Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur sent Alþingi umsögn fyrir hönd Samtaka sparifjáreigenda þar sem hann gagnrýnir áform stjórnarmeirihlutans um hækkun fjármagnstekjuskatts.
Vilhjálmur hefur átt sæti í stjórn Samtaka sparifjáreigenda frá 2016 samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis, en þá var Vilhjálmur þingmaður og átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Um er að ræða hagsmunasamtök almennra hlutabréfa- og sparifjáreigenda.
Nú, eftir að hann missti þingsætið sitt sendir hann Alþingi umsögn fyrir hönd samtakanna og fer hörðum orðum um fyrirhugaða hækkun fjármagnstekjuskatts. Hann telur að um sé að ræða „fullkomið virðingarleysi við frjálsan sparnað“ auk þess sem misskilnings gæti í greinargerðinni sem fylgir bandorminum, þ.e. frumvarpi Bjarna Benediktssonar um ýmsar breytingar vegna fjárlaga ársins 2018.
„Sú frumvarpsgrein sem fjallað hefur verið um vinnur gegn auknum frjálsum sparnaði,“ segir í umsögn Vilhjálms. „Ef rökstuðningur um „græna skatta“ og „sykurskatt“ er yfirfærður á þessa skattlagningu þá mætti ætla að það væri álit löggjafans að sparifé sé of mikið og að nauðsynlegt væri að draga úr frjálsum sparnaði. Svo er alls ekki heldur þvert á móti. Frjálsan sparnað þarf að efla. Lífeyriskerfi landsmanna kann að vera á veikum grunni þar sem þrengt er að frjálsum sparnaði.“
Í umsögn sinni rökstyður Vilhjálmur mál sitt og fjallar sérstaklega um hvernig hækkun fjármagnstekjuskatts hefur áhrif á raunskattlagningu raunvaxtatekna. Þá fullyrðir hann að aukin skattlagning frjáls sparnaðar gangi þvert á markmið um sparnað og ráðdeild. „Aukin skattlagning á sparnað er leið til að byggja upp skuldarasamfélag og til lengri tíma eykur þörf á vaxtabótum eða viðlíka bótakerfum. Frumvarpsgreinin er í raun fullkomið virðingarleysi við frjálsan sparnað.“
Eins og Stundin hefur áður greint frá hyggst ríkisstjórnin hækka fjármagnstekjuskatt úr 20 prósentum upp í 22 prósent. Til fjármagnstekna einstaklinga teljast vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar. Tekjuáhrif hækkunarinnar eru áætluð 1,6 milljarðar kr. á árinu 2018, en 2,6 milljarðar kr. á árinu 2019 að því er fram kemur í greinargerð frumvarps Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlagaársins 2018, þ.e. bandormsins svonefnda.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskatts. Engin útfærsla liggur þar fyrir, en fjármálaráðherra hefur þó gefið í skyn að fyrirhugaðar breytingar miði að því að skattleggja raunávöxtun frekar en nafnávöxtun og verja þannig fjármagnseigendur fyrir verðbólguáhrifum. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 segir í greinargerð að „skattstofn fjármagnstekjuskatts [verði] tekinn til endurskoðunar, með það fyrir augum að raunverulegur ávinningur af fjármagni verði skattlagður og alþjóðlegur samanburður [verði] um leið auðveldari“.
Athugasemdir