Í nýlegri umræðu um hremmingar íslenskra bókmennta var meginlínan sú að bóklestur hefði dregist margfalt saman á tæpum tíu árum og að fólk lesi frekar Facebook-statusa en nýjustu verk Hallgríms Arnaldar Braga Mínervudóttur Kalman. Menningarumfjöllun hefur líka dregist stórkostlega saman, virðisauki hefur hækkað og börnin okkar eru snjallsímavæddir aular.
Kunningi minn vill meina að þetta sé allt saman svokallaðri bókmenntaelítu að kenna, snobbliðið sé búið að eyðileggja lestraránægju þjóðarinnar með sífri sínu um Laxness og Njálu.
En hvar er þessi elíta? spurði ég þar sem ég sat í Þjóðarbókhlöðunni grátklökkur yfir handriti að bók sem hafði satt að segja farið ansi langt með að rústa líf mitt – búinn að skrifa mig út í horn og fyrir björg og út úr hjónabandi. Hvar í ósköpunum var þessi bókmenntaelíta sem kunningi minn vildi meina að væri hættulegri en Trump á Twitter?
Ég horfði í kringum mig á kaffistofunni og sá ekkert nema búsældarlega starfsmenn Landsbókasafnsins og nokkra erlenda skiptinema stinga saman nefjum yfir hringborðum.
En þá benti hann mér á að fara niður í kjallara hússins, þar væri toppaðstaða og meira að segja hægt að skilja tölvuna eftir á borðinu í pásum án þess að eiga á hættu að henni yrði stolið. Hann gaf í skyn að þarna héldi bókmenntaelítan sig.
„Til að fá inni þarna niðri þurfti maður hins vegar að koma sér í mjúkinn hjá rytjulegum, eldri manni sem grúfði sig illilegur bak við skenk með computer-says-no-svip.“
Til að fá inni þarna niðri þurfti maður hins vegar að koma sér í mjúkinn hjá rytjulegum, eldri manni sem grúfði sig illilegur bak við skenk með computer-says-no-svip. Gott ef mér var ekki gefið eitthvert leyniorð eða umsögn um hvernig ég ætti að „fara vel að karlinum“. En sá þurs sem ég er þá arkaði ég bara niður tröppurnar og inn í gegnum einhvern glervegg án þess að spyrja kóng né prest. Vonbrigðin við að koma inn í dýrðina voru talsverð. Birtan var of skær þannig að glampaði á tölvuskjáinn og engin elíta sjáanleg fyrir utan einn sorgbitinn fræðimann sem grúfði sig ofan í fornrit nokkrum borðum framar.
Elítan var hvergi sjáanleg og nú mundi ég eftir því að mamma mín sagnfræðingurinn var oft þarna niðri fyrir aldamót einhverjum árum áður en hún veiktist af alsæmer. Þegar ég var búinn að vera þarna í nokkrar mínútur flaug mér í hug að alsæmer væri ef til vill vírus sem mamma hefði smitast af hérna niðri á milli glerveggja og ég yrði að forða mér sem fyrst upp á yfirborðið.
Eftir þessa sneypuför í undirheima Þjóðarbókhlöðunnar sagði ég við kunningja minn að ég sæi ekki betur en að elítan væri alls ekki til og vandamálið væri þvert á móti skortur á elítu. Allir Íslendingar væru meira eða minna að skrifa einhverja texta og enginn merkilegri en hver annar. Ég er þú og þú ert ég, sagði ég. Já, sagði hann. En hlutverk góðra höfunda er samt sem áður að þjónusta fólkið í landinu.
En þá mundi ég eftir rithöfundi á miðjum aldri sem hafði einsett sér að þjónusta lesendur sína rækilega á samfélagsmiðlum og gekk kannski helst til langt í því samhengi. Sat öll kvöld og gerði athugasemdir í gríð og erg við myndir hjá ungviðinu, einkum föngulegum ungum stúlkum. Þetta endaði síðan allt saman með því að leshringurinn snerist alfarið gegn aumingja rithöfundinum. Þannig að smjaður við lesendur getur verið ansi vafasöm iðja. Rithöfundar verða þvert á móti að rækta með sér ákveðinn hroka til að fá frið til að skrifa og hugsa sjálfstætt.
Þegar ég var unglingur þá las ég gjarnan bækur höfunda sem hétu skrautlegum nöfnum eins og Bulgakov, Bukowski og Gabriel Garcia Marquez. Eins og mörgum af minni kynslóð fannst mér ansi smart ef menn voru í hljómsveit en það að vera rithöfundur, að hafa kannski skrifað heila bók var svo fullkomlega æðisgengið að mér flaug ekki einu sinni í hug að ég gæti einhvern tímann unnið við slíkt.
Ég er hræddur um að ég hefði verið fljótur að henda Hundrað ára einsemd í vegginn ef Gabi gamli hefði allt í einu farið að póka mig á Facebook.
Niðurstaðan eftir misheppnaða leit að elítu er sumsé að rithöfundar geta tala þangað til þeir verða bláir í framan um hógværð og þjónustu við lesendur og hvað það sé mikilvægt að börn lesi góðar bækur en það skiptir ekki máli ef viss elítismi er ekki fyrir hendi. Ef það er ekkert þarna æðra okkur sjálfum þá er lífið einfaldlega ekki þess virði að lifa því. Við þráum til dæmis að heyra sögur eins og þá um einstæðu, ensku móðurina sem lapti dauðann úr skel þegar hún fékk hugmyndina um galdradrenginn Harry Potter. Örfáum árum síðar var hún orðin ein ríkasta kona heims.
Þannig að ég ætla að reyna að ala elítisma upp í syni mínum. Næst þegar hann gleðst yfir að hafa séð Ævar vísindamann í sundi úti á Nesi ætla ég að segja honum – í stað þess að fussa hálf afbrýðisamaur yfir áhuga drengsins á öðrum en mér – að þessi gaur sé alveg jafn merkilegur og Bítlarnir og Presley, það að setja sér háleit markmið og vilja miðla einhverju fallegu skiptir nefnilega öllu máli.
Allt annað er aukaatriði.
Athugasemdir