Tyrkneskir saksóknarar ákærðu á þriðjudag fangelsaðan borgarstjóra Istanbúl, Ekrem Imamoglu, fyrir 142 brot í gríðarstóru dómsmáli sem gæti leitt til meira en 2.000 ára fangelsisdóms, samkvæmt dómskjölum.
Imamoglu er helsti pólitíski andstæðingur Recep Tayyip Erdogan forseta og er talinn eini stjórnmálamaðurinn sem getur sigrað hann í kosningum. Handtaka hans í mars leiddi til verstu götuóeirða í Tyrklandi síðan 2013. Tyrkland er bandalagsríki Íslands í Norður-atlantshafsbandalaginu (Nato), en undir forsetanum Erdogan hefur molnað undan lýðræði í landinu.
Í tæplega 4.000 blaðsíðna ákæruskjali var þessi borgarstjórinn vinsæli ákærður fyrir fjölda brota, þar á meðal að stýra glæpasamtökum, mútur, fjárdrátt, peningaþvætti, fjárkúgun og svindl í útboðum.
Ríkisfréttastofan Anadolu sagði að ákærurnar gætu leitt til allt að 2.430 ára fangelsisdóms.
Formaður helsta stjórnarandstöðuflokks Tyrklands, CHP, gagnrýndi ákæruna harðlega og sagði hana augljóst dæmi um „afskipti dómstóla“ sem miðuðu að því að koma í veg fyrir að Imamoglu byði sig fram sem forsetaefni þeirra í forsetakosningunum 2028.
„Þetta mál er ekki löglegt, það er algjörlega pólitískt. Tilgangur þess er að stöðva CHP, sem varð efstur í síðustu (sveitarstjórnar)kosningum, og að hindra forsetaframbjóðanda flokksins,“ skrifaði Ozgur Ozel á X.
Ákæran var lögð fram í dag og verður dagsetning réttarhalds ákveðin síðar.
Imamoglu, sem var borgarstjóri stærstu og ríkustu borgar Tyrklands þar til hann var handtekinn, stendur frammi fyrir fjölda ásakana – þar á meðal um njósnir og fölsun á háskólaprófskírteini sínu – sem gætu komið í veg fyrir að hann geti boðið sig fram í forsetakosningunum 2028.
Samkvæmt ákærunni, þar sem 402 grunaðir eru nafngreindir, er Imamoglu sagður hafa stýrt víðfeðmu glæpaneti þar sem hann beitti áhrifum sínum „eins og kolkrabbi“.
„Kosningasvindlari?“
Áður en ákæran var birt hafði Ozel, formaður CHP, fordæmt umfang ásakananna.
„Getur einhver verið bæði kosningasvindlari, með falsað prófskírteini, og verið þjófur, hryðjuverkamaður og njósnari á sama tíma?“ spurði hann.
„Ef þú ásakaðir saklausan mann um aðeins einn af þessum glæpum væri það mikið óréttlæti. En þegar þú skellir þeim öllum á einn mann er það stórglæpur ... En eini glæpur hans er að bjóða sig fram til forseta þessa lands!“
Saksóknarar sögðu einnig að þeir hefðu lagt fram skjöl til hæstaréttar Tyrklands gegn CHP í því sem álitsgjafar sögðu að gæti rutt brautina fyrir lokun flokksins.
Í sérstakri yfirlýsingu staðfesti saksóknaraembættið að það hefði upplýst dómstólinn um ákveðin óreglumál en neitaði fréttum um að það væri að reyna að láta loka flokknum.
CHP hefur verið undir vaxandi þrýstingi síðan flokkurinn náði yfirráðum yfir stærstu borgum Tyrklands í sveitarstjórnarkosningum í mars 2024.
Síðan þá hafa 16 borgarstjórar flokksins verið fangelsaðir.
Í október vísaði dómstóll í Ankara frá máli þar sem lögmæti niðurstaðna forystukosninga flokksins árið 2023 var véfengt og sagði að engin lagastoð væri fyrir því að víkja núverandi forystu úr embætti.
Þessi ákvörðun hefði getað komið Ozel frá völdum, en hann stendur sjálfur frammi fyrir fjölda málaferla, þar á meðal einu fyrir að móðga forsetann.













































Athugasemdir