Aldur grænlandshákarlsins, sem við Íslendingar köllum einfaldlega hákarl, hefur lengst af verið vísindamönnum hálfgerð ráðgáta. Lengi hefur verið vitað að hann gæti orðið mjög gamall, nokkur hundruð ára jafnvel, en illa hefur gengið að ákvarða aldur hans með nokkurri vissu. Sömuleiðis hefur lítið verið vitað um hvar þessi dularfulla skepna fæðir afkvæmi sín, svæðið umhverfis Grænland og önnur svæði í Norðurhöfum oft nefnd í þessu sambandi.
Ný rannsókn
Þann 9. júlí sl. birtist í danska dagblaðinu Politiken frétt þar sem greint var frá nýrri rannsókn vísindamanna frá sex löndum, undir forystu Grænlensku Náttúrufræðistofnunarinnar og Danska Náttúrufræðisafnsins. Við rannsóknina studdust vísindamennirnir meðal annars við gögn frá Hafrannsóknarstofnun.
Eins og fyrr var getið hefur til þessa lítið verið vitað um „fæðingarstaði“ hákarlsins, en hafsvæðið kringum Grænland og lengra norður oft nefnt. Í fréttatilkynningu frá Hafnarháskóla, sem Politiken vitnar í og varðar niðurstöður áðurnefndrar rannsóknar, segir að hákarlinn fæði afkvæmi sín miklu sunnar en áður var talið, nær Danmörku eins og Politiken kemst að orði. Nánar tiltekið í Skagerrak, norðvestan við Jótland. Á því svæði finnst hærra hlufall ungra hákarla en á öðrum hafsvæðum, 90 til 200 sentimetra langir. Julius Nielsen, sérfræðingur hjá Danska Náttúrufræðisafninu telur að rannsóknir sem gerðar verði í framtíðinni muni mjög líklega (med stor sandsynlighed) staðfesta að hákarlinn fæði afkvæmi sín á svæðinu nærri flekaskilum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans.
Tilviljun
Í ágúst árið 2016 birtist í danska vísindatímaritinu ,,Videnskab.dk“ löng grein um grænlandshákarlinn (Somniosus microcephalus), eins og Danir kalla hákarlinn ætíð.
Lengi hafði verið vitað að hákarlinn yrði allra karla elstur en hve gamall hann gæti orðið var ekki vitað. Í greininni í Videnskab.dk er greint frá rannsókn danskra vísindamanna á 28 hákörlum sem allir höfðu veiðst sem meðafli og voru svo illa skaddaðir að nauðsynlegt reyndist að aflífa þá. Tilviljun réði því að vísindamennirnir komust á aldursgreiningarsporið. Þegar gerðar voru tilraunir með kjarnorkusprengjur í lok sjötta og byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar jókst kolefni 14 í andrúmsloftinu mikið. Kolefnið varð hluti af hringrás náttúrunnar og endaði í plöntum og vatni. Dýr, þar á meðal fiskar og dýr sem lifa í höfunum, fá þetta kolefni í kroppinn og þótt flestir hlutar skrokksins endurnýi sig gildir það ekki um augasteininn. Vísindamennirnir komust þannig að því að einungis þrír minnstu hákarlarnir af þeim 28 sem rannsakaðir voru komu í heiminn eftir að tilraunasprengingarnar á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar fóru fram.
Allt í hægagangi
Hjá hákarlinum gengur allt hægt. Kerlurnar verða kynþroska þegar þær ná 156 ára aldri og talið að karlarnir fylgist grannt með þegar þeim tímamótum er náð. Við fæðingu eru kálfarnir að jafnaði í kringum 40 sentimetra langir, geta verið örlítið styttri eða aðeins lengri. Um miðja síðustu öld fangaði danski líffræðingurinn Paul Marinus Hansen nokkra hákarla, sem hann mældi og merkti áður en hann sleppti þeim aftur í sjóinn. Honum tókst að ná nokkrum þeirra, ekki öllum, 16 árum síðar og gat endurtekið mælinguna. Líffræðingurinn komst að því að hákarlarnir höfðu að jafnaði lengst um 8 sentimetra, semsé um hálfan sentimetra á ári og öfugt við flest önnur dýr vex hákarlinn alla ævi.
Einn hákarlanna 28, sá stærsti, sem rannsakaðir voru árið 2016 var rúmlega 5 metra langur. Vísindamennirnir töldu því að hann væri rétt tæplega 400 ára, líklega 392 ára og hefði hæglega getað náð enn hærri aldri hefði hann ekki lenti í neti sjómanna. Hákarlinn, sem ekki fékk nafn, er elsta hryggdýr sem lifað hefur á jörðinni.
Engar einhlítar skýringar
Hvernig stendur á því að hákarlinn nær jafn háum aldri og raun ber vitni?
Þessari spurningu hafa vísindin ekki getað svarað. Julius Nielsen sérfræðingur hjá Danska náttúrufræðisafninu kom með nokkrar tilgátur í viðtali, til gamans að hans sögn. Ein er sú að efnaskiptin eru mjög hæg eins og hjartslátturinn, súrefnisupptakan er lítil og hákarlinn hreyfir sig lítt eða ekki tímunum saman og þarf einungis að nærast einu sinni til tvisvar á ári. ,,Svo er hann líklega laus við stress, sem vitað er að hefur neikvæð áhrif“ sagði Julius Nielsen. Hann bætti við að frekari rannóknir á hákarlinum geti komið læknavísindunum að gagni á næstu árum eða áratugum.
Í frönsku stjórnarbyltingunni 1789 var hákarlinn, sem ekki fékk nafn, um það bil 165 ára gamall.
Árið 1912 sökk farþegaskipið Titanic, þá var hákarlinn tæplega 290 ára gamall.
Árið 1944 stofnuðu Íslendingar lýðveldi, hákarlinn var þá 306 ára gamall og þegar Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1955 var hákarlinn 317 ára.
Árið 1874 þegar Íslendingar fögnuðu 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar var hákarlinn 250 ára gamall.
Hér á Íslandi er hákarl utan kvóta, en árlega veiðast 40 – 50 dýr, um það bil 22 tonn, einkum sem meðafli í botnvörpuveiðum.
Latneska heiti hákarlsins er Somniosus microcephalus sem kannski má þýða sem „Sá syfjaði með litla heilann“.









































Athugasemdir