Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi ráðherra, situr í þriggja manna uppstillingarnefnd vegna framboðs Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Katrín var þingkona flokksins á tímabilinu 2003 til 2016 en hefur starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja frá því í nóvember 2016.
Sem starfsmaður fyrir hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja hefur það komið í hlut Katrínar að beita sér fyrir því að sköttum sé létt af fjármálafyrirtækjum, meðal annars að skattbreytingar sem gerðar voru í tíð vinstristjórnarinnar verði afturkallaðar. Sjálf var hún iðnaðarráðherra í umræddri ríkisstjórn á árunum 2009 til 2012 og fjármála- og efnahagsráðherra frá 2012 til 2013.
Gera tillögu um sigurstranglegan framboðslista
Kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi kaus um tilhögun við val á framboðslista í kjördæminu á sunnudagskvöld. Niðurstaðan er sú að framboðslistinn verður valinn með uppstillingu.
„Í þriggja manna uppstillingarnefnd sitja: Katrín Júlíusdóttir, fv. alþingimaður, Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi og Gunnar Svavarsson, fv. alþingismaður sem jafnframt er formaður nefndarinnar,“ segir í tölvupósti sem flokksmönnum barst í gær.
„Kallað er eftir tilnefningum að frambjóðendum frá flokksfélögum og fanga leitað víða innan flokks sem utan. Jafnframt verði horft til framboðslista vegna síðustu kosninga. Uppstillingarnefnd gerir tillögu að framboðslista sem hún telur sigurstranglegan og mun leitast við að tryggja að listinn í heild endurspegli fjölbreytni samfélagsins.“
Athugasemdir