„Melania“, kvikmynd framleidd af Amazon MGM sem fylgist með hinni yfirleitt hlédrægu forsetafrú Bandaríkjanna á meðan hún undirbýr aðra embættistöku eiginmanns síns, Donalds Trump, var frumsýnd í kvikmyndahúsum í gær.
Kalla mætti myndina heimildarmynd ef ekki væri fyrir þá staðreynd að forsetafrúin stýrði því sjálf hvað kæmi fyrir í henni og fær sjálf 3,4 milljarða íslenskra króna frá Amazon, fyrirtæki auðjöfursins Jeffs Bezos, sem hefur sérstakan hag af því að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjaforseta. Hér þykir mörgum gagnrýnendum komið dæmi sem sýnir hvernig stjórnmálavaldið og vald tækniauðjöfra reyna að hafa áhrif á menninguna með því að rugla saman reytum.
Myndin hefur af þessum sökum hlotið harða útreið gagnrýnenda. Þannig segir gagnrýnandi breska blaðsins Guardian að hún sé „gullhúðuð endurgerð af Zone of Interest úr rusli“. Þar vísar hann til kvikmyndar um hversdagslíf nasistafjölskyldu við hlið Auschwitz-útrýmingarbúðirnar. Hann gefur myndinni eina stjörnu og segir hana „endalaust helvíti“.



















































Athugasemdir