Sex kettlingar, sem fundust í pappakassa á víðavangi á höfuðborgarsvæðinu 13. desember, eru komnir með tímabundið aðsetur á Kattholti. Halldóra Björk Ragnarsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands, sem rekur Kattholt, segir að kettlingarnir séu aðeins þriggja til fjögurra vikna gamlir og þurfi því ennþá pelagjafir til að nærast, vaxa og dafna.
Kettlingarnir eru komnir með nöfnin Giljagaur, Stúfur, Stekkjarstaur, Skyrgámur, Gáttaþefur og Askja, en þeir eru fimm fressar og ein læða. „Þeir verða hér í góðu yfirlæti,“ segir Halldóra. „Þeir eru ennþá mjög ungir og verða ekki tilbúnir á ný heimili fyrr en í janúar eða febrúar. Þeir verða því hér í okkar umsjón yfir hátíðirnar og allar sprengingarnar þar til allt róast niður. Þeir eru mjög góðir og mannvænir, en þurfa á svo mikilli ást að halda, og góðum mat.“
Kettir sjaldnar skildir eftir úti
Halldóra segir að þau séu ekki viss hversu lengi kettlingarnir hafi verið aleinir í pappakassa á víðavangi. Líklegra sé að það hafi aðeins verið í nokkra tíma en daga, þar sem þeir voru ekki illa haldnir þegar þeir fundust. „Oft ræður tilviljun því hvort fólk rambi á ketti þegar þeir eru skildir svona eftir, en kattafólk á það til að skipta sér frekar af og koma til okkar, eins og gerðist með þessa kettlinga.“
Halldóra segir að á þeim sex árum sem hún er búin að vera í stjórn Kattavinafélagsins hafi því farið fækkandi að fólk skilji kettlinga eftir úti, en að það gerist ennþá. „Sem betur fer er þetta eitthvað sem gerist ekki einu sinni í mánuði. Við fáum kannski núna þrjú til fjögur tilvik á ári, en það var meira um þetta 2012–14. Sem betur fer er fólk eitthvað farið að hugsa sinn gang og gefur ketti sjaldnar í gjöf eða tekur þá á heimili sem er ekki undirbúið fyrir þá.“
Kettlingarnir verða til sýnis í Kattholti á nýju ári í leit að nýju heimili og, vonandi, heimilisvænni ævintýrum.
Athugasemdir