Ertu nokkuð að lesa þetta á klósettinu? Ef svo er ættir þú að gefa gaum nýjustu fréttum.
Vísindamenn í Boston hafa sýnt fram á að fólk, sem hangir í símanum á klósettinu, er langtum líklegra til að þjást af gyllinæð en aðrir. Snjallsíminn er meira að segja stærri áhættuþáttur þegar kemur að kvillanum en óhóflegur rembingur. Grunur hafði lengi leikið á orsakasamhengi milli snjallsímans og gyllinæðar en fyrst nú staðfestu vísindin hann.
Hvorki er þó ástæða til að standa upp og sturta né örvænta.
Undraverð iðja á dollunni
„Hvílíkur merkishugur,“ ritaði Galileo, „var sá sem lét sig dreyma um að finna mætti leið til að miðla innstu hugsunum sínum til annarra, jafnvel þótt þá skildu að tími og rúm.“
Á tímum endurreisnarinnar furðaði Galileo sig á mætti hins ritaða orðs sem gerði okkur kleift að stökkva milli heimsálfa og eiga samskipti við fólk „sem ekki var fætt og myndi ekki fæðast fyrr en eftir þúsund eða tíu þúsund ár“. Ferðamátanum lýsti hann sem undursamlega einföldum: „Mismunandi uppröðun tuttugu bókstafa á blaðsíðu.“
Galileo gat ekki séð fyrir að fjórum öldum síðar sinnti mannkynið hinni undraverðu iðju á dollunni með nefið ofan í símaskjá. Sennilega gat hann ekki heldur ímyndað sér hvað vísindin ættu eftir að leiða í ljós um athöfnina – það er lesturinn.
Lestur bjargar mannslífum, ef marka má nýlega umfjöllun tímaritsins The New Scientist. Rannsókn sem gerð var við Yale háskóla í Bandaríkjunum sýnir að þeir sem verja þrjátíu mínútum á dag við bóklestur búa við 20 prósent minni hættu á að deyja á næstu tólf árum en aðrir.
Lestur virðist ótrúleg heilsubót:
-
Lestur minnkar stress og er kvíðastillandi. „Þegar við erum kvíðin beinist athyglin inn á við,“ segir sérfræðingur í taugavísindum. „Við lestur neyðumst við til að einbeita okkur að orðunum og sögunni sem veldur því að við slökum á.“
-
Lestur er talinn draga úr þunglyndi og minnka líkamlegan sársauka. Rannsókn, sem gerð var í Brasilíu meðal alvarlega veikra barna, sýndi að læsi skemmtikraftur fyrir börnin sögu fyndu þau síður til en ef skemmtikrafturinn hefði ofan af fyrir þeim með öðrum hætti.
-
Vísindamenn við Stanford háskóla skoðuðu í heilaskanna heilastarfsemi fólks sem las Jane Austen og komust óvænt að því að lestur eykur blóðflæði um heilann allan. Þegar við lesum og ímyndum okkur sögusvið, lykt og bragð – lesum orð eins og „kanill“ eða „sápa“ – virkjast ekki aðeins þær heilastöðvar sem tengjast tungumálinu heldur einnig þær sem valda því að við finnum lykt og bragð. Lestur getur haldið aftur af hrörnun heilans og heilabilun og hægt á elliglöpum.
Slæmu fréttirnar fyrir þann sem er að lesa þennan pistil eru hins vegar þær að heilsufarslegur ávinningur af lestri dagblaða, tímarita og símans á klósettinu er ekki jafnmikill og af lestri bóka.
Næst skaltu því grípa með þér bók.
Hvers vegna að varðveita tungumál?
Í viðtali við dagblaðið Guardian í síðustu viku varaði Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, við því að íslensk tunga væri í útrýmingarhættu. Telur Katrín íslenskuna geta þurrkast út eftir aðeins eina kynslóð vegna útbreiðslu gervigreindar og áhrifa enskrar tungu.
Sjö þúsund tungumál eru töluð í heiminum í dag. Er því spáð að helmingur þeirra verði horfinn áður en öldin er öll.
Katrín sagðist þeirrar skoðunar að okkur bæri skylda til að halda lífinu í „tungumálinu sem svo fáir tala“. Sagði hún okkur „kannski þurfa á sterkari hreyfingu að halda sem spyr hvers vegna við viljum varðveita tungumálið.“
En hvers vegna viljum við varðveita tungumálið?
Kall milli kynslóða
Lestur hefur fjölþættan tilgang. Með lestri sækjum við okkur ekki aðeins upplýsingar. Með lestri styttum við okkur stundir. Sé lesefni valið af kostgæfni er það heilsubót. En lestur er líka kall milli kynslóðanna.
Hvað verður um samskipti okkar við fólkið sem ekki er fætt og fæðist ekki „fyrr en eftir þúsund eða tíu þúsund ár“ ef íslenskan hverfur?
Þótt enska leysti íslensku af hólmi gætum við enn miðlað upplýsingum, stytt okkur stundir, lesið okkur til skemmtunar á klósettinu og jafnvel til heilsubótar. En hyrfi íslenskan væri hið undraverða samtal og samband milli kynslóðanna sem Galileo dásamaði varanlega rofið.













































Athugasemdir