- Mamma, getum við farið í eitthvað land þar sem er alltaf heitt? spurði fjögurra ára sonur minn á ísköldum þriðjudagsmorgni á meðan ég renndi upp þykkri dúnúlpunni hans.
Skammdegisdraumar um tilbúna baðströnd og sólbrennda Breta höfðu einnig gert vart við sig í mínum hugarfylgsnum, á meðan ég skóf frostið af bílrúðunni með útrunnu bókasafnskorti og þegar ég vafði þykku ullarsjalinu utan um mig í veikri von um hlýju, en ég hafði ekki enn viðrað þessar fantasíur upphátt á heimilinu. Hvaðan kom þessi óvænta útþrá barnsins sem þekkir ekkert annað en íslenskan vetur?
- Mamma, hvað heita löndin þar sem er alltaf heitt?
- Ég held það sé yfirleitt heitt á Spáni, til dæmis. Manstu þegar við fórum þangað þegar þú varst tveggja ára, með ömmu og afa? spurði ég blíðlega, í tilraun til að skipta um umræðuefni, á meðan ég athugaði hvort lopavettlingarnir væru orðnir þurrir eftir næturdvöl á heitum ofninum.
- Nei. Getum við farið til Spánar eftir leikskóla?
- Nei, því miður, elskan mín. Þú verður að bíða aðeins lengur.
- Getum við farið á laugardaginn?
Og þennan indæla, ískalda þriðjudagsmorgun drap ég draum sonar míns um sól og hita.
- Við erum því miður ekki á leiðinni til heitu landanna í bráð. Og úr því ég er byrjuð að drepa drauma, þá munum við heldur ekki gera okkur glaðan dag í bíó eða ísbúð næstu árin því mamma er að reyna að safna sér fyrir íbúð. Mér hefur kurteislega verið bent á að fara-spara-bara, vilji ég einhvern tíma geta veitt þér öruggt heimili. Manstu eftir leikfangabílnum sem þú klipptir út úr ToysRUs bæklingnum og baðst um í jólagjöf? Þessi sem hefur hækkað gígantískt í verði frá því þú áttir afmæli í ágúst, því hátíð barnanna er í nánd? Þú getur gleymt honum. Mömmu dreymir um sólpall, HTH innréttingu og heimsókn frá Hús&híbýli.
Djók. Líkt og allir bugaðir foreldrar sagði ég að sjálfsögðu; sjáum til. Kannski förum bara við í sólina á laugardaginn.
Athugasemdir