Fyrir nokkrum árum ákvað ég að láta skera af mér vömbina. Hún var orðin ansi fyrirferðarmikil og ég var í óða önn farin að líkjast ofmettum ketti í útliti. Það var kominn belgingur í belginn. Innan um vöðvamikla útlimi var ég um mig miðja líkt og Demi Moore í The substance, þegar hún breyttist í skvapkennt skrímslið. Að geta nálgast sjálfan sig út frá hlutleysi er frelsi. Að segja „þarna er fita“ í staðinn fyrir „ég er feit“ er líka skynsamara í heimi sem aflar fjár af því að kenna konum að hata sig. Þrátt fyrir mikla væntumþykju í garð vambarinnar ákvað ég að það væri komið að skilnaði og sökum leti og óbeitar á reglulegri líkamsrækt rigsaði ég glaðbeitt á fund lýtalæknis.
Fundur með lýtalækni
Hann var vinalegur og faglegur þegar hann staðsetti mig fyrir framan sig sitjandi á stól og bjó sig undir að taka stöðuna á veldi vambarinnar. Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta væri í fyrsta sinn sem ég stæði full tilhlökkunar með brækurnar á hælunum með ókunnum manni en þar sem móðir mín les greinarnar mínar ætla ég ekki að fjalla nánar um þau ævintýri hér.
„Ertu að tala um píkuna á mér?“
„Jú, jú, já, akkúrat,“ sagði læknirinn við sjálfan sig meðan hann mundaði vömbina. Ég stóð og horfði niður á skallann á honum. „Já, svo sker ég héðan og hingað. Já, akkúrat, og svo hífum við vinkonuna upp.“ Mig rak í rogastans. „HA!“ sagði ég án þess að hika: „Hvaða vinkonu?“ Lýtalæknirinn varð vandræðalegur á meðan ég var enn óviss um vinkonu hvers hann væri að tala um. „Já, sko, það er venjan að hífa pubis upp í svona aðgerðum,“ sagði hann ögn hikandi án þess að horfa framan í mig. „Ertu að tala um píkuna á mér?“ sagði ég blákalt og beinskeytt. „Ehh, já,“ sagði hann ofur vandræðalegur og forðaðist nú augnsamband með öllum tiltækum ráðum. „Þetta heitir sko píka, ekki vinkona,“ sagði ég og hló. Hann hló ekki, heldur koðnaði ofan í tölvuna sína og bar þess skýr merki að vilja vera á öðrum stað. Ég gyrti hugsandi upp um mig brækurnar og fór að velta fyrir mér orðinu píka og af hverju mörgum finnst svona erfitt að nota það.
Orðin sem karlar notuðu
Ég sneri mér í áttina að karlkyns vinum og hugði á litla rannsókn. Ég spurði þá hvaða önnur orð en píka þeir þekktu yfir kynfæri kvenna. Undirtektirnar stóðu ekki á sér og orðagnótt flæddi í kjölfarið. Skuð, tussa, hryssa, sköp, hrúðukarl, rotta, físa, pjása, pjalla mýsla, spoilerkitt, roastbeef, hola, mancave, almannagjá, rós, dömubossi, budda, gotrauf, kunta, Latibær og nítjánda holan. Álitsgjafar mínir voru sammála um að nafngiftir þessar væru kyni þeirra ekki til framdráttar og nokkrir sögðu orðin fela í sér augljósa kvenfyrirlitningu. Einn lagði til „Vigdís“ til að stemma stigu við ósómann og vekja píkuna aftur til valds og virðingar. Ég fussaði og benti á að píka ætti nú bara að nægja til þess. Álitsgjafarnir höfðu talið að samheitin hér og þar og ein á stangli yllu ekki alvarlegum skaða og væru jafnvel bara fyndin, en þegar þeir sáu upptalninguna á blaði voru þeir sammála um að karlkynið þyrfti að taka sig í gegn þegar kæmi að yrtri væntumþykju í garð píkunnar. Þeir voru allir sammála um að orðið píka væri almennt neikvætt gildishlaðið í heimi karla og skírskotaði að mestu til aumingjaskapar og skorti á karlmennsku.
Orðin sem konur notuðu
Ég ákvað í skyndi að gera samanburðarrannsókn og hóf samtal við nokkra vinkvennahópa og spurði hvaða önnur orð en typpi þær þekktu yfir kynfæri karla. Í kjölfarið komu orðin: Limur, vinur, kóngur, tittur, getnaðarlimur, göndull, lókur, millifótakonfekt, tilli, besefji, bjúga, böllur, reður, skaufi, tittlingur, píkuhrærir, frændi, jafnaldri, drjóli, sköndull, fermingarbróðir, lostakústur og töfrasproti. Ég staldraði við og virti fyrir mér fremur vinaleg og skaðlaus samheiti og sum jafnvel valdeflandi. Það virðist vera ansi brött slagsíða á milli kynjanna þegar kemur að nafngiftum í garð kynfæra hvort annars. Hvað veldur?
„Langvinn hugmyndafræði getur gleypt embætti og gert þau bitlaus“
Saklaust orð markað skömm
Orðið píka þekkist þegar í fornu máli en þá alltaf í merkingunni stúlka. Uppruni orðsins gæti því ekki verið saklausari, en samt sem áður er það makað einhvers konar skömm. Orðið píka er þó hvorki klúrt né grófyrði en of mörgum hefur verið talin trú um að svo sé. Mögulega er sú blekking liður í því að halda valdaójafnvæginu á milli kynjanna óbreyttu svo að skaðleg hugmyndafræði geti haldið áfram að hagnast og fíflunum geti fjölgað. Femínistatruntan í mér hallast að því alla vega.
Það eru margir píkuhafar komnir í æðstu embætti þjóðar okkar og vegna þess telja sumir að við konur ættum bara að geta lagað það óréttlæti sem við erum alltaf að kvabba um og helst án tafar. Vangeta okkar til að geta leyst okkur úr ánauð er til marks um vanhæfni okkar og því ættum við bara halda kjafti og nýta frjósemisárin okkar betur. Þannig hefur alla vega orðræðustemningin verið svolítið undanfarið. Þeir sem halda því fram virðast ekki skilja að langvinn hugmyndafræði getur gleypt embætti og gert þau bitlaus, og að pólitísk valdastaða þýði ekki einræði. Alltaf áhugaverðir þeir sem gera ekki þann greinarmun.
Til að komast yfir tepruskapinn
Ég óska öllum að glápa lengi á fræga mynd af píku eftir franska málarann Gustave Courbet til að komast yfir tímaskekktan tepruskap sinn. Verkið heitir Upphaf heimsins, eða L'Origine du monde, og er frá árinu 1886. Málverkið olli usla og kom ekki fyrst fram fyrir sjónir almennings fyrr en árið 1988, rúmlega öld eftir að það var málað. Svo dónaleg þótti myndin. En er það myndin sem er dónaleg eða erum við búin að gildishlaða píkuna á þann hátt að ásýnd hennar er annaðhvort klámvædd eða mökuð skömm og hneisu? Málverkið er í sjálfu sér valdeflandi og sterkt. Það sýnir yndislega kæruleysislega og ótilhafða kafloðna píku á þann hátt að það ögrar. Afslöppuð píka sem hefur ekkert að sanna. Hvað gæti verið kvenfjandsamlegum valdastrúktúrnum hættulegra?
„Gróf aðför að sjálfræði píkunnar er enn að eiga sér stað“
Ég staldraði við og hugsaði um allar 229 konurnar sem leituðu til Stígamóta í fyrsta skipti árið 2024. Flestar komu þær til að fá aðstoð við afleiðingunum sem fylgdu í kjölfarið af því að vera nauðgað eða verða fyrir kynferðisofbeldi sem barn. Það virðist vera undarleg afvegaleiðing að vilja ræða hluti líkt og meinta aukningu í valkvæði kvenna í eigin lífi á meðan gróf aðför að sjálfræði píkunnar er enn að eiga sér stað og er kæruleysislega afgreidd í öllum kerfum sem óumflýjanlegur partur af lífsskeiði kvenna. Tölfræðin segir okkur að á Íslandi sé fullt af mönnum sem telja svo að konur eigi ekki sína eigin píku. Fjöldi nauðgana hérlendis er til marks um það. Aðför að píkum er svo mælanleg að það virkar eins og góð hugmynd að fá tryggingafélög til að tryggja þær fyrir skaða. Kannski að himinháar fjársektir hefðu fælingarmátt því réttarkerfið hefur það svo sannarlega ekki. Skrýtið þetta litla land.
Afmáum skömmina
„Og hvað ætlar þú að skrifa um næst, vinan?“ spurði móðir mín nýverið á björtu sunnudagseftirmiðdegi. „Píkuna mína,“ sagði ég galvösk og tók annan bita af vínarbrauðinu. „Æi, Hrafnhildur mín!“ dæsti móðir mín, enda hefðarkona úr Hrísey sem er þó orðin vön takmörkunum mínum þegar kemur að háttvísi og reisn. Ég sat aftur á móti sátt með vínarbrauð og nýupphífða píku sem er ekki vinkona neinna nema hún velji það sjálf. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki kominn tími til að við förum að kalla hlutina réttum nöfnum og tökum skömmina af orðinu píka. Það er fjarstæða að gildishlaða jafnsaklaust orð um stúlku á jafnneikvæðan hátt og búa til urmul samheita sem mörg hver eru niðrandi og notuð til að níða. Það er í sjálfu sé jafnmikil fjarstæða og að einhver myndi segja að typpi séu einungis verðug þegar þau eru í fullri reisn.














































Takk fyrir að vekja athygli á þessu misrétti.