Á einum af mörgum fundum um húsnæðismál sem ég sat á árinu 2025 sagði ráðuneytisstarfsmaður frá því að hann merkti ákveðnar breytingar á háskólanemum sem koma í vísindaferðir í Stjórnarráðið. Áður hefði gleði stúdentanna yfir veitingum að einhverju leyti yfirskyggt áhugann á umfjöllunarefninu, en nú sé öldin önnur. Ungt fólk sé uppfullt af brennandi spurningum um húsnæðismál og reki garnirnar úr gestgjöfum sínum.
Ef til vill má líta á þetta sem jákvæða þróun; ungt fólk sé orðið ábyrgara en áður og hugsi meira um framtíð sína og þak yfir höfuðið en næstu bjórkollu. En það má líka líta á málið frá öðru sjónarhorni, að húsnæðis- og fjárhagsáhyggjur séu að ræna þau háskólaárunum, tímanum sem á að fara í að vitgast og þroskast og sletta úr klaufunum inn á milli.
Brostið kynslóðaloforð
Eftir síðari heimsstyrjöld var flestum ríkjum Evrópu umhugað um að snúa ekki aftur til óstöðugleika millistríðsáranna. Liður í því var að byggja upp almenn heilbrigðis- og velferðarkerfi, styrkja stoðir stéttarfélaga, tryggja atvinnu og stuðla að húsnæðisöryggi. Í þessu sambandi er talað um kynslóðaloforðið sem felur í sér að næsta kynslóð hafi það betra en kynslóðirnar á undan. Og um margt raungerðist það. Um langa hríð hafa foreldrar í grófum dráttum getað treyst á að börn þeirra muni hafa það betra en þeirra eigin kynslóð, þau eigi kost á menntun, betri og öruggari störfum, viðráðanlegu húsnæði, stöndugri heilbrigðisþjónustu, hærri launum og félagslegum hreyfanleiki (upp á við). En nú er dæmið að snúast við og smám saman stendur ungt fólk frammi fyrir lakari kjörum og réttindum en foreldrar þeirra gerðu á þeirra aldri. Þetta er alvarleg og óheillavænleg þróun.
„Í stuttu máli er verið að draga úr möguleikum yngra fólks til að sækja sér æðri menntun“
Hér á landi er birtingarmyndin mest sláandi í húsnæðismálum. Samkvæmt greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru leigjendur nú meira en ellefu ár að safna fyrir útborgun í litla fjölbýlisíbúð, en fyrir aðeins átta árum var árafjöldinn innan við fimm. Þetta er eins og að hlaupa maraþon og marklínan færist sífellt fjær. Ungt fólk þarf í auknum mæli að reiða sig á aðstoð foreldra til að komast í öruggt húsnæði og á árinu 2025 mátti merkja aukna gliðnun milli þeirra sem hafa slíkt bakland og þeirra sem hafa það ekki.
Hvort sem ungt fólk kaupir eða leigir á það sammerkt að fjárhagslegar skuldbindingar eru svo miklar að lítið má út af bera. Við slíkar aðstæður er erfitt að láta ófjármagnaða drauma rætast, hvort sem þeir felast í langferð á framandi slóðir eða listsköpun sem gefur lítið í aðra hönd. Í háskólum sér þessa glöggt merki þar sem ungt fólk er í auknum mæli í mikilli og jafnvel fullri vinnu með námi. Vissulega hefur vinna með námi alltaf tíðkast á Íslandi, en dæmið hefur snúist við og í stað þess að nemendur vinni með námi eru þeir í námi með vinnu. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Þá má spyrja, hvers vegna taka þau ekki bara námslán? Því er til að svara að á sama tíma og Alþingi samþykkti að hluta námsláns mætti breyta í styrk var lánakjörunum gerbreytt. Í stað þess að námslán séu veitt á lágum verðtryggðum vöxtum eru gott sem markaðsvextir á námslánum. Og þegar hávaxtastefna virðist orðin regla fremur en undantekning er ljóst að mörg treysta sér ekki út í þetta fen.
Í stuttu máli er verið að draga úr möguleikum yngra fólks til að sækja sér æðri menntun á sama tíma og gagnrýnin hugsun verður samfélaginu sífellt dýrmætari. Því þótt sjá megi margar góðar og jákvæðar hliðar á gervigreindarbyltingunni er algjör samhljómur um að þekking og gagnrýnin hugsun notenda sé lykilþáttur til að tryggja að maðurinn stýri tækninni, ekki öfugt.
Vegið að réttindum á vinnumarkaði
Um langa hríð hefur íslenskur vinnumarkaður einkennst af lágu atvinnuleysi og ungt fólk hefur almennt getað fundið sér vinnu. Ísland skorar enn einna lægst í samanburði milli landa þar sem farið er yfir fjölda ungs fólks sem er hvorki í námi né vinnu. Erfitt getur verið að vinda ofan af vanvirkni sem varir lengi á yngri árum og til þess að minnka líkur á því þurfa tækifærin að vera til staðar. Sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar getur verið mikilvægur í því sambandi; hér á landi er óvanalega auðvelt að bæði ráða og reka fólk sem eykur líkur á að fyrirtæki fjölgi starfsfólki þegar vel árar. Á móti hefur launafólk notið góðra atvinnuleysistrygginga þegar þrengir að.
Á árinu 2025 lögðu stjórnvöld hins vegar, án samráðs við vinnumarkaðinn, fram tillögur um að skerða þær tryggingar úr 30 mánuðum í 18 mánuði og lengja ávinnslutímabilið. Frumvarp félagsmálaráðherra, sem er enn til umfjöllunar á Alþingi og nær vonandi ekki lengra en það, hefur verið harðlega gagnrýnt af verkalýðshreyfingunni, en líka verið stutt af einstökum formönnum stéttarfélaga. Sá stuðningur er með ólíkindum. Þetta eru réttindi sem barist var fyrir og það er miklu erfiðara að vinna réttindi en að taka þau í burtu.
Ein af röksemdunum fyrir þessum breytingum er að 30 mánuðir á atvinnuleysisskrá séu alltof langur tími, það geri engum gott og viðkomandi þurfi annars konar aðstoð. Það kann að vera rétt í einhverjum tilfellum. Hins vegar er rétt að taka fram að réttindi til atvinnuleysistrygginga eru áunnin og hin langtímaatvinnulausu eru ekki endilega samfleytt á atvinnuleysisskrá í þrjátíu mánuði, heldur samanlagt yfir tíma. Og það er einmitt hlutverk Vinnumálastofnunar að aðstoða þennan hóp, sem alls ekki er fjölmennur, og bjóða þeim úrræði sem styðja þau til atvinnuþátttöku. Þar hefur vantað mikið upp á.
„Eftir stendur pólitíski viljinn til að plokka réttindi af fólki og bjóða yngri kynslóðum lakari framtíðarsýn en eldri kynslóðir hafa notið“
Að klippa á atvinnuleysistryggingarnar tryggir fólki ekki atvinnu, þvert á móti. Ef breytingarnar ná fram að ganga mun þessi fámenni hópur að mestu leyti þurfa að reiða sig á framfærslu sveitarfélaga, sem er fátæktargildra, og um leið detta úr neti Vinnumálastofnunar, þar sem virkniúrræðin eiga að vera.
Lenging ávinnslutímabilsins getur líka þýtt að fólk situr uppi réttindalaust ef það missir vinnuna, sem gerir að verkum að launafólk þarf eitt að bera kostnaðinn af sveigjanleika vinnumarkaðarins. Rökstuðningur félagsmálaráðuneytisins fyrir breytingunum er einhver sá arfaslakasti sem um getur í greinargerð með stjórnarfrumvarpi. Eftir stendur pólitíski viljinn til að plokka réttindi af fólki og bjóða yngri kynslóðum lakari framtíðarsýn en eldri kynslóðir hafa notið.
Barnafjölskyldur og stjórnvöldin sem gleymdu skuldbindingum sínum
Að lokum verður ekki hjá því komist að víkja að málefnum barnafjölskyldna. Skemmst er að minnast þess að aðkoma stjórnvalda að núgildandi kjarasamningum, sem voru undirritaðir 2024, litaðist af vilja til að koma til móts við barnafjölskyldur á tímum verðbólgu, hárra vaxta, lágra launahækkana og erfiðrar stöðu í húsnæðismálum. Skólamáltíðir voru gerðar gjaldfrjálsar, barna- og húsnæðisbætur hækkaðar og gefin fyrirheit um að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf út samningstímann, sérstaklega hvað varðar barnafjölskyldur.
En hver er raunin núna tæpum tveimur árum síðar? Ríkisstjórnin hefur skert bæði húsnæðis- og barnabætur og sveitarfélögin keppast um að hækka gjaldskrár leikskóla með það að markmiði að stýra foreldrum til að minnka viðveru barna sinna í leikskóla. Þessu síðarnefnda hefur fylgt hræðileg umræða sem einkennist af fullkomnu skilningsleysi gagnvart aðstæðum foreldra ungra barna og á samspili leikskóla við bæði vinnumarkað og kynjajafnrétti. Forsvarsfólki sumra sveitarfélaga (og sumra stéttarfélaga starfsfólks leikskóla) þykir sjálfsagt að velta áskorunum vegna styttingar vinnuvikunnar á leikskólum beint yfir á foreldra í formi hærri gjalda og skertrar þjónustu. Því styttingin mátti víst ekki kosta neitt, nema fyrir foreldra!
Foreldrum er talin trú um að það sé börnum þeirra nánast skaðlegt að vera í leikskóla á þeim tímum þegar það hentar starfseminni að starfsfólk taki út styttingu vinnuvikunnar og þótt rannsóknir sýni fram á neikvæð áhrif peningastýringar Kópavogsmódelsins í leikskólamálum hafa sífellt fleiri sveitarfélög tekið þær upp. Þegar þetta er ritað liggja borgarfulltrúar í Reykjavík enn undir feldi að melta sínar eigin tillögur sem munu, ef þær hljóta brautargengi, hafa í för með sér varanlegar breytingar á leikskólaþjónustu á Íslandi með því að festa í sessi gallað módel og taka upp tekjutengingar leikskólagjalda.
Eftir situr næsta kynslóð með enn einn Svarta-Péturinn.
Breytt um kúrs 2026
Góðu fréttirnar eru að það er ekki of seint að breyta um kúrs. Árið 2026 getur hæglega orðið árið þar sem ríki og sveitarfélög virða skuldbindingar sínar vegna gildandi kjarasamninga og félagsmálaráðherra fellur frá áformum um að veikja atvinnuleysistryggingar. Reykjavíkurborg getur fært tillögur sínar í leikskólamálum aftur á teikniborðið og tekið stöðu og hagsmuni ungra foreldra með í reikninginn við hönnun nýrra lausna. Ekki síst geta Seðlabanki og stjórnvöld axlað ábyrgð sína og frelsað ríkisfjármálin úr viðjum gallaðrar hugmyndafræði sem birtist í því að kreista skuldugar fjölskyldur í nafni þess að kveða niður verðbólgudrauginn, en það ætti að vera orðið nokkuð ljóst að hávaxtastefna kveður ekki í kút verðbólgu sem er að stórum hluta tilkomin vegna húsnæðismála. Að koma húsnæðismálum í viðunandi horf er því eitt stærsta og mikilvægasta verkefni stjórnmálanna árið 2026 og þar standa spjótin ekki eingöngu á sveitarfélögunum, heldur líka ríkisstjórninni.
Grunnstoðirnar eru enn sterkar í íslensku samfélagi. Nú er tími til að strengja heit um að brjóta þær ekki niður og ráðast ekki í breytingar sem skerða hag næstu kynslóðar. Þess í stað á að styrkja stoðirnar og styðja við ungt fólk, hvort sem er í námi eða leik, fjölskyldulífi eða á vinnumarkaði.
Við í VR munum ekki láta okkar eftir liggja í baráttunni. Við erum stærsta stéttarfélag ungs fólks á Íslandi og ætlum okkur að tryggja að framtíð þeirra verði að minnsta kosti jafn björt og kynslóðarinnar á undan.
Í öllu falli má vona að vísindaferðir ungs fólks hætti að litast af áhyggjum af húsnæðismálum, það eitt og sér er verðugt áramótaheit fyrir samfélagið!

















































Athugasemdir