Pólskur vinur minn sem kom í heimsókn um daginn varð svolítið hissa þegar ég benti honum á nokkra byggingarverkamenn og hélt því fram að þeir væru landar hans. Á Íslandi búa nefnilega tæplega tíu þúsund Pólverjar. Það var og, ansaði Pólverjinn og glotti. Mitt fólk á auðvitað léttara með að aðlagast kuldanum.
Erlendir ríkisborgarar á Íslandi eru núna um tuttugu þúsund sem samsvarar um sjö prósent þjóðarinnar, sagði ég þá. Þessum nýju Íslendingum mun fjölga um rúmlega tuttugu þúsund á næstu fjórum árum. Þar að auki eigum við von á fimmtíu til sextíu þúsund farandverkamönnum á næstu árum. Þetta er ekkert smotterí – og auðvitað mjög gleðilegt, flýtti ég mér að bæta við. Sá pólski sagði fátt en glotti íbygginn. Þetta var ágætlega upplýstur náungi og mig grunar að hann hafi lesið milli lína, hann sá í gegnum íslenska plottið.
Við Íslendingar flytjum bara inn eftirmyndir af okkur sjálfum. Smám saman er að myndast á landinu lágstétt sem lítur nokkurn veginn út eins og við sjálf en hefur lítil sem engin áhrif í samfélaginu. Við hleypum þessum spegilmyndum okkar helst ekki í almennilega borgaða vinnu og alls ekki í stjórnunarstöður.
Þetta hefur verið svona alveg frá því að Ingólfur henti súlunum í sjóinn og sendi tvo þræla út af örkinni að finna þær. Forfeður okkar sóttu vinnuafl til Bretlandseyja, þræla sem litu nokkurn veginn út eins og þeir sjálfir.
„Við Íslendingar flytjum bara inn eftirmyndir af okkur sjálfum“
Einhvers staðar þarna úti í grárri borginni er tvífari minn að reyna að komast af í ömurlegu skítadjobbi meðan ég lep latte fyrir framan tölvuskjáinn. Kannski heitir tvífari minn svipuðu nafni og ég – Tadeuz hljómar til að mynda næstum því alveg eins og Tóti. En öfugt við burgeisinn Tóta Leifs þá er vesalingurinn ekki með neitt tengslanet á Íslandi og ekki með aðgang að Íslendingabók punktur is og alls ekki vinur Guðna forseta á Facebook.
Við þessi forn-norræna elíta kunnum að meta líf okkar og allt rýmið og fríðindin sem hver einstaklingur fær. Við viljum helst fá að vera í friði í nýju bílunum okkar á Hringbrautinni þar sem við ökum stokkfreðin í gegnum myrkrið í álkössum á leiðinni frá A til B.
Einhvern tímann í sumar las ég um mann sem var rekinn úr landi þótt hann væri í fastri vinnu og meira að segja harðduglegur. Hvað var óvenjulegt við þennan mann? Jú, hann var dökkur á hörund. Gat verið að hann ætti ekki séns af því að það fannst enginn tvífari á Íslendingabók? Það er erfitt að segja til um það nákvæmlega en þetta er að minnsta kosti ákveðin tilhneiging.
Einn fylgifiskur þess að velja helst bara tvífara okkar inn í landið er fákeppni í vöruúrvali og skyndibitastöðum. Um daginn kom ég við niðri í miðbæ og fékk mér eitthvað sem var auglýst sem kebab. Mig minnir að það séu bara þrír eða fjórir svona staðir í miðbæ Reykjavíkur.
Það tók afgreiðslumanninn um það bil 20 mínútur að afgreiða þessa samloku og ég hugsaði að ef hann leyfði sér að vera svona lengi að afgreiða vesælan kebab í Köben, Berlín eða París þá væri kúnninn löngu rokinn fussandi á dyr. Og ef hann ætlaði að selja svona lélegt kjöt með jafn snautlegu salati í þeim borgum þá færi hann lóðbeint á hausinn á tveimur dögum. Það vantaði greinilega samkeppni í þennan bransa, það vantaði fleiri útlendinga sem kunnu að búa til mat.
Ég lét mig dreyma um stæðileg líbönsk, sómölsk og tyrknesk grillhús þar sem landar mínir stóðu í röð til að borða samlokur með lambshjörtum eða lifur úr íslenskum sauðkindum sem væri búið að velta upp úr ljúffengum kryddlegi.
En ég gæti þurft að láta mig dreyma lengi. Við erum lafandi hrædd við þessa fimm araba sem sleppa inn í landið á móti hverjum þúsund Austur-Evrópubúum. Og hvað ætli búi eiginlega margir tyrkneskir kokkar á Íslandi?
Við viljum fá að vera ein áfram með tvíförum okkar á þessari fallegu eyju með Subway og KFC keðjur um hálsinn, slafrandi í okkur hamborgurum og frönskum í öll mál á Enn einum. Étum þetta drasl þangað til að við paníkerum á miðjum aldri, förum í átak í World Class, dælum í okkur grænum drykkjum á bensínstöðvum, hættum að drekka og breytumst í kíafræ-jóganornir. Við rífumst við rassgötin á okkur á samfélagsmiðlum þangað til við líðum út af og erum kviksett með takkaför eftir lyklaborðin á bústnum kinnum – Facebook-stöðurnar eru lesnar upphátt í jarðarförinni.
Þá verðum við loksins alveg ein með okkur sjálfum.
Athugasemdir