Þegar ég var strákur vissi ég að einn af hinum fjölmörgu kostum sem gerðu Ísland að besta landi í heimi var sú staðreynd að hér var engin spilling.
Það var nefnilega óneitanlega ágæt viðbót við besta heilbrigðiskerfi í heimi og besta menntakerfi í heimi, en hvoru tveggja gátum við þá státað af á Íslandi í viðbót við hið algera spillingarleysi.
Mikið var ég feginn að hafa fæðst á Íslandi, já, ég hugsaði oft um það í raun og veru hve þakklátur ég væri að fyrir guðs blessun og foreldra minna hefði ég fæðst hér en ekki í einhverju útlensku spillingarríki þar sem öll kerfi væru líka í rúst.
Þótt ég tryði ekki á guð, þá mátti samt þakka honum þetta.
Og hvernig vissi ég þetta?
Jú, ég lærði það einfaldlega í skólanum. Manni var beinlínis sagt það í skólanum í minni barnæsku að allt væri best á Íslandi og alls engin spilling.
Þá hikaði skólakerfið ekki við svo blygðunarlausa innrætingu og skammaðist sín ekki neitt. Var heldur nokkur ástæða til þess? Var þetta ekki allt satt? Mér sýndist það. Í hinum erlendu fréttum Morgunblaðsins var manni einatt sagt frá alls konar spillingu og viðbjóði í öðrum löndum, en í grundvallaratriðum var flestallt í lagi á Íslandi.
Ég man til dæmis greinilega eftir því hvað ég varð feginn yfir því að vera Íslendingur þegar ég las um ástandið í Mið-Asíuríkinu Fjarhistan.
Valdaklíkunni einni treystandi
Þar var ekki bara grasserandi spilling þannig að við kjötkatlana sátu stuðningsmenn helstu valdaklíkunnar og röðuðu upp í sig feitmetinu, en aðrir fengu ekkert fyrr en eftir dúk og disk.
Nei, valdaklíkan í Fjarhistan var svo lúmsk að hún var meira að segja búin að telja landsmönnum trú um að þar væri engin spilling og henni einni væri treystandi til að varðveita stöðugleika í Fjarhistan.
Ótrúlegt nokk, las ég furðu lostinn, þá trúði stór hluti landsmanna þessu, en það var nú reyndar kannski ekki svo skrýtið eftir skefjalausan áróður áratugum saman.
En þá tók nú steininn úr þegar gagnrýnisraddir gegn valdaklíkunni fóru loks að láta á sér kræla. Valdaklíkan brást við með þrotlausum og mjög svo lýjandi árásum á fjölmiðla í Fjarhistan, ýmist til að kúga þá til hlýðni, svo ekkert yrði talið fréttnæmt sem væri valdaklíkunni óhentugt, eða hreinlega til að þreyta þá frá því að sinna samfélagsgagnrýni og rannsóknarblaðamennsku.
Fjölmiðlar sem slíku sinntu fengu alltaf, ævinlega og undantekningarlaust skít og skömm í hattinn frá valdaklíkunni.
En þegar það virtist ekki ætla að duga heldur, þá gerðust óvæntir atburðir.
Sýslumaður í Fjarhistan
Sýslumaður nokkur í Fjarhistan, maður sem tilheyrði valdaklíkunni og átti allt sitt undir henni, féllst á lögbann á allar fréttir af einkar vafasömum fjármálagerningum sem forsætisráðherra valdaklíkunnar, Gúrbjarne Benedikhmadov, hafði tekið þátt í.
Það fór hrollur um mig, barnið, þegar ég las þetta. Lögbann á fréttir af forsætisráðherranum? Úff! Hvernig gat fólk búið í svo spilltu landi? Það hlaut að vera hræðilegt land, þetta Fjarhistan.
En Fjarhistan er ekki fjarri, Fjarhistan er hér og þetta gerðist ekki fyrir löngu heldur núna og Gúrbjarne Benedikhmadov heitir í raun réttri ... ja, ég þarf ekki að segja ykkur það.
En að sú tilfinning að vera Íslendingur sé farin að nálgast smán, það er ekki gott. En sú tilfinning greip mig þegar ég las að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefði lýst áhyggjum sínum af því hvernig nú væri komið málum á Íslandi eftir lögbannið.
Spillingarbæli?
Við verðum einfaldlega að snúa við blaðinu. Við þurfum að gera það strax – áður en það verður „eðlilegur“ hlutur að heyra og hunsa áhyggjur útlendinga af lýðræði og tjáningarfrelsi á Íslandi. Já, þessar kosningar snúast um bætt kjör aldraðra, um endurreisn heilbrigðiskerfisins, en þær verða að snúast um raunverulega hundahreinsun í því spillingarbæli sem Ísland er nú og hefur líklega alltaf verið, þótt valdaklíkan hafi talið okkur trú um annað.
Við þurfum að losna við spillingu úr fjármálakerfi, stjórnmálum, stjórnsýslu og hvar sem sú fló hefur tyllt niður fæti.
Og já, við þurfum og verðum að losna við hinn íslenska Gúrbjarne Benedikhmadov og alla þá klíku.
Athugasemdir