Ung stúlka missti skyndilega meðvitund á balli í Vestmannaeyjum um helgina, skall í jörðina og missti andann. Móðir hennar segist í samtali við Stundina ekki hafa vitað hvort hún væri að missa barnið sitt.
Stúlkan, Jenný Jóhannsdóttir, hafði verið að skemmta sér með vinum sínum á þrettándaballi í bænum. Skömmu eftir að hún fékk sopa af drykk í glasi á dansgólfinu „fer hún að eiga erfitt með gang og finnst erfitt að anda og staulast út til að fá sér ferskt loft,“ segir móðir hennar, Perla Kristinsdóttir, í færslu á Facebook þar sem hún segir frá atvikinu.
Sjálf fékk Perla símtal um nóttina, frá konu sem sagðist horfa á dóttur hennar meðvitundarlausa. „Vinkona mín hringdi í mig og sagði mér að hún væri að horfa á dóttur mína meðvitundarlausa og það sé verið að færa hana á sjúkrabörur,“ segir Perla. Maðurinn hennar var rokinn út til að vitja dóttur þeirra. „Ég sat svo heima í nokkra klukkutíma og beið við símann, og vissi ekkert hvað hefði komið fyrir dóttur mína. Ég vissi ekki hvort ég væri að fara að missa barnið mitt. Hugsaðu þér ef hún hefði ákveðið strax, þegar hún fékk hausverkinn, að labba heim,“ segir hún í samtali við Stundina.
Dóttir þín er meðvitundarlaus
Samkvæmt frásögnum vina og Jennýjar sjálfrar hafði hún ekki drukkið mikið um kvöldið þegar hún missti skyndilega meðvitund. Á spítalanum kom hins vegar í ljós að efni fundust í blóði hennar. Faðir hennar, sem hafði fylgt henni upp á spítala, hafði þá verið sendur heim og það var ekki fyrr en næsta morgun sem foreldrar hennar fengu að vita hvað olli því að dóttir þeirra hrundi niður um nóttina. Þar kom Perla að dóttur sinni blárri og marinni á spítalanum.
„Hræðslan var bara svo mikil, að missa meðvitund, ranka við sér og fá að vita að það er dóp í líkamanum þínum en vita ekkert hvernig það gerðist.“
„Ég veit ekki hvort var verra, biðin eftir svörum eða svipurinn á dóttur minni þegar hún heyrði að efni hefðu fundist í blóðinu. Hún var hrædd og hún var reið, aðallega hrædd, en líka vonsvikin. Hún var alveg miður sín. Það var líka svo óþægilegt að vita ekki hvaðan þetta kom. Henni leið bara eins og einhver hefði verið að reyna að drepa hana,“ segir Perla í viðtali við Stundina. „Þetta var bara hræðilegt. Þarna ertu með ungling sem er stanslaust að kvarta undan ágengni vegna dóps í Vestmannaeyjum og er að reyna að vera dugleg og segja nei takk, það getur verið erfitt, en því er svo þröngvað upp á hana.“
Niðurstöður rannsókna sýndu að amfetamín var í blóði hennar. Eftirköstin voru mikil. „Þetta var hræðilegt, hún kastaði upp í marga klukkutíma, var með höfuðverk og skalf, líkaminn var enn í sjokki. Fyrst vorum við ekki viss hvernig hún hefði fengið amfetamín í blóðið. Hún skildi þetta ekki. Það var ekki fyrr en við fórum að tala við lögregluna að við fengum að vita að þetta væri sett í glös. Hræðslan var bara svo mikil, að missa meðvitund, ranka við sér og fá að vita að það er dóp í líkamanum þínum en vita ekkert hvernig það gerðist. Það fór alveg með hana. Þarna voru völdin tekin af henni og hún svipt tækifærinu á að segja nei.“
„Þessi lyf eru alltaf hættuleg“
Perla vill brýna fyrir fólki, bæði foreldrum og krökkum, að taka ekki sopa af drykk sem þeir þekkja ekki, þar sem hann gæti innihaldið hættuleg efni.
„Þegar sjúkrabíllinn kom var hún orðin mjög köld og með rosalega hraðan púls og illa gekk að gefa henni í æð uppi á spítala. Alls kyns rannsóknir eru gerđar og loks finnst amfetamín í blóđi hennar ... þessi saklausi sopi á dansgólfinu innihélt sem sagt AMFETAMÍN! Hún endađi međvitundarlaus vegna eins sopa! Þetta vissum viđ ekki ađ væri hreinlega í gangi, ađ fólk væri farið að blanda dópi í drykkina sína og því langar mig að brýna fyrir ykkur sem lesið þetta að fræða krakkana ykkar, og hvern sem er því þetta er út um allt!“ skrifar hún í yfirlýsingu á Facebook.
Tryggvi Ólafsson, lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum, staðfestir að leitað hafi verið til lögreglu vegna mögulegrar byrlunar. Hann segist ekki hafa heyrt af slíkum tilfellum áður. „Hún var aðstoðuð. Það var kallaður til sjúkrabíll. Og lögreglan fór líka á staðinn. Það er hægt að drekka amfetamín, en þú ert lengur að ná því upp í gegnum magann. Þessi lyf eru hættuleg.“
Í maí síðastliðnum kvaðst fræðimaðurinn Robert Spencer hafa orðið fyrir því á bar í Reykjavík að ókunnugur maður byrlaði honum vímuefnum. Robert, sem ritstýrir vefnum Jihad Watch, sem snýst um að vara við framgangi íslams og íslamista, sagðist telja að það hefði verið gert af pólitískum ástæðum. Læknaskýrslur staðfestu að hann hefði mælst með MDMD og amfetamín í blóðinu og taldi læknir hann hafa fengið kvíðakast í kjölfarið.
Athugasemdir