Í fyrri greinum um rússnesku byltinguna var sagt frá atburðum snemma árs 1917. Rússland hafði öldum saman búið við einræðisstjórn Romanov-ættarinnar og bólaði ekkert á umbótum, hvorki pólitískum né efnahagslegum. Alþýðan stundi undan ömurlegum lífskjörum, stjórnkerfið var lamað undir fargi vanhæfrar og spilltrar keisarastjórnar. Þátttaka Rússa í fyrri heimsstyrjöldinni jók enn á erfiðleikana en Rússar voru bandamenn Breta og Frakka gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum. Frámunalega léleg yfirstjórn Nikulásar II keisara olli því að herinn fór yfirleitt hrakfarir, lífskjör versnuðu enn og óánægja fór vaxandi í hernum.
Mikil mótmæli brutust út og stóðu vikum og mánuðum saman og í byrjun mars 1917 var nokkuð skyndilega ljóst að keisarinn var svo rúinn öllu trausti að enginn treysti sér lengur til að verja stjórn hans. Hann var því þvingaður til að segja af sér. Þetta gerðist svo óvænt að ekkert skipulag var til staðar sem tekið gæti við. Rússneska þingið, sem verið hafði valdalítið fram að þessu, skipaði bráðabirgðastjórn undir forystu Lvov prins sem halda skyldi um stjórnartaumana þar til lýðræðislegar kosningar gætu farið fram. Þessi stjórn naut stuðnings borgaralegra afla en hins vegar bundu verkamenn mjög trúss sitt við hin svokölluðu ráð, eða sovét, sem kröfðust einnig valda í landinu. Í ráðunum fóru hvers konar byltingarmenn mikinn en deildu einnig innbyrðis um markmið og leiðir. Margir þeirra höfnuðu því borgaralega þingræðisskipulagi sem bráðabirgðastjórnin vann að og vildu bylta þjóðskipulaginu í þágu alþýðunnar.
Alræði öreiganna
Meðal byltingarmanna voru bolsévíkar einna róttækastir, eindregnir kommúnistar sem kröfðust „alræðis öreiganna“ en það var hugtak sem Karl Marx breiddi út og merkti að kapítalísku og borgaralegu samfélagi skyldi kollvarpað, auðvaldið svipt völdum sínum en allt vald í samfélaginu fært hinum eignalausu, það er öreigunum. Bolsévíkar höfðu látið mikið að sér kveða en nutu þó trauðla fjöldafylgis sem varð til þess að Lenín leiðtogi þeirra setti fram þá kenningu að réttast væri að fámennur, einbeittur og skeleggur hópur eindreginna byltingarmanna hlyti að hafa forystu um öreigabyltinguna, fremur en að fjöldinn sjálfur hefði vit á að framkvæma hana. Þrátt fyrir heilmikið starf bolsévíka gerðist Lenín þó svartsýnn á öreigabyltingu í Rússlandi og ekki löngu áður en keisaranum var steypt af stóli mun hann hafa sagt við eiginkonu sína að byltingin yrði ekki fyrr en eftir þeirra dag.
Bolsévíkar áttu því í raun engan sérstakan þátt í febrúarbyltingunni
Bolsévíkar áttu því í raun engan sérstakan þátt í febrúarbyltingunni en svo er stjórnarbyltingin í mars kölluð því Rússar höfðu þá úrelt tímatal og voru 15 dögum á eftir öðrum. Lenín hafði verið nær samfleytt í útlegð í útlöndum í 17 ár og var orðinn nokkuð einangraður frá rússnesku samfélagi, svo hann trúði vart eigin eyrum þegar hann fregnaði byltinguna. Hann var hins vegar fljótur að grípa tækifærið og kom sér heim til Rússlands frá Sviss með atbeina Þjóðverja, óvina Rússa. Þjóðverjar vissu að Lenín rak stífan áróður fyrir því að Rússar hættu þátttöku í heimsstyrjöldinni og vildu því flest til vinna að hann kæmist til sem mestra áhrifa í Rússlandi, þar sem afstaðan til stríðsins var eitt helsta misklíðarefnið.
Félagar Leníns hissa á hve herskár hann var
Strax við komuna til Pétursborgar um miðjan apríl setti Lenín fram stefnu sína er hann hafði unnið að á leiðinni til Rússlands. Óhætt er að segja að ýmsum hafi komið á óvart hve herskár hann var. Jafnvel mörgum leiðtogum bolsévíka fannst hann ganga of langt. Hann hafnaði algjörlega lögmæti bráðabirgðastjórnarinnar og bannaði bolsévíkum beinlínis að hafa nokkra samvinnu við hana. Allt vald skyldi fært í hendur sovétanna þar sem verkamenn og fátækir bændur réðu ferðinni. Í reynd hafnaði Lenín líka samvinnu við aðra hópa byltingarmanna, jafnvel þá sem stóðu bolsévíkum næst. Þrátt fyrir hinar vinsamlegu móttökur sem Lenín hafði fengið við komuna til Pétursborgar fór því raunar fjarri að bolsévíkar væru öflugasti pólitíski flokkurinn í hinu nýja Rússlandi en Lenín virðist hafa ákveðið að haga sér eins og pókerspilari sem fer „all in“ með þristatvennu á hendi. Hann sannfærði að lokum aðra bolsévíkaleiðtoga um að fallast á stefnu sína, og á næstu vikum tókst honum raunar að auka heilmikið fylgi alþýðunnar í Pétursborg við afdráttarlausar kröfur sínar um „frið, brauð og frelsi“.
Þegar kom fram á sumarið 1917 kom á daginn að bráðabirgðastjórnin var að missa tengsl sín við byltinguna. Borgaralegu öflin sem þar réðu ríkjum voru önnum kafin við að upphugsa pólitískar umbætur og reyna að smíða skapalón fyrir lýðræðislegt framtíðarsamfélag en áttuðu sig ekki á að glorsoltin alþýðan krafðist fyrst og fremst mannsæmandi lífskjara enda mátti víða sjá hungurvofuna á stjákli við rússnesk þorp og bæi sumarið 1917. Krafa bolsévíka um brauð hljómaði vel í eyrum þeirra sem óttuðust vofuna og höfðu ástæðu til.
Kerenskí reynir að halda stríðsrekstri gangandi
Krafan um frið náði líka eyrum margra. Rússar voru orðnir dauðleiðir á stríðinu sem hafði ekki fært þeim neitt nema tapaðar orrustur, mikið mannfall og limlesta uppgjafarhermenn sem betluðu á götum Pétursborgar sér til viðurværis og studdu hvern þann sem lofaði að semja frið sem fyrst.
Á meðan ferðaðist Alexander Kerenskí, einn helsti forkólfur bráðabirgðastjórnarinnar, um vígstöðvarnar og messaði yfir grautfúlum hermönnum að skylda þeirra væri að halda áfram baráttunni fyrir Rússland þótt keisarinn væri fallinn. Kerenskí þótti frábær ræðumaður og mun oft hafa tekist að kalla fram heilmikil húrrahróp þegar hann hvatti hermennina til dáða og minnti á hvernig nýir alþýðuherir Frakklands höfðu sigrast á öllum útlenskum innrásarherjum eftir frönsku byltinguna 1789. Kerenskí var ekki nema 36 ára gamall, fæddur í Simbirsk á Volgubökkum og faðir hans hafði verið kennari Leníns í menntaskóla. Síðar lærði Kerenskí lögfræði og gerðist félagi í hófsömum flokki sósíalista.
Kerenskí hafði ýmislegt til brunns að bera og vissulega hefði hann betur náð að halda völdunum í höndum bráðabirgðastjórnarinnar. Þá er nokkuð ljóst að milljónir mannslífa hefðu sparast í borgarastríðinu í Rússlandi, hungursneyðum og loks hreinsunum Stalíns.
Ef Kerenskí hefði nú látið handtaka Lenín
En Kerenskí gerði nokkur afdrifarík mistök. Hann lét ekki handtaka Lenín meðan hann hafði tækifæri til og hafði þó næg tilefni, svo harkalegan áróður sem Lenín rak gegn bráðabirgðastjórninni. Einnig varð fljótt vart ákveðinnar yfirborðsmennsku í fari Kerenskís sem olli því að fólk hætti að treysta honum. Þegar hann messaði yfir hermönnunum var hann til dæmis klæddur einkennisbúningi þótt hann væri enginn hermaður, og hafði aðra höndina í fatla eins og til að gefa í skyn að hann hefði særst í orrustu. Vissi þó enginn til að neitt væri að honum í hendinni.
Svo fór að Kerenskí fyrirskipaði nýja sókn gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum sem hófst 1. júlí undir stjórn Alexei Brúsilovs. Við hann var kennd fræg og blóði drifin rússnesk sókn sumarið 1916 sem flækjusaga hefur þegar verið skrifuð um. Þá hafði litlu þótt muna að Brúsilov næði að sigra en í þetta sinn fór rússneski herinn hrakfarir frá byrjun. Liðhlaup færðist stöðugt í aukana þátt fyrir hörku Brúsilovs sem heimtaði að allir liðhlaupar yrðu teknir af lífi. Þrem vikum eftir að sóknin hófst rann hún í sandinn og hafði þá dregið mjög úr trúverðugleika bráðabrigðastjórnarinnar og Kerenskí.
Lenín hikaði á örlagastundu
Í Pétursborg höfðu fréttirnar af hinum nýju sóknartilburðum kveikt mikil mótmæli og síðan uppþot, þegar hersveitir bráðabirgðastjórnarinnar brugðust við af jafn mikilli hörku og keisarahermennirnir áður. Kerenskí tapaði miklu af því trausti lágstéttanna sem hann hafði þó notið. Allt lék á reiðiskjálfi þessa „júlí daga“ sem kallaðir eru. Um tíma virtist ástandið líklegt til að kveikja allsherjar valdaránstilraun af hálfu bolsévíka.
Þann 4. júlí söfnuðust 20.000 sjóliðar frá flotastöðinni í Kronstadt saman fyrir framan höfuðstöðvar bolsévíka í Pétursborg og biðu bara eftir hvatningu Leníns. Aldrei þessu vant missti Lenín kjarkinn og þegar hann lét loks til leiðast að ávarpa sjóliðana var ræðan óskiljanleg og tók ekki nema mínútu. Sjóliðarnir héldu sína leið, til bardaga kom og í fáein dægur var stríðsástand í höfuðborg Rússlands. Sjóliðarnir brutust inn á fund sovétsins í borginni og æptu á einn leiðtoga sósíalista, Viktor Tsjernov, að „taka völdin, helvítis fíflið þitt, þegar þau eru rétt upp í hendurnar á þér“ en líkt og Lenín hikaði Tsjernov. Hann var raunar einn þeirra leiðtoga sovétsins sem höfðu samvinnu við bráðabirgðastjórnina þar sem Tsjernov var landbúnaðarráðherra. Að lokum náði Kerenskí að bæla uppþotin niður og fyrirskipaði nú loks handtöku Leníns en hann slapp burt og fór í felur í Finnlandi.
Uppþotin í júlí og misheppnuð sókn Brúsilovs sannfærðu marga um að stjórn Kerenskí væri ófær um að stjórna og komin að fótum fram. Allt virtist stefna í allsherjar ringulreið. Þá kom til skjalanna nýr yfirmaður rússneska hersins, Lavr Kornilov, maður af mið-asískum alþýðuættum, hörkutól og harðneskjulegur. Hann gerðist nú viss um að aldrei kæmist á stöðugleiki í Rússlandi meðan sovétið áhrifamikla í Pétursborg fengi að starfa óáreitt.
Misheppnuð herferð Kornilovs
Um miðjan september gerði Kornilov út hersveitir sem áttu að knésetja sovétið í eitt skipti fyrir öll en sú aðgerð fór algjörlega út um þúfur. Mikill fjöldi vel vopnaðra liðhlaupa hafði komið til liðs við sovétið síðasta hálfa árið frá febrúarbyltingunni og sókn Kornilovs rann út í sandinn eftir tvo, þrjá daga. Kerenskí lét handtaka Kornilov fyrir uppreisn en sumir sagnfræðingar telja raunar að Kerenskí hafi vitað meira en hann viðurkenndi um áform Kornilovs.
Nema hvað, nú rak allt á reiðanum. Kyrrð komst að vísu á eftir júlí dagana, en Kerenskí náði hvorki að halda kosningar, sem hefðu getað fært stjórn hans traust og lögmæti, né heldur að snúa niður ákafa byltingarmenn eins og bolsévíka. Og hann gat enga lausn fundið á því hvað ætti að gera við herinn, þótt óánægja innan hans væri nú orðin svo mikil að vart væri á það að treysta að hermenn hlýddu skipunum.
Ögurstund nálgaðist. Lenín hafði náð vopnum sínum og brýndi klærnar í laumi. Valdarán var í uppsiglingu.
Athugasemdir