Kosningabarátta Miðflokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar kostaði flokkinn tæplega 141 milljón króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Miðflokksins sem hefur hlotið samþykki Ríkisendurskoðunar. Sérstaklega er gerð grein fyrir kostnaði flokksins vegna kosninganna í reikningnum.
Flokkurinn skilaði meira en 133 milljóna króna tapi og spilar þar kosningabaráttan stærsta rullu. Rekstur flokksins að öðru leyti jókst þó líka á milli ára, því liðurinn „aðalskrifstofa“ í rekstrarreikningi kostaði 57 milljónir í fyrra en hafði kostað 35 milljónir árið áður. Þá jókst kostnaður við kjördæma- og undirfélög um nærri fjórar milljónir á milli ára.
Tekjur flokksins koma fyrst og fremst úr opinberum sjóðum. Þannig telur flokkurinn fram 50 milljóna króna framlag úr ríkissjóði og frá Alþingi, sem líka er fjármagnað úr ríkissjóði. Framlög sveitarfélaga námu tæpum 900 þúsundum á árinu. Af 69 milljóna króna heildartekjum flokksins komu því rétt um 75 prósent úr opinberum sjóðum.
Fyrirtæki styrktu flokkinn þó um 12,4 milljónir og einstaklingar um önnur 890 þúsund. Átta fyrirtæki styrktu flokkinn um samtals 650 þúsund krónur, en 100 þúsund af hverjum styrk runnu til kjördæmafélaga í ólíkum kjördæmum. Sex af átta stærstu styrkveitendum eru fyrirtæki í sjávarútvegi.
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns og stofnanda Miðflokksins, var sá einstaklingur sem veitti stærsta styrkinn. Hún styrkti flokkinn um 550 þúsund krónur, sem er hámarkið samkvæmt lögum.












































Athugasemdir