Jólastreitan getur verið óvægin ótugt. Á rúmlega sex vikna spani virðist hún vera í fullu starfi við að minna okkur á allt sem við höfum vanrækt á árinu. Það skiptir ekki máli hvort það er líkaminn, andleg heilsan, fjölskyldan, áhugamálin eða vinirnir, ekkert er hafið yfir gagnrýni. Hún hvíslar að okkur líkt og ömurlegur yfirmaður að við hefðum getað gert betur á öllum sviðum. Margir slysast stundum til að hlusta á ótugtina og þar á meðal er ég.
Án varnarveggja kyndir jólastreitan fullkomnunaráráttuna sem beitir okkur ofbeldi, og öll mörk sem við höfum vandað okkur við að safna á árinu hverfa út um veður og vind. Við setjum þarfir annara framar okkar eigin og byrjum janúar á barmi kulnunar með óraunhæf markmið í hrönnum.
Þrálát undirgefni og vanburðir gagnvart algóritmum á samfélagmiðlum sem framleiða tilgangslausar þarfir hafa hátt í heilahvelunum og gamlar skaðlegar taugabrautir virkjast á ný. Jú, ég ætti nú að hreinsa mataræðið í desember og fara í allsherjar yfirhalningu á skipulagi heimilisins korteri fyrir jól. Enginn sykur og markviss markmið fyrir allt næsta ár. Fjallið stækkar og maðurinn minnkar. Heimurinn á heljarþröm og sjálfhverfan dansar glaðbeitt í kringum sjálfa sig.
Ég heyrði ekki lengur í sjálfri mér en heyrði hátt í kapítalísku sölumönnunum sjö þúsund sem herja á síðurnar mínar. Ég var farin að finna brunalykt af sjálfri mér um miðbik desembermánaðar og áður en ég náði í slökkvitækin sykur, svefn og skroll sem tefja brunann aðeins tímabundið þá hrundi ég í inflúensu sem pakkaði mér saman í flýti eins og jólagjöfinni sem næstum gleymdist að kaupa.
Ég var gjörsamlega slegin niður og negld aftur með stanslausan kuldahroll, óskandi einungis eftir hlýju. Nú var ég tilneydd til að húka ein uppi í rúmi og hugsa minn gang, og það sem kom til mín voru ekki áhyggjur um allt sem ég átti eftir að gera heldur mikilvægi merkingabærra tenginga við annað fólk.
Nærvera
Ég sá nýverið vinkonu minntast látinnar móður sinnar á samfélagsmiðlum. Ég hafði kynnst þeim mæðgum í jógaferð á Grikklandi fyrir um áratug. Ég var svolítið tætt og þung á þeim tíma, óviss um allt og alla og þá sérstaklega sjálfa mig. Ég var grá og guggin, vonlaus og hlýðin. Óralangt í burtu frá sjálfri mér.
Þær voru hláturmildar og hlýjar og áttu einstakt samband. Þær höfðu ekki hugmynd um mínar raunir og ég ætlaði ekki að segja neinum þær. „Ég er enginn tilfinningarúnkari,“ hugsaði ég stolt en brotin líkt og faðir minn heitinn sem feðraveldið fór ekki vel með. Þrátt fyrir gráan lit og fýlusvip þá buðu þær mér inn í sína hlýju.
Það er magnað hvað nærvera við gott fólk getur heilað á þann hátt að orð eru óþörf. Ekki þarf af kryfja neitt heldur einungs að dvelja. Það fékk ég hjá þeim. Ég fékk að dvelja og búa þannig til kjöraðstæður svo að úrvinnsla vandkvæða minna og sorgar gæti gerst á sínum forsendum og hraða.
Þegar konan dó þá varð hlýjan sem hún gaf mér eftir.
Stak
Ég gekk í gegnum eldskírn í lok síðasta árs og breytti samkvæmt gildismati. Ég varð óvinsæl því þeir sem setja mörk eru ekki alltaf vinsælir og síst í umhverfi þar sem allt rúllar ágætlega á meðan enginn setur orð á óþægilega hluti. Ég var sögð gröm og það þykir ekki eftirsóknarvert að vera stútfull af gremju því blessunin er sögð fara öllum illa.
Það kom hinsvegar ekki heim og saman við líðan mína því ég steig niður fast og fann festu mína djúpa. Ég komst að því að ég uni mér illa í hópi og ákvað því að fagna minni takmörkuðu félagsorku og verða stolt stak. Mér til mikillar undrunar virtist fólk laðast meira að mér stakri. Kraftur minn varð sterkari og sérviskan undarlega aðlaðandi.
Ég velti því oft fyrir mér hvort að hlýjan sem konan skildi eftir hafi haft þar eitthvað að segja. Hlýja er nefnilega orka sem getur kynt kraftinn í öðrum
Ég þekki aðra geðþekka og góða konu sem hefur gáfur líkt og og hún hafi verið hérna margsinnis áður. Ég leita stundum til hennar þegar ég verð örvingluð og villt. Hún benti mér á að hugur minn leiti of oft í fortíðina en ég benti henni á að þaðan á ég það til að skrifa. Hún sagði mér að skrifa hraðar því á endanum verðum við öll dauð og þá er ekki hægt að standa skil á neinu né krefja neinn um skýringar á einhverju sem gerðist einu sinni. Ég hef sett mér það áramótaheit að skrifa hraðar.
Ég hef komist að því að sjálfsþekking er hin geðþekka systir auðmýktar og gremja er reiði sem enginn annar vill halda á með þér. Skrifandi þetta þá er það kannski ekki skrýtið að ég finni mig illa í hópi sem yfirborðið fægir bara fínt.
Hlátur hlýjar
Ég á góða vinkonu sem sendir mér reglulega myndir af sjálfri sér á kamrinum til að hlægja að og talskilaboð um hvað ég skipti hana miklu máli. Hún segir mér oft að hún sé montin af mér og það er fátt sem gleður mig meira en skilaboðin frá henni.
Ég á líka aðra vinkonu sem ég er búin að þekkja síðan á leikskóla. Við erum búnar að vera samferða stóran part af lífinu okkar og margar af okkar fyrstu reynslum voru í takt. Hún er falleg og hlý, jarðbundin og góð og maður minn hvað hún er fyndin. Mamma sagði alltaf að hlátrarsköllin okkar heyrðust út á götu þegar við vorum litlar og lítið hefur breyst í dag.
Þrátt fyrir að ég hitti þessar vinkonur sjaldan yfir árið þá er ég alltaf með þær með mér. Merkingarbærar tengingar eru þykki kaðallinn sem festir mann við landið þegar maður flýtur of langt í burtu. Svoleiðis eru tengingar mínar við þessar tvær vinkonur. Þær eru landfestarnar mínar.
Sú sem allt geymir með þér.
Fyrir stuttu var ég svo heppin að fá að upplifa það á miðjum aldri að búa með bestu vinkonu minni. Hún flutti inn til mín og fjölskyldu minnar á meðan hún var að bíða eftir að fá íbúðina sína afhenta.
Þetta er eitthvað sem ég óska öllum konum sem eiga alvöru vinkonur. Þegar ég tala um alvöru vinkonu þá er ég að meina konurnar sem eru í engri samkeppni við þig. Konurnar sem líta á þína sigra sem sína og þær sem þú getur verið algjörlega berskjölduð fyrir framan vitandi að þitt veikasta er eitthvað sem verður aldrei notað gegn þér.
Að búa, jafnvel þótt bara í stutta stund með þannig vinkonu er örugglega eitt að því heilsusamlegasta sem kona getur upplifað. Hlegið og skrafað öll kvöld og öll vandamál leyst á augabragði en alltaf á dýptinni. Þeir sem eru vondir við mig verða sjálfkrafa óvinir hennar.
Vinátta sem tekur afstöðu en þorir að hnippa í þig þegar hausinn festist í rassgatinu. Ég er svo heppin að eiga eina svona og svo nokkrar aðrar dásemdardísir sem lita líf mitt ægibjörtum litum þegar ég verð grá.
Meinhornið
Þrátt fyrir að vera yfirlýst meinhorn sem er venjulega með allt á hornum sér þá hef ég verið lunkin við að koma mér upp vinskap við það sem ég vil kalla yfirburða gott fólk og hjartans agnir. Fyrir veittan vinskap í garð fúla femínistans verð ég ævinlega þakklát. Það getur nefnilega verið hundfúlt og drepleiðinlegt að þurfa að hafa svona mikið að skoðunum og blæti fyrir því að koma þeim á blað en einhvern veginn hefst þetta allt saman og hlutirnir lenda eins og þeir eiga að lenda.
Inn í næsta ár fer ég aðeins þyngri og engu skárri. Engir stórsigrar voru unnir í mannkostum mínum á árinu. Það sem hinsvegar gefur mér von að ég sé ekki jafn takmörkuð líkt og tapaðar baráttur gætu gefið til kynna eru tengingar mínar við annað fólk. Sama hver þú ert og hvaða skoðanir þú hefur þá óska ég þér merkingabærra tenginga við annað fólk. Þær hlýja.
Gleðileg jól og takk fyrir lesturinn á árinu.














































Athugasemdir