Í nýrri greiningarskýrslu frá rannsóknarstofnuninni Kraka kemur fram að ef Danmörk ætlar að ná markmiðum Nato um að 3,5 prósent vergrar þjóðarframleiðslu renni til varnarmála þurfi að fjölga í danska hernum. Nánar tiltekið þarf að bæta við um 16 þúsund hermönnum. Slíkur fjöldi ungs fólks verður ekki gripinn upp af götunni og í skýrslu Kraka kemur fram að svo mikil fjölgun á örfáum árum muni hafa umtalsverð áhrif á danskan vinnumarkað.
Áratuga niðurskurður segir til sín
Það hefur ekki farið framhjá þeim sem fylgst hafa með dönskum þjóðmálum að um margra ára skeið, í áratugi, hafa reglulega birst fréttir af bágu ástandi danska hersins. Það á við um allar deildir hersins, síst þó um flugherinn. Endurnýjun tækjabúnaðar hefur setið á hakanum með þeim afleiðingum að hann er bæði gamall og að mörgu leyti úreltur, húsakostur hersins víðast hvar í lélegu ástandi og jafnframt var fækkað í herdeildunum. Hnignandi ástand í hernum blasti hvarvetna við.
Töldu enga hættu á ferðum
Eftir að kalda stríðinu lauk, um 1990, töldu margir að nú væru nýir og friðsamari tímar runnir upp. Spennan á milli stórveldanna í austri og vestri væri liðin tíð. Þess vegna væri ekki ástæða til að viðhalda þeirri hernaðaruppbyggingu sem staðið hafði um langt skeið. Með þessum rökum var skorið niður og rétt að nefna að sá niðurskurður var ekki bundinn við danska herinn.
Varnaðarorð látin sem vind um eyru þjóta
Allt frá aldamótum hafa margir orðið til að gagnrýna niðurskurð til varnarmála innan aðildarríkja Nato. Þar má nefnda Anders Fogh Rasmussen sem var forsætisráðherra Danmerkur frá árinu 2001 til 2009 og framkvæmdastjóri Nato um fimm ára skeið 2009 – 2014. Á framkvæmdastjóraárunum hjá Nato hélt hann ótal ræður og skrifaði fjölmargar greinar þar sem hann varaði við því að ,,sofa á verðinum“ eins og hann komst iðulega að orði. Við litlar undirtektir. Margir hrukku við þegar Rússar réðust inn, og yfirtóku, Krímskagann snemma árs 2014.
Í septemberbyrjun sama ár hittust leiðtogar Nato ríkjanna í Newport í Wales. Leiðtogarnir óttuðust að Rússar létu ekki þar við sitja heldur hygðu á frekari landvinninga, ótti þeirra reyndist ekki ástæðulaus eins og síðar kom í ljós. Á fundinum kom fram að Nato ríkin væru illa undir það búin að takast á við ógnina úr austri.
Anders Fogh Rasmussen, sem um þetta leyti var að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Nato ítrekaði í ræðu sinni á fundinum að framlög aðildarríkjanna væru alltof lág og það myndi koma í bakið á löndunum ef ekki yrði brugðist við. Hvort sem það var þrumuræðu Anders Fogh að þakka eða einhverju öðru urðu leiðtogarnir sammála um að stefna að auknum fjárveitingum til varnarmála og miða árlega við tvö prósent af vergri þjóðarframleiðslu hvers lands. Þetta var ekki skuldbinding og tveggja prósenta viðmiðið hafði oft verið nefnt áður.
Áfram skorið niður
Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra Dana skrifaði undir viljayfirlýsinguna í Wales árið 2014. Eigi að síður var niðurskurðarhnífurinn enn á lofti ári síðar og þá námu framlög til danska hersins um það bil 1,2 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu, langt frá tveggja prósenta markmiðinu.
Stjórnarskipti og samkomulag
Eftir þingkosningar í Danmörku árið 2015 tók minnilhlutastjórn Venstre, undir forystu Lars Løkke Rasmussen við völdum. Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnarflokkarnir, ásamt þremur stjórnarandstöðuflokkum sex ára samkomulag um framlög til varnarmála. Framlögin skyldu nú aukin í 1,3 prósent af vergri þjóðarframleiðslu. Bandaríkjamenn þrýstu mjög á um aukin framlög og danska þingið samþykkti að árið 2023 ættu framlög til varnar- og öryggismála að nema 1,5 prósentum af þjóðarframleiðslunni. Þetta var skref í átt að markmiðinu frá Nato fundinum 2014.
Eftir kosningarnar árið 2019 tók stjórn undir forystu jafnaðarmanna við völdum og Mette Frederiksen varð forsætisráðherra og sat áfram á þeim stóli eftir þingkosningar 2022 og myndaði þá stjórn með Venstre og Moderaterne. Undanfarið hefur mætt mjög á stjórninni, auk forsætisráðherrans einkum varnarmálaráðherranum Troels Lund Poulsen formanni Venstre og formanni Moderaterne Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra. Þar ber vitaskuld ,,Grænlandsmálið“ svonefnda hæst. Ekki verður þó að þessu sinni fjallað nánar um það hér.
Kraka skýrslan
Í upphafi þessa pistils var greint frá skýrslu rannsóknar- og greiningarstofnunarnnar Kraka um danska herinn. Þar kom fram að á næstu 10 árum verði nauðsynlegt að fjölga verulega í danska hernum og sömuleiðis störfum sem tengjast hernum. Í skýrslunni er gengið út frá viðmiði Nato ríkjanna um að árið 2035 nemi útgjöld til varnar- og öryggismála 3,5 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu. Þar af fjölgi hermönnum um nær 8 þúsund og störfum sem tengist hernum með einum eða öðrum hætti fjölgi um annað eins.
Hvaðan á þessi mannskapur að koma?
Þessari spurningu sagði Peter Mogensen aðalhöfundur skýrslunnar ekki auðsvarað í viðtali í dagblaðinu Berlingske. ,,Í landi þar sem um rúmlega 3 milljónir eru á vinnumarkaði hljóma 16 þúsund kannski ekki mikið“ sagði Peter Mogensen en málið er ekki svo einfalt. Fólki á vinnualdri (orðalag skýrslunnar) fækkar nefnilega samtímis því sem öldruðum fjölgar ört. Stóru árgangarnir sem fæddust fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld eru orðnir aldraðir og þessi hópur eignaðist ekki mörg börn. Spár gera ráð fyrir að fram til ársins 2030 muni skorta allt að 100 þúsund faglærða til að fullnægja þörfinni á vinnumarkaðnum. 20 ára, nær stöðug, uppsveifla í atvinnumálum sé meira en vinnumarkaðurinn ráði við. ,,Stjórnmálamennirnir hafa talað um að fjölga svo um muni í hernum en verið fáorðir um hvaðan sá mannskapur eigi að koma“ sagði Joachim Finkielman sem er einn framkvæmdastjóra hjá Samtökum danska iðnaðarins.
Bo Sandemann Rasmussen hagfræðiprófessor við Háskólann í Árósum sagðist í viðtali telja að talan 16 þúsund manna fjölgun starfa, tengdum og í hernum væri kannski aðeins of há.
Innflutningur á erlendu vinnuafli er ,,heit kartafla“ í danskri umræðu en jafnframt óhjákvæmileg að mati Peter Mogensen hjá Kraka.
Made in Denmark
Eftir langa bið hefur fyrirtækið SkyPro Propulsion fengið leyfi danskra stjórnvalda til að framleiða svonefnd Puls flugskeyti. Mörg Nato ríki hafa notað bandarísk Himar loftvarnakerfi en flugskeytin sem danska fyrirtækið hyggst framleiða verða af gerðinni Puls. Þeim verður hægt að skjóta frá skotpöllum sem danski herinn á og voru keyptir frá Ísrael. Flugskeytin sem framleidd verða hjá SkyPro Propulsion verða nær 3 metrar á lengd, vega 69 kíló og hafa 40 kílómetra drægni. Gert er ráð fyrir að ársframleiðsla á þessum flugskeytum verði um 10 þúsund. ,,Við verðum stoltir af að geta framleitt þessi flugskeyti og merkt þau Made in Denmark“ sagði Michael Kjær Sørensen framkvæmdastjóri SkyPro Propulsion. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Kolding á Jótlandi en flugskeytin verða framleidd í Vandel skammt frá Billund.
Í þessu sambandi má nefna að árið 2020 var einu skotfæraverksmiðjunni sem starfrækt var í Danmörku lokað. Þremur árum síðar, ári eftir innrás Rússa í Úkraínu var mjög farið að ganga á skotfærabirgðir Dana, líkt og margra annarra ríkja sem séð hafa Úkraínu fyrir vopnum og skotfærum. Þá ákvað danska stjórnin að kaupa gömlu verksmiðjuna, sem aðrir höfðu í millitíðinni eignast. Verksmiðjan, sem er í Elling á Norður-Jótlandi á sér langa sögu, var sett á laggirnar árið 1676 á Kristjánshöfn (þar sem Kristjanía er nú) en var árið 1968 flutt til Elling. Að koma verksmiðju af þessu tagi í gang á nýjan leik tekur tíma og gert er ráð fyrir að skotfæraframleiðsla í Elling hefjist á næsta ári og verði komin í fullan gang vorið 2028.
Rétt er að geta þess að Kraka skýrslan var birt áður en allt fór í ,,háa loft“ í málefnum Grænlands.



















































Athugasemdir