Hagsmunum Íslands er betur borgið utan EES-svæðisins ef útlendingum fjölgar hraðar en Íslendingum. Þetta er mat Snorra Mássonar, varaformanns Miðflokksins.
Snorri stofnaði til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag um skýrslu starfshóps um þróun í útgáfu dvalarleyfa og misræmi við önnur Norðurlönd. Í framsögu sinni ræddi hann niðurstöður skýrslunnar um hvaðan innflytjendur komi til Íslands og sagðist vilja loka nær alfarið á þau sem koma utan EES-svæðisins.
„[T]el ég að hagsmunum okkar sé augljóslega betur borgið utan samstarfsins ef þetta heldur svona áfram mikið lengur“
„Svo er EES-samstarfið sem ráðherrann neitar því miður að taka til umræðu í sambandi við innflytjendamálin,“ sagði Snorri. „Það er auðvitað stóra breytan í innflytjendamálum hér að hér eru opin landamæri fyrir 450 milljónir manna. Ég segi í því sambandi að ef útlendingum heldur áfram að fjölga á Íslandi tvöfalt hraðar en Íslendingum þá tel ég í fyrsta lagi að við þurfum að beita okkar neyðarheimildunum innan EES-samningsins til að taka stjórn á fólksflutningum hingað til lands. Við höfum þær heimildir, við gætum það. Ef það virkar ekki, ef við hreinlega missum stjórn á eigin lýðfræðilegu örlögum, þá tel ég að hagsmunum okkar sé augljóslega betur borgið utan samstarfsins ef þetta heldur svona áfram mikið lengur.“
Íslendingar missi réttinn til búsetu í Evrópu

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, gerði orð Snorra að umfjöllunarefni í Facebook-færslu að loknum umræðunum á Alþingi. „Snorri Másson talaði skýrt um það í dag á Alþingi að honum finnist koma til greina að ganga úr EES samstarfinu,“ skrifar Sigmar. „Hann sagði það berum orðum. Það er nokkuð augljóst að varaformaður Miðflokksins áttar sig ekki á að EES samstarfið byggist á gagnkvæmni. Tugþúsundir Íslendinga vinna, læra og njóta réttinda í Evrópu á grundvelli þessa samstarfs sem í raun er undirstaða þeirrar velferðar sem við búum við í dag. Það gildir líka um kjósendur Miðflokksins.“
„Hann sagði það berum orðum“
Sigmar segir ljóst að íslensk fyrirtæki myndu missa starfsfólk í tugþúsundatali við úrsögn úr EES og ríki og sveitarfélög sömuleiðis þúsundir starfsmanna úr velferðarþjónustu. „Tugþúsundir Íslendinga, líka kjósendur Miðflokksins, misstu réttindi sín í Evrópu til búsetu og atvinnu. Þar með talið þúsundir Íslendinga sem búa á Spáni og víðar. Þetta er vanhugsaður og varasamur málflutningur og ekkert annað en aðför að atvinnulífi og velferð þjóðarinnar. Ef við lokum á aðra, þá loka aðrir á okkur. Hræðsla Miðflokksins við fjórfrelsið sem EES samstarfið tryggir er andstætt íslenskum hagsmunum,“ skrifar Sigmar að lokum.










































Ekki alveg rétt - en það verður ekki eins auðvelt. En ferðalög verða stirðari, stífari passa-og tollskoðun, jafnvel krafist áritunar.