Inga Sæland, formaður flokks fólksins, ætlar sjálf að taka við embætti af Guðmundi Inga Kristinssyni sem fyrr í kvöld tilkynnti um afsögn sína sem mennta- og barnamálaráðherra. Inga situr þó ekki í tveimur ráðuneytum og verður Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, nýr félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Ég hef ákveðið að færa mig um set og taka við embætti mennta- og barnamálaráðherra,“ segir Inga í tilkynningu sinni, sem hún birtir á Facebook, þar sem hún fer yfir breytta ráðherraskipan. „Miklu hefur verið áorkað í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar og þar eru enn fleiri þjóðþrifamál í farvatninu. Ég kveð það ráðuneyti því með trega enda málefni þess mér mjög kær.“
Í Facebook-tilkynningu sinni þakkar Inga Guðmundi Inga fyrir samstarfið. „Hann hefur verið mín stoð og stytta og óþreytandi í baráttunni fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu,“ segir hún. Guðmundur Ingi er varaformaður Flokks fólksins og hefur setið í þingflokki með Ingu lengst allra.
Ekki hefur náðst í Ragnar Þór í kvöld vegna ráðherrakapalsins.















































Athugasemdir