Sigurður Ágúst Þorvaldsson, körfuboltamaður í meistaraflokki KR og fyrrverandi landsliðsmaður, er í hópi þeirra sem fengu uppreist æru í fyrra. Þetta sýna gögn sem dómsmálaráðuneytið afhenti Stundinni í dag. Sigurður var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun á 17 ára stúlku árið 2011.
„Ef hægt væri að skrifa bók um hvernig fólk á að koma sér aftur út í lífið þá er saga Sigurðar Ágústar kjörin til þess,“ segir í meðmælum sem fyrrverandi þjálfari Sigurðar veitir honum. „Eftirsjá og iðrun er algjör og einbeitingin á að eiga gott líf með sinni fjölskyldu og vinum er allsráðandi.“
Meðmæli frá samstarfsmanni Sigurðar af vinnustað segja sömu sögu: „Við höfum átt viðræður um orsök og afleiðingar þess dóms sem hann hlaut og er augljós eftirsjá og iðrun hjá honum vegna þessa.“
Héraðsdómur og Hæstiréttur, komust að þeirri niðurstöðu 2010 og 2011 að fullsannað væri að Sigurður hefði brotið gegn stúlkunni og notfært sér að hún hefði ekki getað spornað gegn verknaði hans vegna svefndrunga sem var rakinn til þreytu og áfengisdrykkju.
Sigurður neitaði staðfastlega sök en gekkst þó við því að hafa haft samræði við hana. Í dóminum er haft eftir stúlkunni að hún hafi vaknað við að hann væri ofan á sér, brugðist við með því að öskra og hlaupa út en hann kallað á eftir henni: „Þú veist að ég á fjölskyldu“.
Hann lauk afplánun í nóvember árið 2012 og sótti um uppreist æru sumarið 2016. Tillagan var samþykkt af Ólöfu Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, sama dag og þeir Hjalti Sigurjón Hauksson og Robert Downey fengu uppreist æru.
*Árétting ritstjórnar. Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að yfirmaður Sigurðar hefði veitt honum meðmæli þegar sótt var um uppreist æru, en viðkomandi er samstarfsmaður hans, ekki yfirmaður.
Athugasemdir