Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að „taka verði á“ umræðunni á Íslandi, þar sem konur treysti sér ekki í stjórnmál vegna „persónulegs níðs“ á stjórnmálamönnum.
Miðflokkurinn fékk 10,9 prósent stuðning í yfirstöðnum alþingiskosningum. Af sjö þingmönnum Miðflokksins er ein kona. Sigmundur segir það „tilviljunarkennt“. Aðeins ein kona var í oddvitasæti hjá Miðflokknum, eða í efsta sæti í sínu kjördæmi. 44 konur voru þó í framboði fyrir flokkinn.
Veruleg fækkun hefur orðið á konum á Alþingi. Nú eru konur aðeins um 38 prósent þingmanna, en voru 48 prósent fyrir kosningarnar í gær. Helsta ástæðan er hátt hlutfall karla hjá nýju flokkunum Miðflokknum og Flokki fólksins, og svo Sjálfstæðisflokknum.
Sigmundur gaf til kynna í þjóðmálaþættinum Silfrinu að lélegt brautargengi kvenna mætti rekja til umræðunnar um stjórnmál á Íslandi og að konur forðuðust að taka sér þær ábyrgðarstöður sem þar væru vegna hennar.
„En það sem ég er að spá í sérstaklega, varðandi stöðu kvenna í stjórnmálum, er áferð stjórnnmálanna. Maður hefur tekið eftir því að fólk almennt, en kannski sérstaklega konur, hlutfallslega meira konur, eru ekki hrifnar af því hvernig stjórnmálin líta út. Og þar af leiðandi finnst þetta ekki freistandi starfsvettvangur,“ sagði Sigmundur.
Konur forðist ábyrgðarstöður
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, umboðsmaður Pírata, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gagnrýndu Sigmund fyrir að gefa til kynna að konur væru að forðast ábyrgðarstöður, fremur en að þær fengju ekki tækifæri til að gegna þeim stöðum.
„Þetta er alvarlegt vandamál sem við verðum að taka á“
Sigmundur ítrekaði þá afstöðu sína og gaf til kynna að taka þyrfti á þjóðfélagsumræðu um stjórnmálamenn, til að gera stjórnmál freistandi starfsvettvang fyrir konur. „Þetta er alvarlegt vandamál sem við verðum að taka á að það er orðið óaðlaðandi fyrir fólk, bæði karla og konur, hlutfallslega er það meira konur, að fara inn á þetta starfssvið. Og það breytist ekki á meðan stjórnmálin halda áfram að þróast meira og minna út í eitthvað svona persónulegt níð. Það breytist fyrst þegar við förum að snúa okkur meira að málefnum.“
Sigmundur gagnrýndur vegna hagsmunaáreksturs
Sigmundur Davíð þurfti að víkja úr stöðu forsætisráðherra í fyrra eftir að leki úr panamaískri lögmannsstofu leiddi í ljós að hann og eiginkona hans áttu um hálfs milljarðs kröfu á þrotabú íslensks banka, sem þýddi að þau höfðu verulega leynda hagsmuni tengda einu helsta úrlausnarefni stjórnmálamanna, sem Sigmundur kom beint að. Í siðareglum þingmanna og ráðherra er kveðið á um að gefa eigi upp slíka hagsmuni og gera almenningi kunnugt um þá.
Sigmundur sagði meðal annars að George Soros, alþjóðlegur fjárfestir, stæði á bakvið Panama-skjölin. Soros var hins vegar sjálfur í skjölunum. Þá hefur Sigmundur ítrekað sakað Ríkisútvarpið fyrir að hafa beitt sér óheiðarlega gegn sér.
Þá sagði Sigmundur að viðtal hann við hann væri í raun falsað, en hann yfirgaf viðtal eftir að hafa verið spurður út í félagið Wintris, sem hélt utan um kröfu þeirra hjóna.
Sigmundur boðaði fyrir kosningar að hann stefndi að því að draga þrjá fjölmiðla fyrir dóm eftir kosningarnar vegna umfjallana um sig.
Athugasemdir