Nú eru liðin tæplega þrjú ár síðan ég rakst á kunningjakonu sem er vinkona vinkonu minnar. Við settumst á útikaffihús og veltum vöngum yfir hvað við ættum að gefa henni í afmælisgjöf. Báðar vissum við að hún fer stundum í naglasnyrtingu svo úr varð að við ákváðum að gefa henni tíma í fótapedikjúri á snyrtistofu við Laugaveginn. Snyrtistofa þessi virtist vera vinsæl og úr varð að við fórum einhverju síðar með vinkonuna í téða snyrtingu.
Ef þetta hefði verið bíómynd hefðum við kannski verið í svolítið afgerandi hlutverkum; ein okkar frétta- og blaðamaður, önnur háskólakennari og svo ég, rithöfundur og blaðamaður. Með þessi starfsheiti hefðum við átt að heita temmilega meðvitaðar um nútímann, heiminn og hvernig kaupin gerast stundum á eyrinni. En við vorum það ekki þegar við settumt í LazyBoy-stóla í kjallara snyrtistofunnar, þáðum ylvolgt fótabað, fótapúss og naglasnyrtingu. Þar sem við sátum blöðruðum við um hin ýmsu æsingsmál í samfélaginu, gott ef við upplifðum okkur ekki bara nokkuð réttsýnar meðan ungt fólk frá Víetnam skrapaði burt dauða húð af iljum okkar.
Vændi falið vandamál á snyrtistofum
Eftir afhjúpun Kveiks á starfsemi nokkurra snyrti- og nuddstofa hér á landi mátti lesa frétt á RÚV, þann 25. september árið 2025, þess efnis að það sem af væri af því ári hefðu um tíu þolendur mansals og vændis á téðum snyrti- og nuddstofum leitað til Bjarkahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Teymisstýran þar, Jenný Kristín Valberg, sagði vændi vera falið vandamál á þessum stofum. „Það hafa komið inn nokkur mál sem tengjast nagla- og nuddstofum til okkar hér í Bjarkarhlíð,“ sagði hún. „Fólk leitar til okkar vegna þess að það telur að það hafi verið brotið á því og það telur sig mögulega vera þolendur mansals.“
„Í hverjum mánuði hefði allavega einn erlendur starfsmaður af þessum stofum leitað til Bjarkarhlíðar
Þarna kom fram að í hverjum mánuði hefði allavega einn erlendur starfsmaður af þessum stofum leitað til Bjarkarhlíðar, nokkuð sem væri aukning frá árunum á undan. Þegar Jenný Kristín var spurð: Hefur eitthvað af þessu fólki sem leitar til ykkar talað um að það hafi stundað vændi á þessum stofum? – þá svaraði hún: „Já, það hefur komið fyrir.“
Ófagrar sögur
Úttekt Kveiks var ítarleg. Kveikur hafði fylgst með eftirlitsferðum lögreglunnar og heilbrigðiseftirlitsins á einhverjar snyrtistofur síðastliðið vor. Farið var á 21 stofu á höfuðborgarsvæðinu en fjórum þeirra var strax lokað og á öðrum stöðum voru misalvarlegar athugasemdir gerðar. Á þeim tímapunkti hafði snyrtistofum fjölgað hratt, bara á síðustu árum; en í ljós kom að starfsfólk frá Víetnam, starfandi á einhverjum af þesum stofum, hafði greitt margar milljónir til að fá að starfa hér á landi. Síðan hafði það verið svikið um rétt laun.
















































Athugasemdir