Ég borða allan mat, eða finnst hann í það minnsta ætur. Fyrir löngu síðan ákvað ég sjálfur að smakka allt sem mér býðst og borða það sem fyrir mig er lagt. Svona næstum því allt. Í það minnsta get ég sagt að mér finnst ekkert svo vont að ég geti ekki sett í mig heila máltíð af því. Aðeins eitt hef ég meðvitað hætt að borða og það eru kartöflur. Nei, svo sem ekki hætt að borða með öllu, en þó sneitt hjá. Það hefur ekkert með tískusveiflur kolvetnisandstæðinga að gera og heldur ekki með hið ofmetna tískuæði sem sætkartöfluruglið er. Þetta byggist fremur á leiða, því þótt ég væri alinn upp við fjölbreytt, gott og næringarríkt fæði var soðin ýsa og kartöflur á borðum helst til oft. Ýsuhelvítið myndi ég aldrei elda sjálfur, en ég dratta því nú samt í mig ef ég er á öðrum bæjum. Fiskur er ljómandi matur en það þarf að elda hann, ekki bara bleyta í heitu vatni.
Þetta með kartöflurnar kemur frá sama stað. Mér var sagt að ég ætti að borða soðnar kartöflur, og það oft í viku. Mér fannst þær aldrei góðar en ég lét mig hafa það jafnvel löngu eftir að mamma var hætt að horfa á eftir þeim ofan í mig. Lengi býr að fyrstu gerð og þess vegna fékk ég móral ef ég fékk mér ekki að minnsta kosti eina kartöflu ef hún var á boðstólum. En nú er ég fullorðinn og gekk því það skref fyrir nokkrum árum að láta þetta ekki hafa áhrif á mig. Hér eru engin heilög sannindi á ferðinni og ég borða alveg kartöflur þegar svo ber undir, en það er þá venjulega afsökun til þess að gúffa í mig smjöri, hvítlaukssósum og ótæpilegu magni af óskiljanlega dýru matarsalti sem selt er sem mannréttindalúxusvara. Stærsta sjálfsblekkingin er svo auðvitað frönsku kartöflurnar, sem eru fyrir það fyrsta hvorki franskar né kartöflur, og ekki borðaðar vegna ást okkar á þeim sjálfum heldur svo við getum troðið í okkur lítrum af kokteilsósuóhrærðu kartöflukryddi, sem aftur er lítið annað en salt. En það er þannig, ég er hættur að borða soðnar kartöflur sem meðlæti.
Mér finnst kjöt betra en fiskur. Mér finnst eiginlega allt betra en fiskur, nema gervimatur. Allur matur sem á að bragðast eins og eitthvað annað gerir mig brjálaðan. „Tastes just like real meat!“ Akkúrat. Komdu. Ég skal sýna þér alvöru kjöt. Kjöt. Best. Fiskur, Drasl. Sorrí, mér finnst það bara. Ég borða hann alveg og sumar tegundir eru betri en aðrar, en ýsa, þorskur, langa og þetta hvítgráa gums er drasl. Lúða er næs, silungur ljómandi, harðfiskur osom og hákarl bestur.
„Tómatar eru vinur fjölskyldunnar sem kemur óvænt í heimsókn“
Og svo er það þetta með grænmetið. Þar þurfum við að hreinsa ansi margt upp. Í fyrsta lagi þarf að löðrunga þann brjálæðing sem tók upp á því að sjóða grænmeti. Allt grænmeti verður verra þegar það er soðið og endar á bilinu bragðlaust til ógeðslegt. Sem er gríðarlegt afrek því næstum allt grænmeti er drullugott í sínu upprunalega ástandi. En það er þá best að byrja á réttum enda þar líka. Ofmetnasta grænmeti í heimi? Tómatar. Tómatar eru vinur fjölskyldunnar sem kemur óvænt í heimsókn, hlammar sér í sófann þinn, spyr hvort það sé ekki til bjór, kveikir á sjónvarpinu og hækkar ógeðslega mikið í West Ham – Coventry.
Hann er ekki beint leiðinlegur, en þú ætlaðir samt ekki að horfa á fótbolta, þótt þér finnist hann alveg fínn. Þú ætlaðir ekki að fá þér bjór þótt þér finnist hann mjög góður. Þú ætlaðir að elda rif með konunni þinni, drekka engiferöl og horfa á Landann. En nú er það ekki hægt. Ef tómatar koma nálægt máltíð þá eru tómatar í matinn. Þeir lita allt og taka yfir. Hvimleiður andskoti. Og ekki tala um kirsuberjatómata eins og það sé eitthvað annað. Þeir eru bara litlir tómatar. Ég þekki mann sem sagði mér einu sinni að hann æti bara æta hlutann af tómötunum. Það er víst það sem er minna slepjulegt. Það gerir ekkert fyrir mig. Annar góður vinur minn vill meina að tómatar séu „upprunnir í endaþarmi andskotans“. Ok, ég er ekki þar, mér finnst þeir ekkert vondir. En þeir eru bara alls staðar og asnalegir.
Kál er sérkapítuli. Munið þið eftir því þegar kínakál var á öllum borðum? Það var nú asnalegt. Kínakál og iceberg er á sama stað. Fínt, en drasl. Ég er meira hrifinn af klettasalati og spínati en það er samt eitthvað svo plebbalegt. Besta kál í veröldinni er grænkál og fer reyndar langt með að vera besta grænmeti veraldar. Ég ætla að setja það í þriðja sæti um leið og ég legg fram almenna kvörtun þess efnis að hundasúrur fáist ekki keyptar í svona plebbasalatpokum. Hvítkál fær sérstakt heiðursneimdropp við hliðina á gulrófum. Frábært stöff sem ég er til í að setja í sæti fjögur og fimm.
Gúrkur eru næstbestar (ef þú kallar þær agúrkur ertu plebbi) og algerir snillingar. Of sjaldan verð ég mér úti um heila gúrku og borða hana úr hnefa. Og súrar gúrkur, þar er sælgæti. Og raunar flest sem súrt er. Hættum að sjóða og súrsum!
Fyrsta sætið er tryggt því paprikan ber höfuð og herðar yfir allt annað sem grær, í bræðralagi við ólífur og engifer sem hvorugt er grænmeti. Allir litir, allar eru þær frábærar, þetta dásamlega beiska bragð og ólíka áferð hliðanna. Súr og sölt, reykt og grilluð, en þó fyrst og fremst hrá og í miklu magni.
Góðar stundir.
Athugasemdir