Eftir árás og handtöku Bandaríkjanna á forseta Venesúela og endurtekningar yfirlýsingar Bandaríkjaforsta í kjölfarið um þörfina á innlimun Grænlands í Bandaríkin, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra þörf á að „sýna varkárni, vera raunsæ og hugsa skipulega um það hvernig við getum best tryggt hagsmuni og öryggi Íslands til langframa.“
Ísland er með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og segir Þorgerður Katrín í grein á Vísi.is að hann standi „óhaggaður“, sem og aðildin að NATO, þrátt fyrir að Bandríkin hóti leynt og ljóst að yfirtaka næsta nágrannaríki Íslands.
Donald Trump sagði í viðtali í gær að hann vildi ræða Grænlandsmálið eftir 20 daga. „Tölum um Venesúela, Rússland, Úkraínu. Við höfum áhyggjur af Grænlandi eftir tvo mánuði. Tölum um Grænland eftir 20 daga,“ sagði hann.
Þorgerður Katrín segir í grein sinni að „alþjóðakerfi sem við höfum búið við frá lokum síðari heimsstyrjaldar [leiki] á reiðiskjálfi,“ en þó standi samningar Íslendinga við aðilann sem ógnar fullveldi Grænlands „óhaggaðir“.
„Grunnstoðir íslenskra öryggis- og varnarmála – aðildin að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin – standa óhaggaðar og skipta sköpum fyrir okkur. Hagsmunum smáríkis er best borgið í samstarfi og eðlilegt er að við treystum jafnframt böndin við nágranna- og vinaþjóðir okkar,“ skrifar Þorgerður.
Hún bendir á að ríkisstjórnin hafi „þegar stigið skref í þá átt“, meðal annars með auknu samstarfi við Finna og Þjóðverja. „Ég tel einboðið að áfram verði unnið að nánara samstarfi við þær þjóðir í okkar heimshluta sem virða og verja þau gildi sem vestræn lýðræðissamfélög hvíla á. Dýpra samtal og samvinna við Evrópusambandið er þar lykilbreyta,“ segir Þorgerður.
Ríkisstjórnin frestaði nýverið undirritun samstarfsyfirlýsingar um öryggis- og varnarmál við Evrópusambandið, vegna þess að Ísland var ekki undanþegið verndaraðgerðum ESB vegna framleiðslu kísiljárns.
Eftir að Bandaríkin sendu herlið til Venesúela og handtóku forseta landsins um helgina, undir því yfirskini að hann hefðu brotið af sér með þátttöku í fíkniefnasmygli, en settu síðan aðgerðina í samhengi við hlut Bandaríkjanna í olíuframleiðslu Venesúela, fagnaði Þorgerður Katrín handtökunni. „Mér finnst gott að hann sé farinn,“ sagði hún, en hvatti til þess að alþjóðalög væru virt, sem hafi ekki verið gert í aðgerðinni. Þó vildi hún ekki fordæma aðgerðina. Hún sagði það í samræmi við viðbrögð Evrópuríkja.
„Við erum öll á svipuðum nótum, við erum auðvitað að nálgast þetta af varfærni akkúrat á þessari stundu en undirstrikum að við höfum ekki verið að viðurkenna Maduro og hans stjórn.“
Stjórn Maduros situr hins vegar enn, án hans.
Í dag hvetur Þorgerður Katrín til stillingar andspænis brotum Bandaríkjanna á alþjóðalögum og yfirlýsingum Bandaríkjastjórnar um að fleiri slík kunni að vera í aðsigi. „Sundurlyndi, yfirlýsingagleði og dauðahald í horfinn heim er ekki það sem við þörfnumst nú um stundir,“ skrifar Þorgerður Katrín.
















































Athugasemdir