Við höfum lifað áfram í þeirri heimsmynd, sem þó er að molna niður fyrir augunum á okkur, að Bandaríkin séu bandamenn Íslands og annarra Evrópuríkja þegar ógn steðjar að, eins og innrás Rússlands Pútíns í Úkraínu er lifandi dæmi um.
Bandaríkin hafa núna listað upp 28 atriði sem Úkraína þarf að fallast á, meðal annars að gefa eftir óhernumið land, skuldbindast til að standa utan Nató og takmarka her sinn og vopnabúnað. Með þessu verður lögmæti innrásar Rússa í raun staðfest og allar viðskiptaþvinganir og aðrar neikvæðar afleiðingar hennar afnumdar.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, endurómar fyrri orð sín um að Úkraína sé vanþakklát fyrir stuðninginn, sem hefur helst falist í kaupum á bandarískum vopnum fyrir stjarnfræðilegar fjárhæðir, verði að sætta sig við stöðuna og hafi engin spil á hendi, sem má segja að sé afleiðing af því að Trump ákvað að stöðva nánast alfarið stuðning við Úkraínu, meina þeim um langdrægar Tomahawk-stýriflaugar og hótar að hætta að veita leyniþjónustuupplýsingar.
Ráðgáta eða augljós ásetningur?
Ástæðan fyrir því að Bandaríkin eru að reyna að þvinga Úkraínu til uppgjafar og niðurlægingar, eftir tæplega fjögurra ára hetjulega baráttu, er íslenskum sérfræðingum í málaflokknum einhver ráðgáta.
„Spurningarnar sem vakna eru hvað Bandaríkjunum gengur eiginlega til og hvernig þeir ætla að lenda þessu máli,“ sagði Albert Jónsson, sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, í samtali við mbl.is í gær.
Ein ástæðan gæti verið að draga úr óvissu og áhættu, önnur að það sé óumflýjanlegt, þriðja til að hagræða og draga úr útgjöldum. Fjórða gæti verið, að sem margir hafa bent á, persónulegur hégómi forseta Bandaríkjanna sem vill fá friðarverðlaun Nóbels út á að enda stríðið, hvernig sem hann fer að því. Margar góðar ástæður eru til að framkalla frið, en hingað til hefur þótt mikilvægara að skapa ekki falskan frið, tækifæri til enduruppbyggingar fyrir frekari hernað og fordæmi fyrir ábata af innrásum í fullvalda lönd.
Það er fimmta ástæða Bandaríkjanna til að þrýsta á uppgjöf sem mörgum yfirsést, þó hún varði okkur mest af öllu.
Raunverulegir hagsmunir Trumps
Hún er að það sé í reynd Bandaríkjum trumpismans í hag að Rússland komist upp með yfirgang og landvinninga. Eða með réttu orðalagi, það er valdsækna forsetanum Donald Trump í hag að innleiða breyttar reglur á alþjóðavettvangi, þar sem hagsmunir þeirra sterku verða í fyrirrúmi á kostnað þeirra veiku og dreifðu sem hafa hag af skýrum alþjóðalögum um hegðun ríkja.
Þegar hlustað er á Donald Trump og fylgst er með því sem hann gerir er augljóst að leikreglurnar hafa breyst nú þegar. Uppgjöf Úkraínu er bara enn eitt púslið í þeirri mynd. Með því öðlast yfirgangur einræðissinnaðs og þjóðernissinnaðs leiðtoga Rússlands lögmætið sem hann skorti. Þannig verður skapað fordæmi. Hliðarverkun af því er að þess meira lögmæti sem Pútín fær fyrir ofríki sitt, því meira svigrúm hefur Donald Trump sjálfur til að koma til framkvæmdar sínum eigin yfirgangi.
Fordæmin raðast upp
Eitt lykilatriði í því að rýmka athafnafrelsi og vald Trumps er beiting hans á „banvænu afli“, eins og það yrði orðað, í stríðinu gegn fíkniefnum. Það sama, þó á smærri skala, og Duterte, fyrrverandi forseti Filippseyja, hefur verið ákærður fyrir gagnvart Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag. Það er að drepa grunaða fíkniefnasmyglara án dóms og laga. Vegna þess að Trump hefur skilgreint víðan hóp fólks og andstæðinga sinna sem hryðjuverkamenn vekur athygli og áhyggjur að hann drepi meinta „narko-terrorista“ óhikað, ítrekað og án nokkurrar málsmeðferðar.
Fordæmið er að hann megi taka mannslíf og að þau séu minna virði og njóti minni helgi en áður var talið.
Næsta skref er áhugi hans á að ráðast á Venesúela, eða jafnvel íslamista í norðurhluta Nígeríu. En það mikilvægasta fyrir Íslendinga er að hann vill og vinnur að því að komast yfir Grænland, að innlima það í Bandaríkin eins og Pútín innlimar Krímskaga, Luhansk, Donetsk og fleira sem hann kemst yfir. Munurinn er sá að ekki er hægt að halda því fram að á Grænlandi séu einhvers konar Bandaríkjamenn kúgaðir af yfirvöldum sem þarf að frelsa og endurheimta inn í sögulegt veldi þjóðarinnar.
Þessi viðleitni gengur líka í berhögg við áherslu Trumps á að fá fyrst og fremst hvíta íbúa til Bandaríkjanna, eins og sést á heimild til hvítra Suður-Afríkumanna og hugsanlega hvítra Evrópubúa til að sækja um hæli, á meðan lokað er á aðra.
Enginn einangrunarsinni
Þó svo að sérfræðingar hafi álitið Donald Trump vera einangrunarsinna og lýst miklum áhyggjum af því, eru orð hans og aðgerðir smám saman að leiða í ljós að svo var ekki. Það sem hann vildi einangra sig frá voru leikreglur, samstarf og skuldbinding við lýðræði. Þvert á móti langar hann til að opna sig fyrir samstarf við einræðisherra og hann virðist langa að vera eins og þeir.
Fyrir Íslendinga skiptir mestu máli að Donald Trump hefur einbeittan áhuga á að stækka Bandaríkin. Rétt eins og Pútín þurfti að stækka stærsta land í heimi vill Trump gera það á forsendum öryggisleysis og jafnvel nota til þess öflugasta her í heimi. Eins og danska blaðið Politiken fjallaði um í gær vinnur Trump-stjórnin enn að því að koma Grænlandi undan dönskum yfirráðum.
Rangt hagsmunamat
Ef fimmta ástæðan er rétt hefur hagsmunamatið um Úkraínu verið byggt á misskilningi. Líklegasta ástæðan fyrir því að þetta er ekki rætt er að það telst nánast óhugsandi að Bandaríkin hafi sömu hagsmuni og Rússland eða önnur einræðisríki í yfirgangi sínum og viðleitni til að auka enn á völd sín.
Gengið hefur verið út frá því að Bandaríkin hafi hag af því að styðja lýðræðisþjóðir sem eru bandamenn þeirra og viðskiptafélagar.
Þegar kemur að spilum á hendi hefur þeim líklega fækkað hjá Bandaríkjunum en fjölgað hjá Kína, sem skákar þeim og öðrum í hátækniframleiðslu. Tromp-spilið sem Trump dreymir um að nota er hins vegar hernaðarmáttur Bandaríkjanna, en hann er helst hægt að nota á veikari ríki.
Helstu rökin með því að stöðva innrás Rússa í Úkraínu hefur verið að viðhalda alþjóðalögum, með því að hindra fordæmi, og styðja við lýðræðisríki, þó ófullkomið, gegn uppgangi og yfirgangi einræðis.
Eins og öllum ætti að vera orðið loksins ljóst hefur Trump engan áhuga á því að verja lýðræði, heldur þvælist það fyrir háttalagi hans og hann vinnur að því að mola það niður heimafyrir. Hann hefur ekki áhuga á að styðja við alþjóðalög, heldur hefur hann áhuga á að sundurlima þau.
Og þegar kemur að mannhelgi, grundvallarafstöðu gegn drápum á almennum borgurum sem öðrum, þá virðist hann ekki hafa neina slíka til að bera. Þvert á móti hefur hann víkkað viðmið um hverja megi drepa, bæði í orði og á borði, með loftárásum á grunaða smyglara og hótunum um að beita pólitíska andstæðinga dauðarefsingu fyrir að hvetja til óhlýðni í fylgni við lög umfram skipanir. Þannig hefur Trump gert litlar athugasemdir við áframhaldandi árásir Ísraels í vopnahléi í Gaza og einfaldlega útfært friðarsamkomulag með sterkari aðilanum. Það sama gerir hann í Úkraínu.
Valdefling þeirra sterku
Ástæðan fyrir breyttum áherslum Bandaríkjanna er margslungin. Í fyrsta lagi hafa Bandaríkjamenn upplifun um að þeir séu að tapa í frjálsri samkeppni, hugsanlega réttilega. Það tap felst bæði í ójöfnuði og skertum lífsgæðum einstaklinga innan Bandaríkjanna, en líka skuldasöfnun. Launum hefur verið haldið niðri með innflutningi fólks og framundan eru miklar tækniframfarir og vélvæðing sem gæti gert fjölmargt fólk óþarft í framleiðsluferli.
Hver sem ástæðan er hefur þetta leitt til þess að óvinur Bandaríkjanna að svo stöddu er ekki einræðisríkin Rússland og Kína, sem ýmist hafa ráðist inn í nágrannaland eða ætla sér það, heldur er hindrunin lýðræðið og reglur þess sem taka mið af því að verja og valdefla þau smærri andspænis þeim sterkari, til að viðhalda stöðugleika.
Í speglun við niðurbrot „vóksins“, sem átti að verja þá veikari og rétta hlut þeirra gagnvart hinum innan samfélaga, á núna að valdefla þá sterkari í alþjóðasamskiptum.
Þýðingin fyrir Ísland
Við höfum séð línur sömu myndar teiknast upp á Íslandi. Tilteknir stjórnmálaflokkar eru að horfa til þess að spegla einræðissinnana. Miðflokksmenn þrýsta á forsætisráðherra og þingforseta að svara til um hvort þau ætli að veita Donald Trump verðlaun, eða tilnefna hann til friðarverðlauna Nóbels. Það kann að vera lógískt andsvar í ljósi þess að öll þjóðaröryggisstefna Íslands hefur gengið út frá grunnforsendu um velviljuð Bandaríki.
Aðrir flokkar, Samylkingin og Viðreisn, horfa til þess að ganga inn í Evrópusambandið, í þeirri trú að það sé bandalag ríkja sem er byggt upp á forsendum og hagsmunum heildarinnar, með regluverki sem styður dreifða hagsmuni aðildarríkja, og hugsanlega sameiginlegum vörnum í framtíðinni.
Uppgangur harðari hægri afla í Evrópu, í takti og andsvari við þróunina vestan hafs, getur hins vegar breytt þeirri mynd. Á meðan Evrópusambandið þróast lengra í átt að sameiginlegum vörnum gæti það hreinlega forðast að dreifa úr sér og þurfa að skuldbinda sig ríki langt norður í Atlantshafi, mitt á milli stórvelda.
Þá stendur eftir hvort trúverðugt sé að leita samstarfs við Norðurlöndin, þar sem sósíal-demókratískir flokkar eru við völd í Noregi og Danmörku og njóta heilt yfir meiri stuðnings í skoðanakönnunum heldur en í mið- og suðurhluta Evrópu, þar sem ysta hægrið er að ná yfirhöndinni, að minnsta kosti um stund.
Söguleg fordæmi
Alþjóðasamskipti, eins og hegðun almennt, byggja á fordæmum, gagnkvæmni og fælingarmætti. Ef eitthvað hefur gengið upp einu sinni, hvers vegna ekki að gera það aftur? Ef einn gerir það, hví ekki aðrir?
Núna virðumst við vera stödd í sögulegri tímalínu þar sem einræði eða blandað einræði tekur við í kjölfar yfirburða lýðræðisins. Við höfum séð einkennin, hegðunina og orðin, en eigum líklega eftir að opna augun fyllilega fyrir því og síðan sjá hversu langt þróunin gengur innanlands í Bandaríkjunum.
Sögulega séð höfum við séð þessar aðstæður í annarri mynd. Árin 1936 til 1939, þegar Þýskaland var undir nasisma og Ítalía fasisma, stóð yfir borgarastríð á Spáni eftir tilraun herforingja undir forysti Franciscos Franco til að steypa af stóli lýðræðislega kjörinni, en vinstri sinnaðri, ríkisstjórn. Lýðræðisríki ákváðu að halda að sér höndum og neituðu að selja ríkisstjórninni vopn, á meðan fasísku ríkin studdu herforingjana með vopnum og loftárásum, allt til sigurs sem leiddi til 36 ára einræðis.
Árið 1938 var gerður frægur friðarsamningur við Adolf Hitler sem átti að tryggja „frið um okkar tíma“, með því að leyfa honum að innlima hluta Tékklands. Donald Trump er hins vegar enginn átakafælinn Neville Chamberlain sem gefur eftir gagnvart yfirgangssegg. Hann er einn af yfirgangsseggjunum, sem nú er að breyta leikreglunum í eigin þágu.





















































Athugasemdir