Grænlenska þingið hefur samþykkt lög sem takmarka rétt útlendinga til að eiga fasteignir í landinu. Þetta gerist í kjölfar aukins áhuga bandarískra fjárfesta á danska yfirráðasvæðinu sem Donald Trump forseti girnist og segir Bandaríkin þurfa að yfirtaka með einhverjum hætti.
Lögin voru samþykkt seint í gær með 21 atkvæði en sex þingmenn sátu hjá.
Einstaklingar sem ekki eru danskir ríkisborgarar og erlend fyrirtæki munu aðeins mega kaupa fasteignir eða landnotkunarréttindi ef þau hafa verið með fasta búsetu og greitt alla sína skatta á Grænlandi síðastliðin tvö ár.
„Fólk með danskan ríkisborgararétt getur keypt fasteignir og landnotkunarréttindi á Grænlandi,“ segir í nýju lögunum.
Fyrr á þessu ári sýndi könnun danska dagblaðsins Politiken að áhugi Bandaríkjamanna á að eignast fasteignir á Grænlandi færi vaxandi.
Frá því að Trump sneri aftur í Hvíta húsið í janúar hefur hann ítrekað sagt að Bandaríkin þurfi á þessari auðlindaríku eyju, sem er hernaðarlega mikilvæg, að halda af öryggisástæðum og hefur neitað að útiloka valdbeitingu til að tryggja hana.
Nýja löggjöfin þýðir að aðeins fólk og fyrirtæki frá Grænlandi, Færeyjum og Danmörku munu mega kaupa fasteignir og rétt til landnýtingar á Grænlandi.
Samkvæmt Politiken og grænlenska miðlinum Sermitsiaq var deilt um hvort krafa um búsetu ætti að ná til fimm ára eða tveggja ára, eins og reyndin varð. Hægt er að sækja um undanþágu frá reglunum til ráðherra.
Nýju lögin eiga að taka gildi 1. janúar.













































Athugasemdir