Frétt í Morgunblaðinu og DV í vikunni greindi okkur frá því að við neytendur hefðum sparað 300 milljónir króna á afsláttum sem Bónus ákvað að veita okkur. En er það réttmæt endurspeglun á raunveruleikanum? Eða getur verið að það sé þvert á móti verið að okra á okkur?
Fylgjum peningunum
Fyrsti áfangastaður í leit okkar að sanngjarnri birtingarmynd sannleikans eru tölur um verðlagsþróun. Tölur Hagstofunnar um vísitölu neysluverðs færa okkur í sanninn um að matur og drykkjarvörur hafa hækkað í verði um 5,8% á einu ári. Það er þónokkuð umfram almenna verðlagsþróun sem þykir hafa gengið alltof langt.
Ef við eltum peningana er næsta stopp hvernig fjárfestar sjá fyrirtækin sem selja matvöruna. Í kauphöllinni hefur OMXI15-vísitalan yfir 15 stærstu félögin fallið um 1% á einu ári. Sem sagt fallið um sirka 6,2% að raunvirði á 12 mánuðum.
Þannig gengur almennt illa í kauphöllinni. En félagið Hagar, sem rekur Bónus, Hagkaup, Olís, Eldum rétt og innflutningsfyrirtæki fyrir matvæli, hækkaði um 23% á einu ári, á meðan meðaltalið er lækkun um 1%.
Gæti þetta verið tilviljun sem segir ekkert um hvort verið sé að okra á okkur, eða afleiðing af því að Hagar tóku yfir lágvöruverslanakeðjuna SMS í Færeyjum?
Hinn stóri dagvörurisinn, Festi, hefur hækkað í kauphöllinni um 19% á meðan aðrir falla og verðbólgan er samtals 5,2%, sem hækkar verðtryggð fasteignalán um sama hlutfall.
Þetta gerist á nákvæmlega sama tíma og samkeppni á að hafa aukist með tilkomu Prís.
Meðbyr fyrir matvörukeðjur
Svo vel gengur að forstjóri Haga sagði í fyrrasumar: „Það er meðbyr í rekstri verslana og vöruhúsa á Íslandi.“ Á þessum tíma, líkt og nú, voru matvörukeðjurnar að hækka verð umfram verðlagsþróun og hagnast gríðarlega. Framlegðin jókst þá um 22% á milli ára.
Í síðasta uppgjöri í janúar gekk enn betur og hækkuðu Hagar afkomuspána um 600 milljónir króna, upp í kringum 18 milljarða króna fyrir yfirstandandi ár. Framlegðin jókst núna um enn meira, eða um 24,4% níu mánuði ársins.
Til að gera langa sögu stutta hagnast Hagar á því að selja okkur vörur á hærra verði en þeir kaupa þær, að frádregnum kostnaði við starfsemina. Það hefur gengið vel.
En sagan í fréttamiðlunum segir að við höfum sparað 300 milljónir með þeirra hjálp.
Ranghverfar fréttir
Nýr framkvæmdastjóri Bónus sagði frá því í frétt á vef Morgunblaðsins og DV í vikunni að heimilin hefðu „sparað yfir 300 milljónir króna“ með því að Bónus setji nokkrar vörur á afslátt í hverri viku.
„Samkvæmt útreikningum hefur Ódýrast vikunnar skilað íslenskum heimilum sparnaði sem nemur vel yfir 300 milljónum króna á fyrsta starfsári samkvæmt tilkynningu,“ sagði í frétt Morgunblaðsins sem birtist sama efnis í DV.
„Bónus hefur alla tíð lagt áherslu á að bjóða lægsta mögulega vöruverð á Íslandi,“ sagði þar framkvæmdastjóri Bónus. „Með Ódýrast vikunnar var stigið skrefi lengra, þar sem við ákváðum að draga ákveðnar vörur sérstaklega fram og tryggja að þær væru á verulega lægra verði í hverri viku.“
Hvers vegna ekki var spurt í fréttum út í heildarsamhengið, að sama fyrirtæki og þarna hrósar sér af því að hjálpa okkur að spara hefur staðið að hækkun matarverðs, verðbólgu og verðtryggðra lána, er ekki bara spurning um góð vinnubrögð fjölmiðla í öflun og miðlun sannleika og samhengis.
Fjölmiðlar eru að miklu leyti reknir með auglýsingum og hafa hag af því að fjalla jákvætt um stóra auglýsendur. Stóru vefmiðlarnir eru eingöngu reknir með auglýsingafé og færu illa út úr sniðgöngu stórra auglýsenda. Nýlega var Morgunblaðið sektað af Fjölmiðlanefnd fyrir það sem nefndin telur að séu duldar auglýsingar, í 48 tilfellum.
Þar á meðal voru birtar fréttir frá Hagkaupum, Mjólkursamsölunni, Nóa-Síríus, Te og kaffi og fleiri aðilum, án þess að efnið væri merkt sem auglýsing eða samstarf. Í dómnum kom fram að „öll fyrirtækin auglýsa reglulega“ hjá Morgunblaðinu. Dómstólar létu sektina standa jafnvel þótt ekki hefði bein greiðsla borist fyrir umfjallanirnar um vöru og þjónustu. Dómurinn, sektin og kröfurnar um ákveðin vinnubrögð byggja á evrópskum lögum, sem taka ekki mið af séríslenskum aðstæðum þar sem hagsmunir eru krosstengdir og stundum sérstök áskorun að viðhalda fagmennsku vegna fámennis. Okkar stærstu fjölmiðlar birta því gjarnan einfaldar, innsendar tilkynningar, án þess að skoða aðrar heimildir eða spyrja gagnrýninna spurninga.
Matarverð og lán bólgna út
Nú vitum við að þau sem selja okkur matvörurnar hagnast meira og meira á því og fagna meðbyrnum mitt í verðbólgunni, sem þeir orsaka sjálfir með verðhækkunum.
Annað viðmið okkar getur verið samanburður við önnur lönd, hvort matvörur séu einfaldlega dýrar alls staðar.
Í stuttu máli er matvöruverð á Íslandi 62% hærra en að meðaltali í Evrópu. Það er hins vegar ósanngjarn mælikvarði, vegna þess að laun eru mun hærri hér en víðast hvar. Verð á mat og drykk er 48% hærra á Íslandi en meðaltalið. Noregur er þó bara 24% yfir meðaltalinu.
Önnur lönd búa hins vegar ekki við verðtryggð lán, þar sem húsnæðislán og kostnaður fólks hækkar þegar matvöruverslanir hækka verðið.
Hin hliðin er hins vegar sú sem birtist núna í vikunni eftir að ljóst varð að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hafði orsakað verulega hækkun verðbólgunnar með gjaldskrárhækkun og skattabreytingum í tengslum við innleiðingu kílómetragjalds um áramót. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, boðaði að kjarasamningum gæti verið sagt upp næsta haust, sem þýðir að farið verði fram á hærri laun til að standa undir verðhækkunum og hækkun húsnæðislána. Verðtryggð lán hækkuðu um 30 milljarða króna á tveimur síðustu mánuðum vegna verðbólgu, benti hann á. Samtímis lækkaði fasteignaverð.
Hann sagði að hækkun verðbólgunnar væri „kerfisbundið ofbeldi“.
En hvernig virkar þessi vítahringur ofbeldis?
Okurorsök
Reglubundin rök atvinnurekenda, sem Bjarni Benediktsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, mun færa fram í nánustu framtíð, eru að laun hækki svo mikið á Íslandi, sem leiði til vítahrings verðhækkana. Þetta gildir væntanlega jafnmikið þótt við séum sjálf farin að skanna vörurnar í Bónus.
Nú virðist reyndar hið opinbera leiða launahækkanir, það er að segja starfsfólk okkar hjá ríkinu og sveitarfélögum. Opinberir starfsmenn hafa hækkað í launum um rúmlega 11% síðasta árið á meðan hækkun á almennum markaði er rúm 6%.
En hvað ef atvinnurekendur byrja á röngum enda, ef það er einhver endi á þessum hring?
Lífeyrissjóðir, sem eru gríðarlega umsvifamiklir í íslensku hagkerfi, eru með ávöxtunarviðmið upp á 3,5%. Miðað við önnur þroskuð hagkerfi er það mjög hátt. Þau eru því með ákveðna inngróna okurkröfu, verða að græða vel á okkur.
Í félagi við fjársterka
Stærsti einkafjárfestirinn í Högum er Kaldbakur, félag í eigu Samherjafjölskyldunnar. Börn stofnenda útgerðarfélagsins Samherja og stofnendurnir sjálfir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Baldvin Þorsteinsson og fleiri, eiga þannig um 8% í hagnaðinum sem Hagar mynda með háu vöruverði.
En lífeyrissjóðir eiga um tvo þriðju í Högum og Festi, eins og mörgum öðrum félögum. Hagar og Festi eru því að miklu leyti í sameign okkar.
Við erum því að okra á sjálfum okkur, í félagi við Samherjafjölskylduna og fleiri fjársterka. Og biðjum svo um hærri laun til að geta staðið undan því þegar við hækkum húsnæðislánin okkar.
Það væri hægt að tala um skort á samkeppni, skort á neytendavitund. Eða sveiflukennt hagkerfi sem kallar á vertíðarhugsun, þar sem allir reyna að græða í topp áður en næsta niðursveifla kemur. Síðan er það há ávöxtunarkrafa íslenskra fyrirtækja og lífeyrissjóða. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) varaði við þessu lárétta eignarhaldi í skýrslu síðasta sumar.
„Þessir stofnanafjárfestar hafa hvata til að letja samkeppni, þar sem hún gæti skaðað eignasafn þeirra,“ sagði stofnunin. Aðrir benda á áhrifaleysi lífeyrissjóðanna í eigin eignum.
Hver gerði það?
Sagan af íslenska okrinu er nefnilega ekki einföld með einum geranda sem hægt er að grípa.
Orsakavaldurinn virðist vera örvæntingafull okurmenning sem framfylgt er í gegnum vítisvél verðtryggingar og hárrar hagnaðarkröfu, sem gagnast þeim fjársterku mest en fær alla hina til að hlaupa hraðar svo þeir heltist ekki úr lífsgæðakapphlaupinu eða hendist út úr höktandi hringekju íslenska hagkerfisins.
Vænlegasta leiðin til árangurs er ekki að gefast upp andspænis alltumvefjandi okri með sjálfsprottnu meðvitundarleysi, heldur að lýsa yfir allsherjarstríði gegn því.
Fyrsta skrefið er að stjórnvöld, sem voru kjörin út á loforð um að berja niður verðbólgu og þar með vexti, axli sína ábyrgð, hætti að vera orsakavaldurinn sjálfur og byrji á róttækum leiðum til að rjúfa vítahringinn. Þær lausnir verða ekki fullkomnar. En allt er betra en að gerast böðullinn sjálfur eftir loforð um lausn.
























































Athugasemdir