Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri hefur ákveðið að þiggja annað sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Það er það sæti sem hún hlaut í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík um liðna helgi en hún hafði boðið sig fram til að leiða listann. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér á Facebook í dag.
Pétur Marteinsson sigraði í forvalinu með afgerandi hætti. Harðari barátta var í raun um annað sætið, þar sem einungis fimmtán atkvæði skildu á milli Heiðu Bjargar og Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur.
Í yfirlýsingunni segir Heiða Björg að niðurstaðan hafi verið henni vonbrigði, en hún lýsir jafnframt miklu þakklæti fyrir þann stuðning sem hún hafi fundið fyrir í aðdraganda forvalsins, meðal annars frá sjálfboðaliðum, félögum og vinum.
Heiða sendir Pétri hamingjuóskir vegna sigursins og þakkar jafnframt meðframbjóðendum sínum fyrir baráttuna. Hún óskar þeim sem tryggðu sér örugg sæti í framboðslista flokksins til hamingju með árangurinn.
Ákvörðun hennar um að þiggja sætið var tekin eftir samráð við nánustu samstarfsmenn, stuðningsfólk og fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn. Að hennar mati er það sú leið sem geri henni kleift að halda áfram að vinna að jafnaðarstefnu, jafnrétti og öðrum pólitískum markmiðum Samfylkingarinnar.
Í yfirlýsingunni segir jafnframt að þátttaka í forvalinu sýni styrk flokksins í Reykjavík og að niðurstaðan feli í sér bæði endurnýjun og reynslu innan framboðsins.
Heiða Björg staðfestir að hún muni halda áfram að gegna embætti borgarstjóra og starfa sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar út kjörtímabilið, samhliða kosningabaráttunni sem fram undan er.

















































Athugasemdir (1)