan. En ekki fyrr.
Amen.
Athugasemdir