Stórt skref var tekið í réttindabaráttu hunda í dag þegar lög um fjöleignarhús voru uppfærð á Alþingi til þess að snúa við réttarstöðu hunda- og kattaeigenda. Það þýðir að gæludýraeigendurnir þurfa ekki lengur leyfi nágranna, heldur þarf aukinn meirihluta nágranna til þess að banna einstaka hunda og ketti, jafnvel þótt íbúðir deili sama stigagangi.
Hundar voru bannaðir
Hundahald var lengi vel bannað í Reykjavík og voru þeir réttdræpir innan borgarmarkanna. Eftir 60 ára hundabann voru hundar loksins leyfðir í Reykjavík árið 1984 með undanþágu, en áfram bannaðir að nafninu til. Það var ekki fyrr en 2007 að hundabanninu var formlega aflétt. Fleiri takmarkanir hafa þó verið áfram, eins og það skilyrði að hunda- og kattaeigendur þurfi leyfi nágranna sinna í fjölbýli til þess að halda dýrin. Í lögum um fjöleignarhús sagði þannig fyrir daginn í dag: „Hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi er háð samþykki 2/ 3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang.“

Í framsöguræðu sinni á Alþingi í haust undirstrikaði Inga Sæland að breytingunum væri ætlað að liðka fyrir hunda- og kattahaldi fólks óháð efnahag og búsetu – enda hefðu fyrri lög orðið til þess að íbúar í fjöleignarhúsum hefðu haft minni möguleika á slíku dýrahaldi en fólk í sérbýli. Um væri að ræða sanngjarnt og málefnalegt skref í átt að nútímalegri löggjöf um gæludýrahald.
„Við tökum mið af því hvernig fólk býr og lifir – og við treystum fólki til að axla ábyrgð,“ sagði hún. „Á undanförnum árum hafa áhrif gæludýra á líðan fólks fengið aukna athygli. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að nærvera gæludýra eykur vellíðan, dregur úr einmanaleika og ýtir undir hreyfingu og útiveru. Margir líta á hund eða kött sem fjölskyldumeðlim og mikilvægan félaga þeirra sem búa einir – ekki síst eldra fólk og ungt fólk í viðkvæmri stöðu.“















































Athugasemdir