Tap upp á 97 milljónir króna varð á rekstri Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári. Þyngst vegur kostnaður vegna prófkjörs og kosninga upp á 174 milljónir. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi flokksins.
Boðað var nokkuð óvænt til kosninga undir lok árs og setur það mark sitt á fjárhag flokksins.
Flokkurinn hafði 410 milljóna króna tekjur en af þeim komu 201 úr opinberum sjóðum. Fyrirtæki styrktu flokkinn um tæpar 66 milljónir og einstaklingar um tæpar 57. Hluti af framlagi einstaklinga til flokksins var í formi félagsgjalda.
Opinberir styrkir eru töluvert lægra hlutfall af heildinni en hjá mörgum öðrum flokkum. Sem dæmi má nefna var hlutfall opinberra styrkja 75 prósent af heildarstyrkjum Miðflokksins, samkvæmt ársreikningi hans sem birtist fyrr í dag.
Þrátt fyrir töluvert tap er Sjálfstæðisflokkurinn ekki á flæðiskeri staddur. Samkvæmt ársreikningi á hann fasteignir fyrir 1.260 milljónir og ýmis áhöld og tæki fyrir 54,5 milljónir og eignarhlut í félögum fyrir tæpar 19.
Þá á félagið kröfu vegna lóðar og byggingaréttar upp á rúmar 238 milljónir og aðrar skammtímakröfur upp á 27 milljónir. Flokkurinn á handbært fé upp á 176 milljónir.












































Athugasemdir