Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn embættisins vilja ekki tjá sig um athugasemdir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu við lögbannið sem sett var á allan frekari fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum frá Glitni.
Þórólfur Halldórsson sýslumaður sagðist ekki hafa kynnt sér umrædda gagnrýni sem fjallað var um í flestum fjölmiðlum í gær og ekki lesið athugasemdir Harlem Désir, fjölmiðlafrelsisfulltrúa ÖSE. Þá kom hann af fjöllum þegar hann var spurður um staðla ÖSE að því er varðar vernd og takmörkun tjáningarfrelsis.
Þetta kom fram á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um fjölmiðlafrelsi og lögbann sýslumanns sem nú stendur yfir og er sýndur í beinni útsendingu á vef Alþingis.

Fulltrúar sýslumanns sögðust hafa takmarkað svigrúm til að tjá sig um einstaka mál og tók sýslumaður fram í upphafi fundar að nær allt það sem embættið teldi sig geta sagt um málin hefði komið fram í tilkynningu sem send var fjölmiðlum á dögunum. Þá vísaði hann sérstaklega til þess að upplýsingar um ýmsar embættisathafnir sýslumanns væru undanþegnar upplýsingalögum.
Sýslumaður kvartaði undan umræðu um lögbannið og sagði að starfsmenn embættisins hefðu setið undir „ómaklegri“ gagnrýni og að fjallað hefði verið „ótæpilega“ um málið. Þingmenn þurftu að ganga á eftir spurningum sínum til fulltrúa sýslumanns.
Athugasemdir