Nýverið birti framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins (SA), Halldór Benjamín Þorbergsson, grein í Morgunblaðinu: Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi. Tilgangur greinarinnar virðist hafa verið sá að toga umræðuna upp á hærra plan með því að tryggja að allir hefðu aðgang að réttum upplýsingum. Þetta er lofsamvert framtak hjá framkvæmdastjóra SA – verst að framkvæmdin er ekki betri en raun ber vitni. Ég ákvað að fara nokkuð nákvæmlega yfir greinina, en sum atriðin sem ég bendi á hérna eru vissulega smámunasemi starfandi vísindamanns. Önnur atriði eru nógu slæm (skv. mínu persónulega mati) að þau veikja allan málflutning SA.
Ég varð nokkuð forvitinn að skoða undirliggjandi tölur þar sem gröfin voru sérkennileg í mínum augum. Það sem vakti fyrst athygli mína var graf þar sem fullyrt er að lækkun á Gini-stuðli úr 25 í 23 sé 10%. Ég er að vísu ekki hagfræðingur en minn reikningur gefur 8% (25-23=2; 2/25=0.08=8%), svo þarna er komið viðvörunarmerki sem kallar á meiri athugun á gæði greinarinnar.
Bábilja 1 – Tekjudreifing/Gini-stuðlar
Best er að byrja á að skoða gögnin frá OECD og skoða hvort að þetta séu einfaldlega óvenjulegar afrúnnanir í reikningunum hjá SA. Ég fletti upp Gini-stuðlum í gagnagrunni OECD. Þá kemur í ljós hrein staðreyndavilla í greininni. Nýjustu tölur OECD stemma ekki við það sem eru sagðar nýjustu tölur frá þeim. Þar fann ég nýjasta stuðullinn (sem er frá 2014 eins og sagt er frá í greininni) en hann er 0.246. (Ath. hægt er að skrifa stuðullinn ýmist sem 0.246 or 24.6%. Til að gæta samræmis mun ég alfarið notast við prósentuútgáfuna hér) Það stemmir ekki við graf 1 í greininni sem gefur upp 23, en það er alls ekki hægt að námunda Gini-stuðul OECD niður í 23.
Þetta þýðir að talan fyrir Ísland er vitlaus. Líkleg orsök þess er að gildið frá Hagstofu Íslands hafi verið tekið beint og námundað. Þetta er hægt sjá beint út frá grafi 2 í greininni. En höldum okkur áfram við graf 1, enda eru fleiri atriði sjáanleg þar.
Ef Gini-stuðlar landanna eru skoðaðir nákvæmlega þá sést að röð landa hjá OECD er ekki í samræmi við tölur SA. Hinsvegar, þá er hægt að finna svipuð gögn ef maður skoðar 2013, en ekki 2014! Þó eru undantekningar eins og Ísrael, sem var 36% árið 2013 en 37% árið 2014. Gögn Japan eru frá 2012. Holland er gefið upp af OECD sem 29% (árið 2013) en ekki 28%, þó það eru bráðabirgðartölur. Svíþjóð á að vera 27% en ekki 28%. Ef notuð eru 2014 gildin þá er 39% rétt fyrir Bandaríkin en þar sem gögn SA virðast vera frá 2013, þá ætti að standa 40%. Ég fæ líka ekki séð hvernig Tékkland geti verið fyrir ofan Finnland, þar sem OECD gagngrunnurinn segir hið gagnstæða (þetta hefur gilt um nokkura ára skeið). Röðin á Lúxemborg, Svíþjóð, Austurríki og Slóvakíu (hjá SA) stemmir ekki við OECD röðina. Hún er Lúxemborg, Austurríki, Slóvakía og Svíþjóð árið 2013 en árið 2014 er Lúxemborg, Svíþjóð og Austurríki í röð saman en Slóvakía er við hliðina á Íslandi!
Í stuttu máli, þá eru gögn SA furðuleg eða úrelt. Þar sem gagnagrunnurinn var uppfærður 13. júlí þá ættu samtökin að hafa haft möguleika á að verða sér úti um þau. Ég sem leikmaður gat það á auðveldan máta. En ef maður skoðar núna gögnin með sömu námundun og SA gerir, þá er röðin eftirfarandi:
25%: Ísland, Slóvakía og Slóvenía
26%: Danmörk, Noregur, Tékkland og Finnland
Það er því ekki hægt að gera greinarmun á milli Íslandi, Slóvakíu og Slóveníu en þau lönd eru með 4% lægri (1/26=0.038...=4%) Gini-stuðul en þau sem eru á næsta þrepi.
Það er eitt sérkennilegt atriði til viðbótar í þessu eina grafi. Þrátt fyrir að þar séu nokkur lönd með sömu Gini-stuðla, þá eru súlurnar í grafinu ekki jafnháar. Líklegasta skýringin er að ónámunduð gögn voru notuð til þess að teikna þær upp en síðan námundaðar tölur settar ofan á þær. En hvernig á maður að taka svona framsetningu alvarlega?
Bábilja 2 – Þróun tekjuójöfnuðar á Íslandi
Gini-stuðlar eru ekki mjög nákvæmt tól. Sérstaklega ef maður tekur tillit til þess að þáttaka er valkvæð í könnun Hagstofunnar. Það er 3000 manna úrtak sem veldur því að auðvelt fyrir Gini-stuðulinn að hnikast niður á við t.d. ef auðugir einstaklingar væru minna til í að taka þátt. Ofan á þetta kemur sú staðreynd að aflandsvæðingin var umtalsverð á Íslandi og því eitthvað um duldar tekjur sem annars myndu ýta Gini-stuðlinum upp á við. Nýleg grein Indriða Þorlákssonar, fyrrum ríkisskattstjóra, fjallar ítarlegar um þessi vandamál.
Bábilja 3 – Eignadreifing samkvæmt Credit Suisse
Hérna komum við síðan að öðru sérkennilegu atriði. Skoðið tölurnar fyrir Norðurlöndin. Hvaða tala kemur á eftir kommunni? Það er núll í öllum tilfellum, sem vekur athygli manns. Í ljós kemur að þetta er afleiðing námundunar sem er svo látin eftir á líta út fyrir að vera nákvæmari gögn. Ég veit að ég hefði verið skammaður fyrir svona vinnubrögð í menntaskóla, en þetta er þó bara neyðarlegt. Það að bera saman þessar tölur er hinsvegar vandkvæðum háð.
Ef maður skoðar heimild SA, Global Wealth Databook, og les sér til um Ísland, þá kemur eitt í ljós. Gögnin eru mjög slöpp (*e.* very poor) að sögn Credit Suisse (Tafla 2-1). Á meðan eru gögnin fyrir Svíþjóð og Noregur talin ásættanleg en góð fyrir Danmörku og Finnland. Þetta þýðir að samanburðurinn í grein SA er veikur vegna mikillar óvissu. Í raun myndi ég persónulega segja að lítið hægt að marka bollaleggingar út frá þeim.
Því næst er ágætt að glugga aðeins í skýrslu Credit Suisse, Global Wealth Report, en framkvæmdastjóri SA vitnar til Databook hluta hennar. Þar kemur fram að skýrsluhöfundar telja gögn Íslands nógu slök að þeir vilja ekki fullyrða neitt út frá þeim vegna gæða þeirra. Þetta sést á bls. 9 í skýrslunni: “Luxembourg and Iceland could be considered closer competition, but we lack confidence in the data for these countries”. Skýrsluhöfundar vilja ekki raða Íslandi á lista eftir auð per manneskju, en það er ætlast til þess að við tökum ákvörðun um framtíðarstefnu á Íslandi út frá sömu gögnum. Ég vona að slíkur málflutningur dæmi sig sjálfur.
Hægt er að fara á vef Hagstofunnar og fá upplýsingar um hvert eigið fé íslenskra heimila er. Þar má finna skrá (THJ09005) þar sem hægt er að fá eigið fé fjölskyldna eftir eigna tíundum. („Fjölskylda er mynduð af samsköttuðum einstaklingum og börnum undir 16 ára aldri á þeirra framfæri. Fjölskyldugerðin getur því vikið verulega frá fjölskyldugerð í þjóðskrá, enda þurfa hjón ekki að vera samsköttuð“) Áhugasamir geta fengið Python skriftu sem reiknar út Gini-stuðullinn og teiknar upp grafið sem ég gerði hér:
Það skal tekið fram að gögn Hagstofunnar eru ekki að fullu sambærileg við gögn Credit Suisse. Þar er miðað við einstaklinga, en þessi gögn Hagstofunnar miða við fjölskyldu, en þó með þessum samsköttunarformerkjum hér að ofan. En með þessum varnagla, hver væri talan fyrir Ísland árið 2016? Mínir reikningar gefa 85,2%, sem setur okkur í annað sæti af Norðurlöndunum á eftir Danmörku (89,3%) eða á svipuðum slóðum og Bandaríkin (86,2%). Ef við skoðum grafið þá sést að vissulega hefur Gini-stuðull eignadreifingu farið hratt lækkandi síðustu ár. Það er líka ansi óvenjulegt ástand á tímabili rétt eftir Hrunið, þar sem eigið fé margra þurrkaðist út og því er Gini-stuðullinn yfir 100%. En við erum nýkomin aftur á svipaðar slóðir og fyrir Hrun.
Annað atriði sem verður að hafa í huga þegar maður horfir á þessar tölur. Það þarf eilítið samhengi til þess að skilja veikleika þeirra. Þetta eru gögn sem unnin eru úr skattframtölum, svo að í einhverjum tilfellum gæti vantað aflandsfélög hjá einstaklingum. En veigamest er líklega það að gögnin notast við nafnverð (fremur en markaðsverð) verðbréfa, svo ég tel það hæpið að þau endurspegli að fullu auð efstu tíundarinnar. Þessi atriði benda frekar á að stuðullinn sem ég reiknaði sé vanmat ef eitthvað er.
Bábilja 4 – Vaxandi eignajöfnuður á Íslandi
Að forminu til má segja að samkvæmt þessum staka mælikvarða þá sé eignajöfnuður að aukast. En það er ofeinföldun eins og er útskýrt vel í nýlegum greinum bæði á Kjarnanum og á Vísi.is. En ég kom líka að þessu efni í síðustu málsgrein.
Bábiljan um bætta umræðu
Þar sem SA gaf sig út fyrir að vilja hífa umræðuna upp á hærra plan þá er ekki verjanlegt að mínu mati að stunda svona talnaleikfimi. Flestir eiga nógu erfitt með að fylgja eftir umræðum sem byggja á mikið af tölum, hvað þá þegar það er orðið nauðsynlegt að leita uppi gagnagrunna til að fá réttu tölurnar. Því þarf ég eiginlega að kalla þetta hræsni, enda opnar grein SA á „Í aðdraganda kosninga er misfarið með staðreyndir.“
Auðvitað benti ég SA á suma af þessum vanköntum í grein framkvæmdastjóra þeirra. Ég gerði það við þessa Facebook-færslu. Hinsvegar eru athugasemdir mínar huldar öðrum, svo annað hvort hefur kæfuvörn (e. spam filter) Facebook falið þær eða síðustjórnandi ákveðið að fela þær. Vinir mínir á Facebook sjá áfram þessar athugasemdir og ég fæ tilkynningar eingöngu tengdar gjörðum þeirra, en ef aðrir gera athugasemdir koma engar tilkynningar til mín. Í ljósi þess að ég hef ekki misst möguleikann á að birta hluti á Facebook, þá tel líklegra að athugasemdirnar hafi verið faldar hjá mér. (Ég útiloka ekki kæfuvörnina)
Það er augljóslega réttur SA að stýra umræðunni á síðu þeirra. Ég tel að athugasemdir mínar hafi verið málefnalegar, þó ítarlegar. En mér er aðallega skemmt yfir þessari uppákomu, enda ýtti hún mér út í að skrifa grein.
Vond gögn geta skemmt út frá sér. Enda er eitt af því áhugaverðasta sem ég tók eftir á meðan ég var að ganga frá þessari grein myndband frá hinni víðfrægu/alræmdu síðu Kosningar 2017 (gefið út 3. október en grein SA 12. október). Ef maður skoðar grafið í myndbandinu þá er áhugaverð röðun landa í því. Það er stórt stökk frá Íslandi yfir í Noreg. Finnland er fyrir neðan Tékkland. Slóvakía er síðan hvergi nálægt Íslandi, en er í hóp með öðrum löndum Lúxemborg, Svíþjóð, Austurríki og Slóvakía. Það er sérstakt að tveir ólíkir hópa vitni á sama hátt vitlaust í sömu heimildirnar. En það þýðir líklega að báðir hópar eru með sama mengaða viskubrunninn.
Niðurlag
Ég veit að þetta röfl mitt um tölulegar upplýsingar frá SA er ólíklegt til þess að breyta mikið í umræðunni. Margir hafa nú þegar grafið sig niður í skotgrafir og verða því kannski ekki viðræðuhæfir fyrr en í næstu viku. En ég vona að einhverjir hafi haft gagn af þessari langloku, því ég tel að slök vinnubrögð veikja málstað fólks. Einhverjir gætu fullyrt að það hafi verið meðvitað að setja fram gögnin á þennan máta, en ef maður beitir rakhnífi Hanlons þá telur maður það minna líklegt.
Höfundur er nýdoktor við efnafræðideild Cambridgeháskóla og eðlisfræðideild Chalmers Tækniháskólans.
Athugasemdir