Í umræðum um virkjanaáform HS Orku í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði á Ströndum hefur það verið notað sem röksemd með verkefninu að virkjanakosturinn sé í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Með því er gefið í skyn að búið sé að leyfa nýtingu og málið sé þar með útrætt. Pétur G. Markan sveitarstjóri Súðavíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfjarða hélt þessu meðal annars fram í grein í Stundinni fyrir skömmu. Þar sagði hann að í vinnu verkefnastjórnar Rammaáætlunar fái „náttúran þá faglegustu meðferð sem völ er á hverju sinni,“ og í framhaldinu: „Hvalárvirkjun hefur gengið í gegnum rammaáætlun, gegnumlýst og þolprófuð, og niðurstaðan er sú að verkefnið er sett í nýtingarflokk. Náttúran naut og nýtur vafans.“ Í þessum orðum gætir nokkurs misskilnings á eðli og tilgangi Rammaáætlunar. Pétur hefur sjálfur haft umboð sveitarstjórnar Súðavíkur til að semja við HS Orku um nýtingu vatnsréttinda í sínu sveitarfélagi vegna byggingar tveggja til þriggja vatnsaflsvirkjana sem munu líklega þurfa að fara inn í rammaáætlun, og ætti því að vita betur.
Hver er tilgangur Rammaáætlunar?
Í inngangi að niðurstöðum verkefnastjórnar 2. áfanga Rammaáætlunar – þar sem Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk – kemur fram að verkefni verkefnisstjórnarinnar sé „að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita og áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina og meta áhrif á hagsmuni allra þeirra sem nýtt geta þessi sömu gæði.“
Þetta þýðir að Rammaáætlun setur ramma um þá virkjanakosti sem framkvæmdaaðilar hafa sýnt áhuga á að virkja, metur þá og raðar þeim svo upp og flokkar innbyrðis. Fari virkjanakostur í nýtingarflokk þýðir það ekki endilega að hann megi nýta skilyrðislaust, heldur að halda megi áfram vinnu við undirbúning, fá öll tilskilin leyfi, og hluti af þeim undirbúningi er að láta fara fram umhverfismat.
Ólíku saman að jafna
Vissulega nýtur náttúran, menningarminjar og fleira, vafans í vinnu verkefnastjórnar Rammaáætlunar, en vegna þess eðlis Rammaáætlunar að flokka virkjanakosti innbyrðis má með gildum rökum segja að í mörgum tilfellum njóti önnur náttúra vafans en einmitt sú náttúra sem tiltekinn virkjanakostur tekur til. Þannig má benda á að af 30 vatnsaflsvirkjanakostum sem 2. áfangi Rammaáætlunar fjallaði um eru 24 kostir taldir verðmætari en Ófeigsfjörður. Reyndar eru 26 af þessum 30 virkjanakostum ýmist rétt við eða innan þjóðgarða, innan friðlanda og/eða búa yfir náttúruvættum, fuglalífi og jurtategundum sem njóta sérstakrar verndar. Gögnin sem lágu til grundvallar mati á Ófeigsfirði og Eyvindarfirði á þessum tíma gáfu ekkert slíkt til kynna og því var Hvalá auðvelt skotmark og léttvæg fundin í samanburðinum.
Umhverfismat – hið raunverulega mat
Verkfræðistofan Verkís vann matsskýrslu um virkjanakostinn í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði fyrir HS Orku og liggur hún ásamt sérfræðiskýrslum um náttúrfar og dýralíf á svæðinu og umsögnum Ferðamálastofu, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Umhverfisstofnun til grundvallar áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum verkefnisins.
Í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif virkjanaframkvæmdanna í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði kveður við nokkuð annan tón en í 2. áfanga Rammaáætlunar. Til dæmis er þar bent á að náttúruverndarlögum hefur verið breytt síðan virkjunarkosturinn var settur í nýtingarflokk Rammaáætlunar og nú er svo komið að tvö af þeim vötnum á Ófeigsfjarðarheiði sem verkefnið nær til njóta sérstakrar verndar vegna stærðar sinnar, en þau eru stærri en 1 km² að flatarmáli, auk fossanna. Einnig er bent á að um 200 km² svæði sem telst til óbyggðra víðerna muni spillast, en viðmið náttúruverndarlaga um slík svæði sem mætti friðlýsa eru 25 km², og er svæðið því áttfalt stærra en viðmiðið.
Verulega neikvæð áhrif, varanleg og óafturkræf
Skipulagsstofnun ályktar að framkvæmdin raski svæðinu varanlega og óafturkræft, og í raun koma allir matsþættir álitsins illa út og þeir einu sem ekki eru taldir beinlínis neikvæðir eru taldir óvissu háðir því ekki liggi nógu miklar rannsóknir að baki þeim, og er þá sérstaklega horft til fuglalífs og menningarminja. Allt þetta þrátt fyrir Rammaáætlun, og segir það okkur kannski eitthvað um hve „gegnumlýst og þolprófuð“ matsgerð Rammaáætlunar kann að vera.
Þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar hefur sveitarstjórn Árneshrepps afgreitt bæði aðalskipulag sem gerir ráð fyrir virkjanasvæðinu og línulögnum frá því í tvær áttir, og deiliskipulag fyrir virkjanasvæðið með öllu því raski sem umhverfismatið varar við. Skipulagsstofnun leggur áherslu á að ríkir almannahagsmunir þurfi að vera í húfi til að verjandi sé að ganga gegn náttúruverndarlögum, en ekkert bólar á rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir þeirra aðgerðum.
Það er ljóst að Rammaáætlun er ekki lokadómur um nýtingu virkjanakosta, þó margir vilji túlka það sem svo. Ef náttúran á að fá að njóta vafans þarf að virða þær niðurstöður sem liggja fyrir um áhrif á umhverfi og náttúfar og falla frá framkvæmdum. Þá, og aðeins þá, getum við tekið undir orð formanns Fjórðungssambands Vestfjarða í Stundinni: „Ef náttúran á að njóta vafans, er Hvalarárvirkjun fyrirmynd sem við getum tileinkað okkur.“
Athugasemdir