Ég kleif upp á svolítið hæðardrag fyrir ofan miðbæinn í fríríkinu Kristjaníu hér í Kaupmannahöfn.
Þar var satt að segja frekar subbulegt um að litast.
Rusl og drasl og plast og beygluð ílát.
Svo ég sagði við piltana sem með mér voru:
„Það vantar líklega alveg hreinsunardeild í infrastrúktúrinn hér í fríríkinu.“
En þar skjátlaðist mér hrapalega.
Þegar við komust niður á jafnsléttu aftur, þá rákumst við einmitt á hreinsunardeild Kristjaníu að störfum á þeim litríkasta öskubíl sem ég hef séð á byggðu bóli.
Og úti við hlið beið annar bak við hús.
Hreinsunardeildin hefur bara átt eftir að koma sér þarna upp á hæðina og hirða ruslið þar.
Kristjanía er skemmtilega litríkur staður og fjölbreytni mannlífsins er aðdáunarverð.
Ég tók nokkrar myndir þar sem mér sýndist það í lagi, sums staðar var beinlínis boðið upp á myndatökur en auðvitað tók maður engar myndir þar sem hasssölumennirnir eru með bása sína.
Hér að ofan var annar öskubíllinn, hér að neðan kemur hinn og svo ýmislegt húsnæði í Kristjaníu.










Athugasemdir