Ímyndið ykkur gamla góða Ísland nema betra. Koma svo, ímynda sér. Ertu byrjaður að ímynda þér það? Hvað sérðu? Torfkofa? Ókei, þú ímyndaðir þér of langt aftur. Ha, torfkofa sem fljúga? Þú ímyndaðir þér aðeins of fast. Reynum aftur. Ímyndaðu þér gamla góða, samt ekki of gamla, Ísland nema betra EN lögmál eðlisfræðinnar eru enn í gildi. Tjopptjopp, ekkert hangs. Við þurfum að flýta okkur ef við ætlum að gera Ísland frábært aftur, nei, ég meina gera Ísland gamalt aftur og gott aftur og betra aftur. Ókei, hvað sérðu? Hernámið? Já, það kom sér svo sem vel fyrir okkur, en við bönnuðum vissulega svarta hermenn og misnotuðum og drusluskömmuðum konur sem sáust með (hvítum) hermönnum. Kannski þurfum við að færa okkur aðeins nær samtímanum. Hvað sérðu? Lokaðu augunum. Hvað sérðu? Óðaverðbólguna á áttunda og níunda áratugnum? Nema það sem er betra er að peningarnir eru bókstaflega að bólgna upp þannig að einn seðill verður stærri en allt Ísland og það þungur að landið sekkur? Við erum ekki með sama skilning á orðinu „betra“ félag.
En ókei, reynum aftur. Óðaverðbólga er kannski ekki það sem ég á við þegar ég tala um gamla góða Ísland. Þið fattið samt alveg hvað ég á við þegar ég tala um gamla góða Ísland, er það ekki? Bara þetta móment þegar Íslendingar treystu allir hver öðrum og við vorum öll aðeins líkari. Var það aldrei tilfellið? Er ég haldin ranghugmyndum af því að ég get ekki haldið í við breytingar heimsins og langar að kenna einhverjum öðrum um það? Ertu að segja mér að þetta sé innihaldslaus frasi?
… fokk.


























































Athugasemdir