Andrés Magnússon blaðamaður er ekki í leyfi frá Viðskiptablaðinu á meðan hann starfar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda kosninga. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er Andrés, sem býr í Bretlandi, með aðsetur í Valhöll á meðan hann er staddur hér á landi þar sem hann er að hjálpa til við kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.
Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, svaraði því ekki hvort fjölmiðillinn væri með siðareglur um það hvort blaðamenn megi starfa fyrir stjórnmálaflokk á sama tíma og þeir starfa við fréttaflutning, en tók fram að Andrés væri fyrst og fremst að vinna grafískt efni fyrir blaðið, auk þess að skrifa pistla um fjölmiðla. Þá skrifi hann einstaka sinnum erlendar fréttir. „Þannig hann er ekki að skrifa um neitt sem viðkemur pólitík í blaðið,“ sagði Trausti í samtali við Stundina.
Þegar Stundin náði tali af Andrési síðdegis í gær sagðist hann ekki hafa tíma til að svara spurningum blaðamanns um málið, en bað um að fá sendar spurningar í tölvupósti. Hann svaraði ekki spurningum Stundarinnar, en þess í stað greinir hann sjálfur frá því í pistli í Viðskiptablaðinu í dag að hann sé félagi í Sjálfstæðisflokknum og taki aukin heldur þátt í kosningabaráttu hans.
Heimildir Stundarinnar herma að Andrés hafi einnig starfað að kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í fyrra. Hann svaraði hins vegar ekki spurningum Stundarinnar þess efnis, né heldur hvort hann fái greitt fyrir störf sín fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Tók upp málflutning Bjarna í sjónvarpsþætti
Andrés var fenginn sem álitsgjafi í þáttinn Silfrið á RÚV síðastliðinn sunnudag. Þar var hann kynntur inn sem blaðamaður, en tengsl hans við Sjálfstæðisflokkinn og yfirstandandi störf fyrir kosningabaráttu flokksins voru ekki gerð áhorfendum kunn. Frétt Stundarinnar, Reykjavík media og breska blaðsins Guardian, um að Bjarni Benediktsson hefði fært umtalsverða fjármuni úr Sjóði 9 í aðra sjóði Glitnis daginn sem neyðarlögin voru sett, var meðal annars rædd í þættinum.
„Hér er um að ræða gamla frétt, ég myndi segja jafnvel ekki frétt, vegna þess að henni er augljóslega kastað fram til þess að hafa áhrif á kosningarnar,“ sagði Andrés um fréttaflutninginn. Þá sagði hann tímasetninguna á fréttinni algerlega ljósa. „Af einhverjum ástæðum kjósa þeir að bíða með þessa frétt,“ sagði hann ennfremur.
„Ef hann væri að skrifa fréttir um pólitík þá væri það auðvitað mjög óheppilegt.“
Þessi málflutningur er samhljóða viðbrögðum Bjarna Benediktssonar við fréttunum. Í viðtali við RÚV á föstudag sagðist hann vera viss um að umfjöllunin hafi verið birt á þessum tíma til að koma höggi á hann. „Blaðamaðurinn sem hringdi í mig frá Bretlandi hann beinlínis sagði mér að þeir hefðu haft þessi gögn, þessar upplýsingar, í margar vikur og að þeir hefðu beðið eftir réttu tímasetningunni,“ sagði Bjarni.
Í þættinum tók Andrés þannig upp málflutning Bjarna í málinu.
Aðspurður hvort það væri ekki óheppilegt fyrir fjölmiðilinn að maður sem sé kynntur til leiks sem blaðamaður Viðskiptablaðsins í umræðuþáttum um stjórnmál, en taki á sama tíma virkan þátt í starfi stjórnmálaflokks, segir Trausti: „Ef hann væri að skrifa fréttir um pólitík þá væri það auðvitað mjög óheppilegt. En hann er ekki að gera það, hann er ekki að taka viðtöl við pólitíkusa eða skrifa einhverjar pólitískar fréttir í aðdraganda kosninga.“
Þess má geta að Jon Henley, blaðamaður Guardian sem fékk gögnin upphaflega til sín, sendi í fyrradag frá sér yfirlýsingu þar sem hann bar til baka fullyrðingu forsætisráðherra. Í henni sagðist Henley hafa viljað birta fréttina í vikunni sem hefst mánudaginn 16. október, eða jafnvel í þeirri næstu, sem hefst 23. október. „En íslenskir starfsfélagar mínir sögðu þá að ef fréttin færi út svo stuttu fyrir kosningar væri hætta á að hún hefði óeðlileg áhrif á þær. Þeir vildu birta þetta eins fljótt og hægt er, í síðasta lagi í vikunni sem lauk 2. október. Það er því langur vegur frá því að birtingu hafi verið seinkað til síðasta föstudags - henni var þvert á móti flýtt um nokkrar vikur til að draga úr skaðanum,“ sagði breski blaðamaðurinn.
Sagði fjölmiðla skulda Bjarna afsökunarbeiðni
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Andrés tekur upp varnir fyrir Bjarna á opinberum vettvangi. Í pistlinum Æran, sem birtist á vef Viðskiptablaðsins 5. ágúst síðastliðinn, gagnrýnir hann fjölmiðla fyrir að hafa gengið á eftir svörum frá Bjarna í sumar varðandi mál Roberts Downey. Sagði Andrés bæði Ríkisútvarpið og Fréttablaðið skulda forsætisráðherra „mjög auðmjúka afsökunarbeiðni fyrir þessa atlögu að æru hans.“
Þann 2. ágúst hafði Bjarni greint frá því að hann hafi ekki gegnt embætti innanríkisráðherra þegar mál Roberts voru til lykta leidd í ráðuneytinu, en fram að því var talið að Bjarni hefði verið starfandi innanríkisráðherra þegar Robert fékk uppreist æru. Þann 16. júní sagði Bjarni sjálfur í viðtali við RÚV að hann hefði tekið við niðurstöðu í ráðuneytinu, sem hafi síðan fengið hefðbunda meðferð. Bjarni hefur ekki svarað fyrirspurnum frá Stundinni til lengri tíma og margar vikur liðu áður en hann tjáði sig um málið í sumar.
„Þetta er einstaklega aumt allt, því þarna hefur Bjarni verið borinn óbeinum sökum, sem hann hefur hvergi fengið tækifæri til þess að bera af sér með beinum hætti; röngum sökum um staðreyndir, sem einstaklega auðvelt er að komast að og staðreyna. Einmitt það er hið sérstaka hlutverk fjölmiðla,“ skrifaði Andrés um málið.
Athugasemdir