Elon Musk svaraði Evrópusambandinu fullum hálsi eftir að það sektaði samfélagsmiðilinn X, sem er í eigu tæknijöfursins, og sagði við 230 milljónir fylgjenda sinna á miðlinum að leggja ætti Evrópusambandið niður.
Í kjölfar umfangsmikillar rannsóknar sem talin var prófsteinn á staðfestu ESB í eftirliti með stórum tæknifyrirtækjum var samfélagsmiðillinn, sem er í eigu ríkasta manns heims, sektaður um 120 milljónir evra á föstudag fyrir að brjóta stafrænar reglur sambandsins.
Bandarísk stjórnvöld undir forystu Donalds Trump gagnrýndu sektina harðlega, en Trump hafði sem forseti verið sammála Musk um umdeilda viðleitni til að fækka alríkisstarfsmönnum og skera niður útgjöld, áður en þeim sinnaðist.
Musk tjáði sig sjálfur eftir að sektin var tilkynnt og birti á X-reikningi sínum: „Það ætti að leggja Evrópusambandið niður og skila fullveldinu aftur til einstakra landa, svo að ríkisstjórnir geti betur komið fram fyrir hönd þjóða sinna.“
Þegar notandi endurbirti færslu Musks svaraði hann: „Ég meina það, ekkert grín.“
„Ég elska Evrópu, en ekki skrifræðisskrímslið sem ESB er,“ bætti hann við í annarri færslu.
Sektin gegn X var sú fyrsta sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði á samkvæmt lögum um stafræna þjónustu (DSA) vegna efnis.
Framkvæmdastjórnin sagði X sekan um að brjóta gegn gagnsæisskyldu DSA.
Brotin fela meðal annars í sér villandi hönnun á „bláa hakinu“ fyrir að því er virðist staðfesta reikninga og að hafa ekki veitt rannsakendum aðgang að opinberum gögnum, sagði hún.
X hafði heldur ekki sýnt nægilegt gagnsæi varðandi auglýsingar sínar, bætti framkvæmdastjórnin við.













































Athugasemdir