Fjórða iðnbyltingin er þegar hafin. En hvernig er best að bregðast við?
Í aðdraganda kosninga var mikið talað um tæknibyltingu þá sem nú er í uppsiglingu og mun gera mörg af þeim störfum sem við þekkjum í dag óþörf. Þetta veldur miklum áhyggjum sem eðlilegt er, því hvað er manneskjan án vinnunnar?
Þegar ókunnugir hittast í fyrsta sinn og sagt hefur verið til nafns er næsta skref gjarnan að spyrja hvert annað hvað það gerir. Spurningin vísar til starfsins, hvað það er sem fólk fær greitt fyrir að gera. Þeir sem ekki hafa slíkt finna oft fyrir smán og jafnvel tilgangsleysi, ofan á hinar efnahagslegu þrengingar sem af atvinnumissinum leiðir. Atvinnuleysi er einhver mesti þjóðfélagsvandi sem til er og eitt af því sem fólk óttast mest af öllu. En þarf það endilega að verða okkur til bölvunar að finna upp vélar sem leysa vinnu okkar af hendi?
Flestum leið illa í vinnunni
Fyrir nokkrum áratugum kannaði fransk-austurríski félagsfræðingurinn André Gorz viðhorf fólks til vinnu sinnar og komst að því að um sjötíu prósent fólks leið illa á vinnustað sínum eða sá ekki tilgang með vinnunni. Þau þrjátíu sem voru sátt við hlutskipti sitt voru oftast þeir sem sáu um að hanna vélarnar, stjórna og skipuleggja starfsumhverfið. Þeir sem unnu í því voru síður sáttir.
Gorz benti á að eftir því sem framleiðslugeta hvers einstaklings eykst með aukinni tækni, þá ætti vinnutími hans að minnka sem því nemur. Hann spáði því að bráðlega þyrfti enginn að þurfa að vinna meira en annan hvorn mánuð. Þetta var árið 1989, og síðan þá hefur tækninni fleygt fram. En ekki er að sjá að vinnutími okkar hafi styst.
Stjórnmálamenn eru flestir sammála um að við þurfum að undirbúa okkur undir þá breyttu tíma sem brátt fara í hönd, en það eru færri tillögur um nákvæmlega hvernig það skuli gert. Og er hægt að undirbúa sig fyrir eitthvað sem hefur aldrei gerst áður?
Menntamannaflokkar og öreigaflokkar
Í upphafi árs tóku Finnar upp á því að greiða atvinnulausum laun. Launin eru vissulega ekki há, aðeins um 70.000 krónur á mánuði, sem eru álíka laun og háskólanemar fá fyrir að vera í námi. Eigi að síður er hægt að lífnæra sig á þessum launum í Finnlandi, þar sem bæði matarkarfan og húsnæðið er alla jafna ódýrara en hér, þótt það sé dýrt miðað við flesta aðra staði.
Alls 2000 manns voru valdir til að þiggja launin í tvö ár. Munurinn á launum þessum og núverandi bótakerfi er að þátttakendur þurfa ekki að vera í atvinnuleit til að fá greitt, né þurfa þeir að skrá sig reglulega hjá yfirvöldum og sýna fram á að þeir þurfi á styrknum að halda. Annar stór munur er sá að jafnvel þó að þeir fái vinnu á tímabilinu missa þeir ekki styrkinn.
Sumir af þeim sem hafa hlotið styrkinn segjast finna fyrir minni streitu, þökk sé fyrirkomulaginu. Þeir eiga auðveldara með að ráða sig í hlutastörf eða jafnvel stofna eigin fyrirtæki, og eyða mun minni tíma í skrifræði. Verkalýðssamtök þar í landi vara hins vegar við lausninni, þar sem það hvetur suma til þess að vinna minna en myndi jafnframt auka launakröfur í störfum sem fæstir vilja vinna.
Og kannski er hér einmitt að finna blindan blett vinstri flokka, sem er ekki síður áberandi á Íslandi. Þeir höfða til menntamanna fyrst og fremst. Til einföldunar mætti segja að Vinstri græn séu orðin flokkur efnaminna menntafólks, en Samfylkingin efnameira menntafólks. Hvorugur hópurinn hefur mikið að segja við þá sem minnst hafa. Og það er einmitt ómenntað launafólk sem fyrst af öllum eiga eftir að horfa á störf sín hverfa. Bílstjórar eru aðeins ein stétt af mörgum sem gætu þurft að finna sér ný störf þegar bílar verða sjálfkeyrandi, en álíka breytingar munu eiga sér stað víða.
Þeir sem minnsta hafa menntunina sjá sig því tilneydda til að kjósa popúlistaflokka á borð við Flokk fólksins eða Miðflokkinn, sem segjast vera að berjast fyrir þeirra hag. Að fá gefins 200.000 krónur í banka hljómar freistandi fyrir þá sem lítið eiga. En líklega myndu fyrirheit um föst laun í hverjum mánuði hljóma enn betur.
Kanadíska leiðin eða sú bandaríska
Það að tæknin taki störfin af fólki er ekki bara eitthvað sem gæti gerst, heldur er þegar farið að gerast. Ástæðuna fyrir hinu mikla atvinnuleysi í sumum ríkjum Bandaríkjanna er ekki fyrst og fremst að finna í slæmum viðskiptasamningum eða aðgerðum erlendra ríkja, heldur í því að mörg framleiðslustörf eru þegar orðin óþörf. En á meðan Bandaríkjamenn kjósa yfir sig popúlista sem lofar að stöðva framrás framtíðarinnar og færa allt aftur í fyrra horf leita nágrannar þeirra í norðri nýrra leiða.
Í Ontariofylki í Kanada er nú verið að reyna prufukeyrslu á borgaralaunafyrirkomulaginu í þrem bæjum. Alls 4.000 manns á aldrinum 18 til 64 ára úr lægsta tekjuhópnum voru valdir af handahófi til að fá um 120.000 krónur á mánuði. Þrátt fyrir að meginhugmyndin sé sú sama er tilraunin nokkuð öðruvísi en í Finnlandi. Þeir sem þiggja örorkubætur eða barnabætur munu fá þær óskertar áfram, en þeir sem vinna launavinnu munu sjá styrkinn lækkaðan um 50 sent fyrir hvern dollara sem þeir þéna. Þetta kallar vissulega á nokkurt skrifræði, en mun minna en í núverandi kerfi. Einn af helstu kostum borgaralauna er einmitt talinn sá að þau minnka skrifræði svo mikið að sparnaðurinn sem af því hlýst ætti að geta náð langt upp í þann kostnað sem af laununum hlýst.
Tilraun þessi hófst í júní í sumar og því er of snemmt að segja til um langtímaafleiðingar hennar. Borgir í löndum jafn fjarlæg hvort öðru og Holland og Kenía eru einnig með álíka áform.
Hið raunverulega Nýja-Ísland
Hugmyndin um borgaralaun gengur nú í endurnýjun lífdaga, og er þá hugsuð sem viðbrögð við breyttum tímum og væntanlegri iðnbyltingarhrinu. En tilraunin hefur verið framkvæmd áður. Má þar nefna bæinn Dauphin í Manitobafylki í Kanada, sem er ekki svo ýkja langt frá Gimli og því svæði sem við köllum gjarnan „Nýja-Ísland“. Þar búa um tíu þúsund manns en meginatvinnuvegurinn var landbúnaður, sem eins og ýmsir geirar nú var þá að taka miklum breytingum. Í valdatíð Pierre Trudeau, föður núverandi forsætisráðherra Kanada, voru þúsund manns í Dauphin valdir til að hljóta borgaralaun til fjögurra ára. Þetta var árið 1974, en ný ríkisstjórn tók við árið 1977 og var þá ákveðið að framlengja tilrauninni ekki. Þar með glataðist tækifæri til að skoða langtímaáhrif borgaralauna.
Eigi að síður er hægt að greina nokkrar afleiðingar þeirra. Launin virðast hafa haft lítil áhrif á vinnutíma fólks almennt, nema helst meðal ungra mæðra (frekar en feðra, þetta var nú einu sinni 8. áratugurinn) sem kusu að eyða meiri tíma heima með börnum sínum. Jafnframt leiddi þetta til þess að ungmenni kusu frekar að klára nám heldur en að fara beint út á vinnumarkaðinn. En þó að fólk hafi alla jafna kosið að vinna jafn mikið og áður mátti sjá aðrar breytingar. Spítalaheimsóknir drógust saman um 8,5 prósent, og skipti þar fækkun vinnuslysa mestu máli. Jafnframt urðu þeir talsvert færri sem þurftu á sálrænni þjónustu eða vistun á geðspítölum að halda. Einn helsti kosturinn sem þátttakendur nefndu var sá að þeir töldu sig losna við smánarblettinn sem gjarnan fylgir því að vera bótaþegi.
Vinna vinnunnar vegna
Meðal helstu málefna sem rædd voru í nýafstaðinni kosningabaráttu hérlendis má nefna aukin útgjöld til heilbrigðiskerfisins, betri tækifæri til menntunar, bætt kjör öryrkja og aldraðra, og nauðsyn þess að undirbúa þjóðina fyrir framtíð sem er við það að bresta á, auk byggðastefnumála. Ef borgaralaun gætu hjálpað til við lausn flestra eða allra þessara vandamála ættu þau að minnsta kosti að vera eitthvað sem vert væri að skoða.
Í fyrstu atrennu mætti velja einhvern hóp eða jafnvel eitthvert pláss til að veita borgaralaun og síðan athuga hvernig það gefst. Ef tilraunin gæfist vel mætti síðan víkka hana út. Kosningarnar sýndu það áþreifanlega að það er skortur hér á stjórnmálamönnum sem eru reiðubúnir til að hugsa í öðrum lausnum en þeim að gefa þjóðinni banka.
En hugmyndir þessar eru ekki endilega svo nýjar af nálinni. Í kreppunni miklu sagði hagfræðingurinn John Maynard Keynes að frá sjónarhóli efnahagsins væri þess virði að borga verkamönnum fyrir að grafa skurði og síðan fylla upp í þá aftur. Þetta dugði ágætlega þegar það loksins var reynt, verkamenn sem voru ráðnir í vinnu með aðstoð ríkisframlaga fengu greidd laun sem þeir svo aftur gátu notað til að kaupa sér nauðsynjar. Hjól efnahagslífsins tóku að snúast á ný og héldu því að mestu áfram fram að hruni. Borgaralaun gætu þannig reynst öflugt tæki til að koma í veg fyrir kreppur framtíðarinnar. Nema í stað þess að grafa skurði og fylla upp í þá gæti fólk fundið sér eitthvað gagnlegra að gera. Og vafalaust mun eitthvað af því skila sér í bættri framtíð fyrir fleiri.
Athugasemdir