Árið er senn á enda. Ein þau tímamót sem undirrituð fagnaði á árinu var tuttugu ára brúðkaupsafmæli. Af tilefninu þvinguðum við hjónin okkur til að líta upp úr hversdagsamstrinu og fara út að borða. Fyrir valinu varð staðurinn sem við borðuðum á þegar við giftum okkur, Café Royal, sögufrægur veitingastaður á Regent Street í London, þar sem ekki ómerkari menn en Oscar Wilde og Winston Churchill voru eitt sinn fastagestir.
Við höfðum ekki fyrr sest til borðs en samtíminn ruddist inn í gullslegin salarkynnin með gassagangi sínum. Ung kona í árshátíðarskrúða reis úr sæti. Með stút á vör og símann á sjálfu-stillingu hóf hún að arka um og taka af sér myndir og vídeó. Hún myndaði sjálfa sig í flúruðum speglunum á veggjunum, stillti sér upp við hliðina á píanóleikaranum og steig upp á stól til að ná freskunum í loftinu.
Hún lét þó ekki þar við sitja. Með merkilegum yfirgangi skikkaði hún þjónana til að láta af iðju sinni og taka af sér myndir. Stóðst afraksturinn ekki kröfur hennar tók hún þá í kennslu í samfélagsmiðlamyndatöku. Á meðan sátu aðrir gestir staðarins með tóm glös og biðu eftir matnum sínum sem kólnaði inni í eldhúsi.
Fórn fyrir minningu
Í Chauvet-Pont-d'Arc-hellinum í Suður-Frakklandi má finna 30.000 ára gamlar útlínur sem dregnar hafa verið eftir hendi. Þarna reyndi einhver að segja: „Ég var hér“.
Þörfin fyrir að skilja eftir sig spor – handarfar, portrett, ljósmynd eða orð á blaði – hefur fylgt manninum frá upphafi alda. Stundum virðist þó sem viðleitni okkar til að skrásetja líf okkar sé farin að standa í vegi fyrir því að við lifum lífinu.
„Instagram-kynslóðin lítur á líðandi stund sem framtíðarminningu,“ er haft eftir sálfræðingnum og Nóbelsverðlaunahafanum Daniel Kahneman.
Það er erfitt að ímynda sér að unga konan í árshátíðarkjólnum hafi notið upplifunarinnar á Café Royal.
Fórnin sem konan færði í andartakinu fyrir minningu í framtíð er þó ekki eini kostnaðurinn við aðgerðir hennar.
Eyðilegging á núinu
Í síðasta mánuði bárust fréttir af því að aðstandendur stærsta og elsta matarmarkaðar Lundúna, Borough Market, hygðust stemma stigu við áreiti sem hlýst af áhrifavöldum með því að banna myndbandsupptökur þeirra án tilskilins leyfis.
Í vestrænum samfélögum gildir víðast sú þumalputtaregla að ekki eigi að „skerða athafnafrelsi samfélagsþegns gegn vilja hans nema hann valdi öðrum tjóni með aðgerðum sínum,“ eins og segir í Frelsinu eftir John Stuart Mill sem kom fyrst út árið 1859 – níu árum eftir að sú bygging reis, sem nú hýsir Borough Market, en rekja má sögu markaðarins aftur til ársins 1014 samkvæmt ekki ómerkari heimild en Heimskringlu Snorra Sturlusonar.
Við fyrstu sýn virðast þær skorður, sem settar hafa verið áhrifavöldum á markaðnum, ganga harkalega gegn trú okkar á einstaklingsfrelsið. Sé betur að gáð sést þó glögglega að ekki er vikið frá meginreglu Mills.
Áhrifavöldum sem öðrum er fullkomlega frjálst að valda tjóni á eigin upplifun með viðleitni sinni til minningasköpunar. En þegar skrásetning á lífi annarra er farin að standa í vegi fyrir upplifun okkar hinna er mælirinn fullur.
Á gervihnattaöld, þar sem æ fleiri sveifla símanum eins og áhrifavaldar, er rétt að minna á þau mörk sem John Stuart Mill setti einstaklingsfrelsinu.
Jólin eru handan hornsins. Áður en þú smellir mynd af jólasteikinni skaltu spyrja þig: Er framtíðarminning þín að eyðileggja núið fyrir einhverjum öðrum?












































Athugasemdir