Nú þegar Bandaríkjastjórn ræðir opinskátt möguleikann á að beita hervaldi til að innlima Grænland, ætti að vera ómögulegt að horfa fram hjá því að mesta ógnin við öryggi og lýðræði Íslands eru trumpísk Bandaríki.
Um leið hefur þyngdarafl valdsins áhrif á íslenskt samfélag þegar í stað. Aðlögunin er hafin. Fleiri og fleiri munu sjá ljósið og lógíkina í því að Bandaríkin taki yfir nágrannaland okkar, eða leggjast í afstæðishyggju eins og whataboutisma, til dæmis með því að ræða að Danir hafi verið slæmt nýlenduríki.
Afstæðishyggja andspænis valdi
Vafi, kaldhæðni og afstæðishyggja eru tæki sem einræðisríki hafa lengi notað til að minnka andstöðu almennings við valdasamþjöppun.
Sumir Íslendingar eru nú þegar fallnir í þann söguþráð Trump-stjórnarinnar að spyrja hvort það skipti nokkru máli að Grænland verði bandarískt? Lögmaður skrifar grein um að Íslendingar eigi að semja við Trump og veita honum meiri aðgang að Íslandi, til að sefa áhyggjur hans af öryggi Bandaríkjanna, sem eru þó augljóslega falskt yfirskin landvinninga og yfirtöku auðlinda.
Einn dáðasti rithöfundur þjóðarinnar segist í samhengi umræðunnar ekki skilja „hvernig nokkrum manni á Íslandi getur verið það metnaðarmál að Danir megi áfram þykjast vera einhvers konar nýlenduherrar yfir Grænlandi“.
Björk Guðmundsdóttir söngkona lýsir því síðan að Danmörk sé „grimmt nýlenduríki“ sem komi enn þá illa fram við Grænlendinga, í færslu sem hefur verið kölluð „árás“ í Danmörku og hefur verið deilt víða til að færa umræðuna yfir í að Grænland, sem er sjálfstjórnarsvæði í farvegi til sjálfstæðis, sé í óréttlætanlegri stöðu nú þegar.
Stephen Miller, öfgahægrimaðurinn sem er hægri hönd Trumps Bandaríkjaforseta, sagði í kjölfarið:
„Raunverulega spurningin er hvaða rétt Danmörk hefur til að stjórna Grænlandi? Hver er grundvöllur kröfu þeirra til landsvæðisins? Hver er grundvöllur þeirra fyrir því að hafa Grænland sem nýlendu Danmerkur?“
Á sama tíma sagði hann Bandaríkin „augljóslega“ eiga að eiga Grænland, til að vernda það og NATO. Verndarumræðan er hluti af mafíudiplómasíu sem er einkenni trumpisma í utanríkismálum.
Þróun Bandaríkjanna
Eftir því sem trumpisminn nær að safna meiri völdum verður erfiðara að rísa gegn honum. Þetta er einfalt lögmál um einræði. Á einhverjum tímapunkti færist vogaraflið svo langt að valdinu að of seint verður að vinna gegn einræðinu. Þá getur orðið svartholsástand, þar sem umræðunni lýkur í reynd, gegnsæið hverfur, sannleikurinn leysist upp og ekkert getur forðast eyðileggingu af hálfu aflsins.
Aðferðin til að safna völdum snýst um að búa til kostnað við að rísa gegn valdinu og ábata af því að þýðast vilja þess og vinna með því. Forseti Bandaríkjanna notar til dæmis náðunarvald sérstaklega fyrir þá sem fylgja honum og hann beitir dómsmálaráðuneytinu og alríkislögreglunni til að refsa þeim sem vinna gegn honum. Óttast er að hann muni láta verða af yfirlýsingum sínum um að elta uppi andfasista og aðra andstæðinga sína, ekki síst með ICE-sveitunum sem nú þegar eru stærri en flestir herir í heiminum. Bandaríkin beita núna refsiaðgerðum gegn dómurum í Alþjóðasakamáladómstólnum og mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna fyrir að standa fast á alþjóðalögum.
Trump hefur skipað lítið hæfan sjónvarpsmanninn Pete Hegseth yfir varnamálaráðuneytið og breytt því í stríðsráðuneytið. Þeir hafa látið aðila í hernum framkvæma ólöglegar aftökur og gert þá meðseka. Þeir hafa hreinsað út aðhald innan hersins og rekið yfirmenn, á þeim forsendum að þeir hafi verið ráðnir vegna þess að þeir kæmu úr minnihlutahópum. Þeir saksækja jafnvel fólk fyrir að hætta við að spila í menningarmiðstöðinni Kennedy Center eftir að Trump setti nafn sitt á hana. Og hóta fólki aftöku fyrir að skora á herinn að neita að fylgja ólöglegum skipunum.
Nú síðast gantaðist Trump með að aflýsa kosningum til bandaríska þingsins, sem eiga að fara fram í nóvember.
Eftir að hafa valdeflst við að handtaka forseta Venesúela og drepa þar um 70 manns án mannfalls í Bandaríkjaher, hefur hann hótað Kúbu, Kólumbíu, Grænlandi og öðrum sem taka hann ekki alvarlega.
Ef fer sem horfir gæti Trump orðið óheftur í viðleitni sinni til að safna frekari völdum og beita valdi gegn öðrum.
Þess vegna er ekki það sama að Grænland verði bandarískt og að Bandaríkin taki Grænland með valdi án samþykkis íbúa Grænlands, hvort sem það er með her- eða auðvaldi.
Veruleiki valdsins
Rökfærslan er einföld. Ef Bandaríkin taka yfir lýðræðisríki með innrás eða annarri valdbeitingu sinni, eru Bandaríkin einmitt það land sem ber að óttast. Athæfið er nánast skilgreining á ógninni í alþjóðastjórnmálum.
Það að Bandaríkjastjórn ræði jafnvel möguleikann á þessu ætti að nægja sem staðfesting á að þau séu fær um þetta.
Sama má segja um Rússland. Hins vegar eru röksemdir Bandaríkjanna með því að taka yfir Grænland veikari en Rússlands í Úkraínu. Það eru bara auðlindirnar og valdið.
Þeir vilja ekkert með fólkið gera, sem Stephen Miller segir að sé bara 30 þúsund talsins, en eru í reynd um 57 þúsund.
Ef Bandaríkin taka Grænland með valdi er engin lógísk, leikjafræðileg eða hegðunarleg ástæða til að ætla að þau geri ekki það sama við Ísland, önnur en að landið er minna og ónýttar auðlindir minna virði og færri.
Stephen Miller, hægri hönd Trumps, lýsti þessu vel. „Við lifum í veruleikanum, raunveruleikanum, sem er stýrt af styrk, sem er stjórnað með afli, sem er stjórnað með valdi,“ sagði hann. „Bandaríkin eru valdið í NATO.“
Við höfum alltaf lifað í þeim veruleika, þar sem vald hefur áhrif, en munurinn er hvort hið dreifða vald ráði, hagsmunir heildarinnar, eða hreinir hagsmunir þeirra sterkustu.
Fæling gegn yfirgangi
Íslenskur forstjóri námufyrirtækis á Grænlandi, alþjóðastjórnmálafræðingur og sérfræðingur í varnarmálum hafa allir lagt til að íslenskir stjórnmálamenn „liggi lágt“ og láti lítið fyrir sér fara.
Líklega er þó eina leiðin til að hamla yfirgangssegg að framkalla nægilega mikinn kostnað fyrir hann, svo hann velji aðra valkosti. Á hernaðarmáli heitir þetta fælingarmáttur. Íslendingar hafa engan slíkan mátt, annan en „mjúkt vald“, líkt og það vald sem Björk Guðmundsdóttir getur haft á umræðuna og afstöðu fólks.
Stóru Evrópuríkin sköpuðu hins vegar raunverulegan fælingarmátt með því að lýsa því yfir sameiginlega að þau myndu verja fullveldið. Jafnvel þótt fyrirsjáanlega myndi bandaríski herinn geta eytt allri mótstöðu, yrði kostnaðurinn við að yfirtaka Grænland mun meiri ef það þyrfti að ráðast á NATO-heri.
Hervald er nú hluti af samningatækni Bandaríkjaforseta, sem gerir samningsstöðuna almennt ójafna. Bandaríkjastjórn og fylgihnettir hennar eru hins vegar líklegri til að beita auðvaldi og komast yfir Grænland, til dæmis með því að innleiða spillingu í stjórnmálakerfið.
Ógn og ábati
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sem hefur verið óhræddur við að hjóla í Evrópusambandið og fleiri, segir þrátt fyrir allt sem komið er fram að við eigum að anda með nefinu, því „að varnarlega séð þá sé allt sem skiptir máli í varnarsamningnum við Bandaríkin, og hann þurfum við að vernda“. Það er rétt, svo lengi sem við förum í einu og öllu að vilja þeirra, sem nú þegar stangast gegn tilvistarlegum forsendum sjálfstæðs smáríkis.
Formaður Miðflokksins og annar þingmaður hafa lagt áherslu á að ræða hvort veita ætti Trump verðlaun. Ákveði Trump-stjórnin að framfylgja þjóðaröryggisstefnu sinni gagnvart Evrópu, með inngripum í innanlandsstjórnmál í þágu hægri íhaldsstefnu, munu Bandaríkin ýta undir Miðflokkinn á móti.
Kostnaður uppgjafar
Valdbeitingin, eins og önnur skilyrðing, gerist með ógn og væntingum um ábata.
Óttinn og innri ritskoðun eru einkenni á ógninni. Nú geta Íslendingar haft áhyggjur af því að komast ekki til Bandaríkjanna án þess að landamæraverðir kanni tjáningu þeirra á samfélagsmiðlum. Stjórnmálamennirnir eru síðan eðlilega hræddir við að baka sér óvild, framkalla refsiaðgerðir eða jafnvel vera teknir höndum í óræðri framtíð.
Það sem Íslendingar verða að vita er að áhættan núna er smáræði miðað við það sem gæti orðið ef allir falla flatir fyrir Trump á meðan það er þó hægt að standa uppi í hárinu á honum með því að framkalla eins mikinn kostnað og mögulegt er fyrir yfirganginn.
Sagan sýnir að tilhneigingar magnast upp við aukið vald og minni mótstöðu. Í framtíðinni getum við fengið að kynnast á eigin skinni skuggahliðum trumpismans í magnaðri útgáfu. Það verður ekki bara misskipting, elítismi, spilling, umhverfissóðaskapur, vanvirðing, meinhæðni, mannhatur og skoðanakúgun. Okkur er ómögulegt að sjá fyrir hvað getur sprottið upp úr mögulegu einræði Trumps. Það þarf að horfa til þegar sýndrar mannfyrirlitningar og fögnuðar við dráp án dóms og laga sem varlega áætlaðrar forspár um það sem koma skal í siðmenningu undir oki óhefts trumpisma.






















































Athugasemdir (1)