Íslendingar virðast eiga heimsmet í því að hlaupast undan ábyrgð. Við erum svo góð í því að það er til sérstakt ferli sem þingmenn og ráðherrar fylgja þegar erfið pólitísk mál koma upp. Flokkurinn fylkir liði í kringum sína manneskju, ver hana með kjafti og klóm og skammar allan almenning fyrir að heimta upplýsingar um ákvarðanatöku og framkvæmd. Ferlið endar svo alltaf á því að ráðherra segir þetta allt byggt á misskilningi, einhver hafi gefið rangar upplýsingar eða að hann eða hún hafi bara einfaldlega verið erlendis þegar erfiðar ákvarðanir voru teknar. Í þeim tilvikum sem hafa komið upp síðustu ár er ljóst að ráðherrar áttu að vita betur og þekkja þá grein í stjórnarskránni sem segir ráðherra bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.
Þær afsakanir sem Sigríður Á. Andersen ber nú á borð varðandi málsmeðferð í málum tengdum uppreist æru eru því ótrúverðugar í ljósi þess að hún hefur haft meira en nægan tíma til að koma þeim á framfæri síðan um miðjan júlí. Þess í stað fór í gang fáránleg atburðarás sem lyktar af leyndarhyggju og meðvirkni. Við skulum ekki gleyma því að upphaflega átti almenningur ekki að fá aðgang að gögnum um uppreist æru Roberts Downey og að þegar birta átti þessi gögn nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákváðu allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni að ganga út án þess að kynna sér þau. Það er oft sagt að það sé auðveldara að leyna upplýsingum þegar maður hefur þær ekki undir höndum sjálfur og sjaldan hafa Sjálfstæðismenn verið jafn æstir í að líta undan.
Ef ekki hefði verið fyrir dugnað og kraft fórnarlamba þessara manna, fjölskyldna þeirra og dygga aðstoð frá þingkonu Pírata, Þórhildi Sunnu, hefði þetta orðið enn eitt óþægilegt mál Sjálfstæðisflokksins sem fengi að deyja í nefnd. Þessu máli var ætlað að fara sömu leið og Lekamáli Hönnu Birnu áður en blaðamenn Stundarinnar knúðu fram afsögn ráðherra með herkjum. Hér var öllum brögðum beitt við að leyna almenning upplýsingum. Það að Sigríður Á. Andersen stígi nú fram og haldi fram að þetta hafi verið henni þungbært og að það sé vitleysa í okkur að halda fram að það hafi verið einhver leyndarhyggja í gangi heldur engu vatni.
En hver eru þá næstu skref? Tilvik þar sem ráðherra tekur vitlaust á málunum og kemur sér undan ábyrgð koma reglulega upp á Íslandi. Þetta er í annað skiptið á innan við ári sem við göngum til snemmbúinna Alþingiskosninga vegna siðferðislegra vafasamra gjörða ráðherra. Ekki vegna þess að meirihluti þingmanna séu vitlausir eða óstjórntækir heldur því að ráðherrar og þingmenn á Íslandi neita að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Margoft hafa verið nefnd dæmi frá Norðurlöndunum þar sem ráðherrar hafa stigið niður af stólum sínu vegna mála sem hér á Íslandi þykja hlægileg: notuðu vitlaust kreditkort, gleymdu að borga símreikning og réðu fólk í svarta vinnu. Hversu lengi þurfum við Íslendingar að bíða eftir því að fá inn fólk á Alþingi og í ráðuneytin sem er óhrætt við að axla ábyrgð. Hvað þá fólk sem áttar sig strax á þeirri miklu ábyrgð sem það fær í té sem fulltrúar þjóðarinnar? Varnaglinn pólitísk ábyrgð er nánast eina haldreipið sem kjósendur hafa og á að virka þannig að þeir aðilar sem við kjósum inn á þing séu reiðubúnir að viðurkenna mistökin sem þeir gera og taka afleiðingum gjörða sinna. Hugtakið er huglægt og eina leiðin til þess að framfylgja því er að fólkið sem tekur við ábyrgðinni þegar búið er að telja upp úr kjörkössunum sé nógu þroskað til þess að sjá hvenær þau hafa tekið vitlaust á málunum, sama hversu lítil eða stór þau eru.
Ýmsar reglur innan stjórnsýslunnar eiga að tryggja fagmannleg vinnubrögð. Reglur um almennt og sérstakt hæfi eiga að tryggja að ráðherrar hlutist ekki til um mál þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta. Í ljósi þess hversu leiðtogaræðið innan gamalgróinna flokka er sterkt hlýtur almenningur að velta því fyrir sér hvort að dómsmálaráðherra sé hæfur til þess að fara með mál um uppreist æru þar sem faðir forsætisráðherra hefur kvittað upp á góða hegðun umsækjenda. Vissulega væri óvenjulegt fyrir ráðherra að ganga gegn vélrænum hefðum ráðuneyta en það þýðir ekki að það sé bannað. Ef að dómsmálaráðherra fannst ferlið óþægilegt og taldi að því þyrfti að breyta, veigraði hún sér þá við því vegna þeirra tengsla sem þarna eru til staðar?
Við virðumst alltaf lenda á sama stað. Ef að ráðherra getur ekki axlað sína ábyrgð og ef meðvirkni og hagsmunatengsl koma í veg fyrir að ráðherrar geti gert það, þurfum við skilvirkari varnagla inn í stjórnkerfið. Ekki getum við verið að kjósa á hverju ári vegna þess að fólk sem við treystum fyrir völdum er ófært um að líta í eigin barm og axla ábyrgðina sem fylgir skyldunum.
Olga Margrét er varaþingkona Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður og sækist eftir 1.-3. sæti í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu.
Athugasemdir