Í nóvember 1933 fékk skipasmíðastöðin í Nakskov á Lálandi, Nakskov Skibsværft, pöntun frá Det Østasiatiske Kompagni, í daglegu tali kallað ØK. Pöntunin hljóðaði upp á eitt stykki skip og þess óskað að það yrði tilbúið til afhendingar í byrjun nóvember ári síðar. Eftir að skrifað hafði verið undir verksamning tóku skipasmiðirnir í Nakskov til óspilltra málanna. Nakskov skipasmíðastöðin var stofnuð árið 1916 og hafði þegar þarna var komið smíðað allmörg skip og ennfremur ýmislegt annað, til dæmis tvö 105 metra há útvarpsmöstur í Kalundborg sem enn standa. Skipasmíðastöðin var um áratugaskeið fjölmennasti vinnustaður á Lálandi og árið 1966, þegar stöðin var 50 ára voru starfsmennirnir 2200. Starfseminni lauk árið 1987. Nokkrar af byggingum voru rifnar en vindmylluframleiðandinn Vestas tók við svæðinu og hefur um árabil framleitt þar vindmylluspaða (þeir lengstu 115 metrar). Starfsmenn Vestas á Lálandi eru um 2200.
Var smíðað til Asíusiglinga
Jutlandia (Jótland á latínu) var stálskip, 133 metra langt og 18 metra breitt ætlað til vöru- og farþegaflutninga. Gert var ráð fyrir 70 manns í áhöfn og rými fyrir 69 farþega. Jutlandia var ætlað að leysa af hólmi eldra skip ØK sem siglt hafði um árabil milli Kaupmannahafnar og Bangkok í Tælandi. Slík sigling tók að jafnaði um 5 vikur hvora leið og skipið flutti farþega og margs konar varning. Stundum hafði Jutlandia viðdvöl í einhverjum höfnum á leiðinni, oftast Rotterdam í Hollandi. Aðbúnaður í skipinu var fyrsta flokks þótt hann hafi ekki jafnast á við það sem gerist um borð í skemmtiferðaskipum nútímans.
24. nóvember 1934 lagði skipið upp frá Kaupmannahöfn, full lestað ýmis konar varningi og farþegar í þessari fyrstu ferð voru 60.
Síðari heimsstyrjöldin batt enda á Asíusiglingarnar
Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út 3. september 1939 lá Jutlandia við bryggju í Rotterdam á leið til Kaupmannahafnar, þetta var 14. ferð skipsins. Jutlandia fór síðan eina ferð til viðbótar til Bangkok og kom til Kaupmannahafnar í janúar 1940.
Eftir heimkomuna frá Bangkok var ljóst að ferðirnar þangað yrðu ekki fleiri, að sinni. Dönsk stjórnvöld sömdu við ØK um að skipið færi eina ferð til Argentínu til að sækja korn. Þegar Jutlandia kom til baka úr þeirri ferð og hafði losað farminn var skipið sent til Nakskov skipasmíðastöðvarinnar þar sem sinna átti viðhaldi og endurnýjun á ýmsum tækjabúnaði. Þangað kom skipið 2. apríl 1940.
Jutlandia var í þurrkví í Nakskov þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku 9.apríl 1940. Vegna skorts á dísilolíu höfðu Þjóðverjar ekki not fyrir Jutlandia sem var ásamt tveimur öðrum skipum ØK félagsins, Java og Falstria, lagt við bryggju á smáeyjunni Slotø, skammt frá skipasmíðastöðinni. Örfáir menn sinntu nauðsynlegum störfum í skipunum þrem fram undir stríðslok 1945. Falstria var í smíðum þegar stríðið braust út og skipið var nær fullgert dregið út á Slotø og lagt þar.
Árás fyrir mistök
3. maí 1945, skömmu fyrir lok síðari heimsstyrjaldar, urðu skipin þrjú fyrir loftárásum Breta, fyrir mistök. Java sökk, eldur kviknaði í Falstria en Jutlandia skemmdist lítið. Eftir loftárásina var Jutlandia siglt út á rúmsjó, í öryggisskyni. Af hinum skipunum tveim er það að segja að Java náðist á flot og var í notkun til ársins 1958 og Falstria var fullgert haustið 1945 og fór í sína fyrstu ferð 30. nóvember sama ár, til Argentínu. Skipið var selt til niðurrifs árið 1964. Viðgerðum á Jutlandia lauk í ágúst 1945 og skipið hóf þá áætlunarsiglingar milli Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna, Asíusiglingarnar voru úr sögunni, í bili.
Kóreustríðið
25. júní 1950 braust út stríð milli Suður- og Norður-Kóreu. Norður-Kórea naut stuðnings Rússa og Kínverja en Suður-Kórea Sameinuðu þjóðanna, einkum Bandaríkjanna. Danir vildu ekki senda hermenn til þátttöku í átökunum en vildu þó leggja sitt af mörkum til stuðnings Sameinuðu þjóðunum. Dönsk stjórnvöld buðu strax fram meðul og sjúkragögn en eftir samningaviðræður var ákveðið að Danir myndu senda spítalaskip og um haustið samþykkti stjórn ØK skipafélagsins að afhenda dönsku stjórninni Jutlandia, tímabundið. Þegar sú ákvörðun lá fyrir var Jutlandia á leið til New York en þegar skipið sneri aftur til Danmerkur var siglt beina leið til Nakskov.
Spítalaskip
Starfsmenn Nakskov skipasmíðastöðvarinnar hefði ekki grunað þegar þeir voru að smíða og innrétta Jutlandia í upphafi, árið 1934, að innan tiltölulega fárra ára yrði öllu innanborðs umbylt.
Það er ærið verkefni að breyta farþega- og flutningaskipi í spítalaskip og í mörg horn að líta. Starfsmennirnir í Nakskov skipasmíðastöðinni höfðu ekki áður fengist við að innrétta spítalaskip en þeir fengu til liðs við sig ýmsa sérfræðinga og verkið sóttist vel. Ákveðið var að innréttaðar yrðu 4 skurðstofur, fjórar sjúkradeildir með samtals 356 rúmum, röntgen deild, augnlækningadeild, tannlæknastofa og ennfremur rannsóknarstofur, apótek og ýmsar sérdeildir. Um miðjan janúar 1951 var allt klappað og klárt, vinnan við breytingarnar hafði tekið tæpa 3 mánuði. Áhafnar- og farþegaklefum var breytt þannig að svefnpláss væri fyrir fjóra í hverjum klefa, ekki tvo eins og áður hafði verið. Mikill áhugi var fyrir störfum á spítalaskipinu, sem dæmi má nefna að þegar auglýst var eftir 42 hjúkrunarfræðingum bárust næstum 4 þúsund umsóknir. Rétt er skjóta því hér inn að í texta Kim Larsen um Jutlandia segir að hjúkrunarfræðingur á skipinu hafi verið 16 ára, hið rétta er að yngsti hjúkrunarfræðingurinn um borð var 25 ára og meðalaldur lækna og hjúkrunarfólks var í kringum fertugt.
Skipið hafði verið málað hvítt og með rauða krossinn málað á síðurnar. Jutlandia sigldi undir dönskum fána, Dannebrog en einnig var flaggað fána Rauða krossins og Sameinuðu þjóðanna.
Kvatt með viðhöfn
23. janúar 1951 lagði spítalaskipið Jutlandia upp frá Kaupmannahöfn. Um 10 þúsund manns höfðu safnast saman á bryggjunni, meðal viðstaddra var danski utanríkisráðherrann. Lúðrasveit lék og flutt voru stutt ávörp. Friðrik IX konungur og Ingiríður drottning höfðu daginn fyrir brottförina komið og skoðað skipið. Skipherra var Kaj Hammerich, sem var forseti Danska rauða krossins. Hann og konungurinn þekktust vel, Hammerich hafði verið yfirmaður konungs, sem þá var krónprins, í flotanum og veitt honum áminningu fyrir óæskilega hegðan á heræfingu. Christen Kondrup, sem verið hafði skipstjóri á Jutlandia árum saman var yfirmaður áhafnarinnar sem taldi 97 manns. Læknar og hjúkrunarstarfsmenn voru 91.
Löng sigling
Þegar Jutlandia mjakaðist frá kajanum í Kaupmannahöfn var framundan löng sigling, alla leið til Japan. Gert var ráð fyrir að siglingin tæki 38 daga. Allt gekk áfallalaust ef frá er talið að klæðskerinn fékk botnlangabólgu og var skorinn upp og yfirlæknirinn datt og sleit hásin.
Vel útbúið skip og eftirsótt en vantaði loftræstingu
Fyrstu sjúklingarnir komu um borð í Jutlandia 10. mars 1951. Þá var skipið í höfninni í Busan í Suður-Kóreu, um það bil 200 kílómetra frá víglínunni. Fljótt kom í ljós að Jutlandia var betur útbúin en bandarísku spítalaskipin, sjúkrastofurnar voru rýmri og öll aðstaða góð. Spítalaskipunum var fyrst og fremst ætlað að hjúkra særðum hermönnum en læknum og hjúkrunarfólki á Jutlandia þótti súrt í broti að mega ekki hjúkra almenningi þegar aðstæður og pláss leyfðu. Um síðir fékkst þó leyfi til að hjúkra almennum borgurum, með því skilyrði að hermenn gengju fyrir. Heimamenn voru því vanir að þurfa að annast ættingja á sjúkrahúsum og heilu fjölskyldurnar vildu því flytja um borð í skipið og elda inni í sjúkrastofunum, en það var ekki leyfilegt.
Þegar voraði og hlýnaði í lofti kom í ljós að loftræstibúnaður í Jutlandia var ekki gerður fyrir aðstæður í Suður-Asíu. Í ágúst 1951 var skipið sent til Rotterdam með 202 sjúklinga og í mars árið eftir til Kaupmannahafnar með 194 sjúklinga. Í þeirri ferð var komið fyrir þyrlupalli á skipinu og ennfremur loftkælingu. Með tilkomu þyrlupallsins varð auðveldara að flytja særða og slasaða um borð, sem þýddi aukið álag á alla, lækna, hjúkrunarfólk og áhöfn.
Stríðslok og heimferð
Kóreustríðinu lauk 27. júlí 1953. Talið er að það hafi kostað um það bil 2,5 milljónir mannslífa og landamæri Kóreuríkjanna voru nokkurn veginn þau sömu og í upphafi stríðsins.
Jutlandia hélt heimleiðis til Danmerkur frá Tókýó 29. ágúst 1953 með 229 sjúklinga og stríðsfanga sem látnir höfðu verið lausir. 16. október kom skipið til Kaupmannahafnar og tekið var á móti því með viðhöfn.
Jutlandia hafði verið 999 daga í þjónustu Sameinuðu þjóðanna og annaðist á þeim tíma um 5 þúsund hermenn frá 24 þjóðum og enn fremur um 6 þúsund (líklega þó mun fleiri) almenna borgara. Meðal þeirra sem nutu þjónustu um borð í Jutlandia var Syngman Rhee, forseti Suður-Kóreu, hann fékk gert við holu í tönn.
Frakt, farþegar, kóngafólk og brotajárn
Eftir að Jutlandia hafði aftur fengið sitt upprunalega hlutverk hóf skipið að nýju siglingar milli Kaupmannahafnar og Bangkok.
Árið 1960 komu tælensku konungshjónin Bhumibol og Sirikt í opinbera heimsókn til Skandinavíu. Heimsóknin byrjaði í Kaupmannahöfn en síðan var siglt með Jutlandia til Óslóar og Stokkhólms. Þremur árum síðar flutti Jutlandia Margréti Þórhildi, þáverandi krónprinsessu í langa opinbera heimsókn til Austurlanda fjær. Ferðin stóð í margar vikur en að henni lokinni hóf Jutlandia enn á ný fastar ferðir milli Kaupmannahafnar og Bangkok. Jutlandia lagði upp í síðustu ferðina frá Kaupmannahöfn 4. janúar 1965. Að þessu sinni var ferðinni heitið til Bilbao á Spáni en þangað hafði skipið verið selt í brotajárn.
Í Kaupmannahöfn er minningarsteinn um spítalaskipið Jutlandia. Steinninn er frá Kóreu og er þakklætisgjöf frá fyrrverandi kóreskum hermönnum. Steinninn var afhentur og komið fyrir við Löngulínu árið 1990.
Rétt er að geta þess að um Jutlandia og hlutverk skipsins í Kóreustríðinu hafa verið skrifaðar nokkrar bækur, sú nýjasta kom út árið 2019.
Lag Kim Larsen Jutlandia kom út á plötunni „Forklædt som voksen“ árið 1986. Flytjendur eru Kim Larsen og hljómsveitin Bellami. Kim Larsen samdi lagið en við gerð textans naut hann aðstoðar Erik Clausen. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan.














































Athugasemdir